Ferill 451. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 451 . mál.


1299. Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Guðmundar Hallvarðsson um virðisaukaskatt af vöruflutningum.

     Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að leiðrétta þá mismunun sem fram kemur í lögum um virðisaukaskatt um að greiða skuli 24,5% virðisaukaskatt af almennum vöruflutningum innan lands en engan virðisaukaskatt af innanlandsflutningi þegar flutt er beint til eða frá landinu (samsettir flutningar)?
    Samkvæmt 2. tölul. 12. gr. virðisaukaskattslaganna eru vöruflutningar milli landa undanþegnir skattskyldri veltu. Það sama á við um flutningskostnað innan lands þegar flutt er beint til eða frá landinu. Rökin fyrir þessari reglu er að erfitt er að skipta flutningskostnaði, t.d. vegna flutninga með skipi sem kemur við á mörgum höfnum innan lands áður en það kemur til endanlegs áfangastaðar. Þá kann hagræðing að ráða hvort flutt er landleiðina eða með skipi.
    Þrátt fyrir að vöruflutningar innan lands séu undanþegnir með þessum hætti hefur það ekki áhrif á samkeppnisstöðu flutningafyrirtækja að því leyti sem skattskyldir aðilar kaupa flutningaþjónustuna. Þeir geta nýtt sér frádráttarheimild laganna (innskatt) og hreinsað þannig skattinn af þjónustunni. Skiptir því ekki máli hvort skattskyldir aðilar kaupa samsetta flutninga án virðisaukaskatts eða láta flytja vöruna með almennum flutningsaðila sem er virðisaukaskattsskyldur. Í þeim tilvikum sem óskattskyldir aðilar kaupa flutningaþjónustu getur þessi undanþáguregla haft áhrif á endanlegt vöruverð. Þar sem flutningar af þessum toga eru að mestu leyti fyrir innlend fyrirtæki og aðra skattskylda aðila má gera ráð fyrir að reglan hafi haft óveruleg áhrif í framkvæmd og hingað til ekki talin þörf á að breyta henni. Með breyttum aðstæðum í landflutningum þar sem bein aðild skipafélaga að þeim fer vaxandi kann hins vegar að vera ástæða til að endurskoða þetta fyrirkomulag með tilliti til samkeppnisaðstæðna og mun það verða athugað á næstunni.