Ferill 214. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 214 . mál.


906. Frumvarp til laga



um endurskoðendur.

(Eftir 2. umr., 4. apríl.)



I. KAFLI

Almenn ákvæði.

1. gr.

    Með endurskoðanda er í lögum þessum átt við þann sem hefur þekkingu til að gefa hlutlaust og áreiðanlegt álit á reikningsskilum og öðrum fjárhagsupplýsingum til notkunar í viðskiptum, ráðherra hefur löggilt til endurskoðunarstarfa og fullnægir að öðru leyti skilyrðum laga þessara.
    Öðrum mönnum en löggiltum endurskoðendum er eigi heimilt að nota orðið endurskoðandi í starfsheiti sínu. Þá er og óheimil notkun starfsheitis eða firmanafns sem til þess er fallið að vekja þá trú að maður sé endurskoðandi, ef hann er það ekki.


II. KAFLI
Endurskoðendaréttindi.
Skilyrði.
2. gr.

    Rétt til að öðlast löggildingu sem endurskoðandi hefur sá sem fullnægir eftirtöldum skilyrðum:
    er lögráða, hefur forræði á búi sínu og er svo á sig kominn andlega að hann sé fær um að gegna störfum endurskoðanda,
    hefur ekki orðið að sæta því að bú hans sé tekið til gjaldþrotaskipta, sbr. þó 2. mgr.
    hefur óflekkað mannorð, svo sem áskilið er til kjörgengis við kosningar til Alþingis,
    hefur lokið brottfararprófi frá viðskiptadeild Háskóla Íslands með endurskoðun sem kjörsvið,
    hefur unnið að alhliða endurskoðunarstörfum undir stjórn endurskoðanda samtals í þrjú ár, þar af a.m.k. eitt ár að loknu brottfararprófi frá viðskiptadeild, sbr. 4. tölul.,
    hefur staðist próf skv. 3. gr.
    Víkja má frá skilyrði 2. tölul. 1. mgr. að fengnum meðmælum endurskoðendaráðs ef umsækjandi hefur haft forræði á fé sínu að minnsta kosti þrjú undanfarin ár.
    Leggja má að jöfnu við próf það, sem um getur í 4. tölul. 1. mgr., sambærilegt próf frá öðrum háskóla ef prófnefnd skv. 1. mgr. 3. gr. telur sýnt að umsækjandi hafi næga þekkingu á þeim málefnum sem varða endurskoðendur og störf þeirra. Til að staðreyna þetta er nefndinni heimilt að leggja fyrir umsækjanda að gangast undir sérstakt próf á sínum vegum í einni eða fleiri greinum sem kenndar eru á reikningshalds- og endurskoðunarkjörsviði viðskiptadeildar Háskóla Íslands.
    Heimilt er að synja manni um löggildingu ef ákvæði 2. mgr. 68. gr. almennra hegningarlaga eiga við hagi hans.
    Þegar endurskoðandi tekur að sér þjálfun starfsmanns skv. 5. tölul. 1. mgr. skal hann tilkynna það Félagi löggiltra endurskoðenda. Hann skal jafnframt ábyrgjast að nemandinn hljóti tilhlýðilega starfsþjálfun.
    Ráðherra er heimilt að fengnum tillögum endurskoðendaráðs að setja í reglugerð fyrirmæli um undanþágu frá skilyrðum 4., 5. og 6. tölul. 1. mgr. handa þeim sem öðlast hafa sambærilega reynslu og menntun eða eftir atvikum löggildingu í öðru ríki.

Próf og prófnefnd.
3. gr.

    Sá sem öðlast vill löggildingu til endurskoðunar verður að standast próf sem þriggja manna prófnefnd annast. Ráðherra skipar nefndina til fjögurra ára í senn. Skal skipa einn nefndarmann eftir tilnefningu Félags löggiltra endurskoðenda, annan eftir tilnefningu viðskiptadeildar Háskóla Íslands og þann þriðja án tilnefningar og skal hann vera formaður nefndarinnar. Jafnmargir varamenn skulu skipaðir á sama hátt.
    Prófin skulu ná til þeirra greina bóknáms og verkmenntunar sem helst varða endurskoðendur og störf þeirra. Í reglugerð, sem ráðherra setur að fengnum tillögum prófnefndar, skal meðal annars kveðið nánar á um námsgreinar, framkvæmd prófa og lágmarksárangur til að standast þau.
    Próf skulu að jafnaði haldin einu sinni ár hvert.
    Ráðherra getur ákveðið gjald sem greitt skal fyrir að þreyta próf. Fjárhæð gjalds skal eigi vera hærra en sem nemur kostnaði við þóknun prófdómara og þeirra er próf semja.


Löggilding.
4. gr.

    Eftir því sem þörf er á skal sá sem staðist hefur próf skv. 3. gr. leggja fram gögn til stuðnings því að hann fullnægi skilyrðum skv. 2. gr. Hann skal að auki vinna að því skriflegt heit að viðlögðum drengskap að hann muni rækja af trúmennsku og samviskusemi öll þau störf sem honum kunna að verða falin sem endurskoðanda og að hann muni viðhalda menntun sinni. Fjármálaráðherra skal að fengnum tillögum prófnefndar skv. 3. gr. setja reglugerð um endurmenntunarnámskeið fyrir endurskoðendur. Skal þar m.a. kveðið á um lágmarksendurmenntun, námskeiðsgreinar, gjaldtöku og annað er að framkvæmd námskeiða lýtur.
    Ráðherra gefur út löggildingarskírteini handa endurskoðanda.

Skrár.
5. gr.

    Í ráðuneytinu skal halda skrá um þá sem fengið hafa löggildingu til endurskoðunar og þau endurskoðunarfyrirtæki, sbr. 6. gr., sem tilkynnt hafa verið skv. 2. mgr. Skrá þessi skal birt árlega og vera opin almenningi.
    Endurskoðendum og endurskoðunarfyrirtækjum er skylt að tilkynna ráðherra í hvaða sveitarfélögum þeir reka starfsemi.
    Ráðherra skal auglýsa í Lögbirtingablaði veitingu réttinda, svo og ef þau falla niður.


Endurskoðunarfyrirtæki.

6. gr.

    Endurskoðendum er heimilt að stofna félag um rekstur sinn í því formi sem þeir sjálfir kjósa, þar á meðal með takmarkaðri ábyrgð.
    Starfssvið reksturs skv. 1. mgr. má aðeins vera rekstur endurskoðunarfyrirtækis.
    Í sameignarfélagi skulu allir félagsmenn vera endurskoðendur.
    Í hlutafélagi og einkahlutafélagi skal meiri hluti stjórnarmanna vera endurskoðendur.
    Hlutir og einkahlutir mega aðeins vera í eigu:
    endurskoðenda og/eða endurskoðunarfyrirtækja sem starfa á Evrópska efnahagssvæðinu,
    manna sem gegna fullu starfi hjá endurskoðunarfyrirtæki,
    manna sem gegna hlutastarfi hjá endurskoðunarfyrirtæki og gegna ekki öðru launuðu starfi sem ósamrýmanlegt er ákvæði 1. mgr. 7. gr.,
    starfsmannafélaga hjá hlutaðeigandi endurskoðunarfyrirtæki sem eru óháð stjórn þess og eiga eingöngu hlut í því og þar sem félagsmenn eru aðeins úr hópi þeirra manna sem nefndir eru undir 2. og 3. tölul.
    Þeir menn sem nefndir eru í 2. og 3. tölul. 5. mgr. og ekki eru endurskoðendur og þau félög sem nefnd eru í 4. tölul. 5. mgr. mega að hámarki samanlagt eiga 30% af hlutafénu og sameiginlega í mesta lagi ráða yfir 30% atkvæða í félaginu.
    Ráðherra getur heimilað, að fenginni umsögn endurskoðendaráðs, að aðrir en þeir sem nefndir eru í þessari grein geti átt eigendahagsmuni í endurskoðunarfyrirtæki svo fremi að ástæður mæli með því.

III. KAFLI
Störf endurskoðenda.
Almenn ákvæði.
7. gr.

    Störf endurskoðenda felast í endurskoðun reikningsskila og annarra fjárhagsupplýsinga ásamt ráðgjöf og þjónustu innan nærliggjandi sviða svo framarlega sem það hefur ekki áhrif á hlutlægni þeirra.
    Endurskoðendur skulu rækja störf sín af kostgæfni og samviskusemi í hvívetna og halda lög og reglur sem lúta að starfi þeirra.
    Endurskoðendur eru bundnir þagnarskyldu um það sem þeir fá vitneskju um í starfa sínum og leynt á að fara. Starfsmaður endurskoðanda er einnig bundinn þagnarskyldu um þau mál sem hann kann að komast að vegna starfa sinna. Sama gildir um þá sem tekið hafa að sér eftirlit með starfsemi endurskoðanda.
    Starfræki endurskoðandi, eða endurskoðunarfyrirtæki, starfsstöð í fleiri en einu sveitarfélagi skal henni veitt forstaða af endurskoðanda.
    Endurskoðanda er óheimilt að gefa til kynna að hann sé endurskoðandi hjá fyrirtæki eða stofnun sem hann er vanhæfur til að endurskoða, sbr. 9. gr.
    Endurskoðanda er ávallt frjálst að leggja inn réttindi sín og skal þá vátryggingarskylda skv. 10. gr. falla niður. Hafi endurskoðandi lagt inn réttindi sín er honum óheimilt að taka að sér störf sem endurskoðandi, sbr. 1. mgr.

Áritun.
8. gr.

    Áritun endurskoðanda á reikningsskil þýðir, nema annað komi fram af árituninni, að reikningsskilin hafi verið endurskoðuð af honum í samræmi við góða endurskoðunarvenju og að reikningsskilin gefi að hans mati glögga mynd af hag og afkomu aðila í samræmi við góða reikningsskilavenju.

Vanhæfisástæður.
9. gr.

    Endurskoðanda er óheimilt að endurskoða hjá stofnunum og fyrirtækjum:
    ef hann er að einhverju leyti ábyrgur fyrir skuldbindingum viðkomandi stofnana eða fyrirtækja,
    ef hann er undir stjórn eða á annan hátt háður stjórnarmönnum, framkvæmdastjóra, prókúruhafa eða þeim starfsmönnum sem annast eða hafa eftirlit með bókhaldi og fjármálum,
    ef hann er eða hefur verið maki aðila skv. 2. tölul., skyldur eða mægður aðila í beinan legg eða að öðrum lið til hliðar eða tengdur aðila með sama hætti vegna ættleiðingar,
    ef hann sjálfur, venslamenn hans skv. 3. tölul. eða næstu yfirmenn eiga meira en óverulegra hagsmuna að gæta hjá viðkomandi stofnun eða fyrirtæki,
    ef hann er fjárhagslega háður þeim sem endurskoða á,
    ef að öðru leyti eru fyrir hendi þær aðstæður sem eru fallnar til þess að draga óhlutdrægni hans í efa með réttu.
    Endurskoðandi má ekki eiga hlut í fyrirtæki sem hann endurskoðar. Verði ytri atvik, svo sem arfur, gjöf eða samruni fyrirtækja, til þess að endurskoðandi eignist hlut í fyrirtæki umbjóðanda ber honum eins fljótt og auðið er og í síðasta lagi innan eins árs að losa sig við þann hlut eða vísa endurskoðunarverkefninu frá sér ella.
    Endurskoðandi eða endurskoðunarfyrirtæki má ekki í þrjú ár samfellt eiga stærri hluta en 20% af veltu sinni undir einum viðskiptavini sem hann eða það endurskoðar fyrir. Endurskoðendaráð getur veitt undanþágu frá þessari reglu.

Starfsábyrgðartrygging.
10. gr.

    Endurskoðanda er skylt að hafa í gildi starfsábyrgðartryggingu hjá vátryggingafélagi sem hefur starfsleyfi hér á landi vegna fjárhagstjóns sem leitt getur af gáleysi í störfum hans eða starfsmanna hans. Tryggingarskyldan fellur niður ef endurskoðandi leggur inn réttindi sín, sbr. 6. mgr. 7. gr.
    Ráðherra skal að fengnum tillögum Félags löggiltra endurskoðenda ákveða lágmark fjárhæðar tryggingar skv. 1. mgr. og hámark eigin áhættu vátryggingartaka. Skal þá höfð hliðsjón af góðum venjum á sviði vátrygginga og hagsmunum viðskiptamanna endurskoðenda.
    Endurskoðanda er heimilt með samningi um ákveðið verk að takmarka hámark bótaskyldu sinnar vegna rækslu þess við tiltekna fjárhæð sem nemi að minnsta kosti lágmarki starfsábyrgðartryggingar skv. 2. mgr. Slík takmörkun bindur aðeins viðsemjanda endurskoðanda og getur ekki náð til annars tjóns en þess sem stafar af gáleysi.
    Endurskoðandi skal árlega senda ráðuneytinu staðfestingu um að hann hafi í gildi starfsábyrgðartryggingu.

IV. KAFLI
Eftirlit.
11. gr.

    Ráðherra hefur eftirlit með framkvæmd laga þessara.
    Endurskoðanda er skylt að veita ráðherra eða þeim sem ráðherra tilnefnir í því skyni allar nauðsynlegar upplýsingar til að metið verði hvort hann fullnægi þeim skyldum sem mælt er fyrir um í lögum þessum. Er sá sem gegnir eftirliti bundinn þagnarskyldu um það sem hann kemst að raun um að því leyti sem það varðar ekki tilgang eftirlitsins.
    Komi fram við eftirlit að endurskoðandi fullnægi ekki skilyrðum sem mælt er fyrir um í lögum þessum ber ráðherra að fella úr gildi réttindi hans. Ráðherra skal leita álits endurskoðendaráðs áður en hann tekur ákvörðun sína.

V. KAFLI
Endurskoðendaráð og samtök endurskoðenda.
12. gr.

    Ráðherra skipar þrjá menn í endurskoðendaráð til fjögurra ára í senn og jafnmarga til vara.
    Einn nefndarmaður skal skipaður samkvæmt tilnefningu Félags löggiltra endurskoðenda, annar eftir tilnefningu viðskiptadeildar Háskóla Íslands og skulu þeir vera endurskoðendur. Þann þriðja skipar ráðherra án tilnefningar og skal hann vera formaður ráðsins. Skal formaður fullnægja skilyrðum til að vera skipaður í embætti héraðsdómara. Eins skal farið að um skipun varamanna.
    Í hverju máli skal fullskipað endurskoðendaráð úrskurða.
    Kostnaður af störfum endurskoðendaráðs greiðist úr ríkissjóði.
    Endurskoðendaráð skal árlega gera skýrslu um störf sín og skal hún opin almenningi. Í henni skal rekja efnislega alla úrskurði sem fordæmisgildi hafa.

13. gr.

    Endurskoðendaráð getur tekið mál til meðferðar eftir kvörtun eða að eigin frumkvæði.
    Nú telur endurskoðendaráð sýnt að endurskoðandi hafi í störfum sínum brotið svo mjög eða ítrekað gegn lögum eða þeim reglum sem um getur í 2. mgr. 15. gr. að ekki verði við unað að hann hafi áfram réttindi til að vera endurskoðandi, og getur þá endurskoðendaráð í rökstuddu áliti lagt til við ráðherra að réttindi endurskoðandans verði felld niður um tiltekinn tíma eða ótímabundið ef sakir eru miklar.
    Endurskoðendaráð getur í rökstuddu áliti vísað máli til opinberrar rannsóknar af sjálfsdáðum eða að kröfu endurskoðanda ef hann vill eigi hlíta því að mál verði afgreidd af endurskoðendaráði.
    Endurskoðendaráð getur veitt endurskoðanda áminningu eða gert honum að greiða sekt, sbr. 2. mgr. 17. gr. Ef endurskoðandi vill ekki una úrskurði endurskoðendaráðs eða ákvörðun ráðherra um réttindasviptingu getur hann borið sakarefnið undir dómstóla.
    Ráðherra ber að taka afstöðu til tillögu endurskoðendaráðs skv. 2. mgr. innan tveggja mánaða frá því að hún berst honum.

Málsmeðferð fyrir endurskoðendaráði.
14. gr.

    Meðferð mála fyrir endurskoðendaráði fer eftir stjórnsýslulögum. Endurskoðendaráð setur sér nánari reglur um meðferð einstakra málaflokka.
    Ákvarðanir endurskoðendaráðs sæta ekki stjórnsýslukæru.
    Mál skal lagt fyrir endurskoðendaráð með skriflegu erindi og skulu því fylgja nauðsynleg gögn.
    Endurskoðendaráði er heimilt ef sérstaklega stendur á að skylda málsaðila til að greiða gagnaðila sínum málskostnað vegna rekstrar máls fyrir ráðinu.
    Úrskurði endurskoðendaráðs, þar með talið um sektargreiðslu skv. 2. mgr. 17. gr., eða sátt sem kemst á fyrir endurskoðendaráði má fullnægja með aðför eins og dómsúrskurði eða dómsátt.

Félag löggiltra endurskoðenda.
15. gr.

    Félag löggiltra endurskoðenda kemur fram fyrir hönd endurskoðenda gagnvart stjórnvöldum um þau málefni sem stétt þeirra varða.
    Félag löggiltra endurskoðenda setur siðareglur fyrir endurskoðendur. Að fenginni staðfestingu ráðherra á reglunum í heild eða að hluta gilda þær um alla endurskoðendur.
    Félag löggiltra endurskoðenda heldur skrá um þá starfsmenn sem eru í starfsþjálfun, sbr. 5. mgr. 2. gr.

VI. KAFLI
Ágreiningur um störf endurskoðenda.
16. gr.

    Ef endurskoðanda greinir á við umbjóðanda sinn um rétt til endurgjalds fyrir störf sín eða fjárhæð þess getur annar þeirra eða þeir báðir lagt málið fyrir endurskoðendaráð til úrskurðar.
    Hafi dómsmál ekki verið höfðað um ágreiningsefni skv. 1. mgr. áður en það er lagt fyrir endurskoðendaráð verður það ekki borið undir dómstóla á meðan málið er þar rekið.

17. gr.

    Nú telur einhver sem hefur hagsmuna að gæta að endurskoðandi hafi gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða reglum skv. 2. mgr. 15. gr., og getur hann þá lagt fyrir endurskoðendaráð kvörtun á hendur endurskoðandanum. Endurskoðendaráð vísar kvörtun frá sér ef lengri tími en eitt ár er liðinn frá því að viðkomandi átti kost á að koma henni á framfæri eða ef kærandi hefur ekki hagsmuna að gæta eða kæra er metin tilefnislaus.
    Í máli skv. 1. mgr. getur endurskoðendaráð veitt endurskoðanda áminningu. Ef sakir eru miklar eða endurskoðandi hefur ítrekað sætt áminningu getur endurskoðendaráð gert honum að greiða sekt í ríkissjóð allt að 1 millj. kr. eða brugðist svo við sem um ræðir í 2. mgr. 13. gr.

VII. KAFLI
Brottfall réttinda.
18. gr.

    Hafi réttindi endurskoðanda verið felld niður tímabundið samkvæmt einhverju því sem greinir í lögum þessum eða endurskoðandi hefur lagt inn réttindi sín skal veita honum þau á ný eftir umsókn hans án endurgjalds eða prófs ef hann fullnægir orðið öllum skilyrðum til að njóta þeirra.
    Hafi réttindi endurskoðanda verið felld niður ótímabundið samkvæmt því sem í 13. gr. segir getur hann að fimm árum liðnum sótt um heimild til að gangast undir próf skv. 3. gr. Slíka heimild veitir ráðherra að fenginni umsögn endurskoðendaráðs.

19. gr.

    Hafi löggilding endurskoðanda verið felld úr gildi ber honum að skila löggildingarskírteini sínu. Ef hann síðar fullnægir skilyrðum laga þessara til þess að fá löggildingu sem endurskoðandi gilda ákvæði 18. gr.


VIII. KAFLI
Viðurlög.
20. gr.

    Brot gegn lögum þessum og reglum, sem settar verða samkvæmt þeim, varða sektum til ríkissjóðs, sviptingu réttinda eða varðhaldi, nema þyngri hegning liggi við samkvæmt öðrum lögum.


IX. KAFLI
Gildistaka o.fl.
21. gr.

    Hafi endurskoðandi verið sviptur réttindum eða lagt þau inn fyrir 1. júlí 1997 eða svo hefur annars orðið ástatt fyrir honum að hann hafi fyrirgert réttindum sínum um sinn gilda ákvæði þessara laga um það hvort, hvernig og hvenær hann geti öðlast réttindin á ný. Lög þessi raska eigi réttindum sem maður hefur öðlast á grundvelli eldri laga, enda þótt hann fullnægi ekki þeim skilyrðum sem sett eru í 2. gr.


22. gr.

    Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara.


23. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 1997. Falla þá úr gildi lög um löggilta endurskoðendur, nr. 67 31. maí 1976, með síðari breytingum.

Ákvæði til bráðabirgða.


    Ákvæði 4. gr. um endurnýjun löggildingar og viðhald menntunar skulu einnig gilda um þá endurskoðendur sem öðlast hafa löggildingu fyrir gildistöku laga þessara.