Ferill 619. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 619 . mál.


1311. Skýrsla



félagsmálaráðherra um framkvæmd verkefnis um reynslusveitarfélög.

(Lögð fyrir Alþingi á 121. löggjafarþingi 1996–97.)



    Í 6. gr. laga nr. 82/1994, um reynslusveitarfélög, segir að félagsmálaráðherra skuli hlutast til um að árlega verði lagðar fram á Alþingi skýrslur verkefnisstjórnar reynslusveitarfélaga um framkvæmd verkefnisins. Fyrsta skýrslan skyldi lögð fram vorið 1995 en sú síðasta vorið 2001. Hér á eftir birtist þriðja skýrsla verkefnisstjórnarinnar.
    

Skýrsla verkefnisstjórnar reynslusveitarfélaga


um framkvæmd verkefnisins á árinu 1996.


    Eins og fram hefur komið í fyrri skýrslum verkefnisstjórnar til félagsmálaráðherra sóttu þau 12 reynslusveitarfélög sem félagsmálaráðherra valdi á árinu 1994 um fjölmörg verkefni, eða alls 56.
    Meðferð umsókna reynslusveitarfélaga um tilraunaverkefni tók af ýmsum ástæðum lengri tíma en áætlað var í upphafi. Verkefnisstjórn hefur, m.a. með hliðsjón af því að lög um reynslusveitarfélög gilda aðeins til aldamóta, talið nauðsynlegt að hraða meðferð umsókna reynslusveitarfélaga um tilraunaverkefni þannig að sem fyrst fáist niðurstaða af eða á um umsóknir. Af hálfu verkefnisstjórnarinnar var því lögð áhersla á að fá endanlega niðurstöðu fyrir áramótin 1996-97 um það hvort einstök verkefni næðu fram. Að því er snerti þau verkefni sem enn var óvissa um í lok ársins 1996 leitaðist verkefnisstjórnin við að knýja á um niðurstöðu hjá þeim ráðuneytum sem ekki höfðu gefið endanleg svör við umsóknum. Áður hafði verið leitað eftir umsögnum hlutaðeigandi sveitarfélaga um stöðu verkefna.
    Í upphafi árs 1997 lá ljóst fyrir að verkefnum reynslusveitarfélaga hafði fækkað verulega, úr 56 í 25 verkefni sem náðst hafa samningar um. Þá er eitt verkefni enn í athugun, þ.e. skógrækt í Dalabyggð, og að auki fjögur verkefni á sviði heilsugæslu og málefna aldraðra sem heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið hefur hafnað en er tilbúið að taka til endurskoðunar á árinu 1997, enda verði áhugi fyrir hendi hjá viðkomandi sveitarfélögum. Enn fremur liggur fyrir að þrjú sveitarfélög af þeim 12 sem félagsmálaráðherra valdi á árinu 1994 eru ekki lengur þátttakendur þar sem ekki náðist samkomulag um reynslusveitarfélagaverkefni hjá Borgarbyggð, Snæfellsbæ og Vesturbyggð.
    Þessi fækkun reynslusveitarfélaga og verkefna er í sjálfu sér ekki óeðlileg með hliðsjón af fjölda þeim sem lagt var af stað með í upphafi og því að um nýjungar er að ræða í stjórnsýsluframkvæmd. Er það mat verkefnisstjórnarinnar að þessi afföll takmarki ekki gildi verkefnisins.
    Verkefnisstjórn reynslusveitarfélaga hefur samkvæmt lögum um reynslusveitarfélög yfirumsjón með framkvæmd verkefnisins um reynslusveitarfélög. Henni ber jafnframt, sbr. 3. gr. laganna, að leiðbeina og aðstoða reynslusveitarfélög við undirbúning tilrauna og að vera tengiliður þeirra við einstök ráðuneyti auk þess að veita viðkomandi ráðuneytum umsagnir um óskir reynslusveitarfélaga.
    Starf verkefnisstjórnarinnar hefur fram til þessa einkum beinst að undirbúningsþætti verkefnisins. Nú, þegar staða verkefna er að meginhluta orðin skýr, verður aftur á móti lögð áhersla á umsjónar- og eftirlitsþáttinn. Með það að markmiði mun stjórnin m.a. halda fundi með aðilum heima í héraði og sameiginlega fundi með fulltrúum reynslusveitarfélaga.
    Haustið 1995 var að undangengnu útboði gengið til samninga við Hagvang um úttekt á tilraunum. Er það í samræmi við 6. gr. laga um reynslusveitarfélög þar sem segir að verkefnisstjórnin skuli, að fengnu samþykki félagsmálaráðherra, fela óháðum aðila eða aðilum að taka út tilraunir og meta hvernig til hafi tekist.
    Samkvæmt því yfirliti sem hér fer á eftir eru sex sveitarfélög með verkefni í gangi á sviði byggingarmála, þ.e. Reykjavík, Akureyri, Neskaupstaður, Vestmannaeyjar, Hafnarfjarðarkaupstaður og Garðabær. Fjögur sveitarfélög fara með félagsleg húsnæðismál, Reykjavík, Hornafjörður, Neskaupstaður og Hafnarfjarðarkaupstaður. Þá fara þrjú sveitarfélög, Reykjavík, Hafnarfjarðarkaupstaður og Reykjanesbær, með verkefni á sviði vinnumála, tvö á sviði öldrunarmála og heilsugæslu (Akureyri og Hornafjörður), tvö með mál fatlaðra (Akureyri og Vestmannaeyjar), eitt með menningarmál (Akureyri) og eitt með heilbrigðiseftirlit (Reykjavík). Sex verkefni byggjast á svokölluðum stjórnsýslutilraunum sem fela í sér breytt fyrirkomulag í stjórnsýslu hlutaðeigandi sveitarfélaga (Reykjavík, Akureyri, Hornafjörður, Neskaupstaður, Hafnarfjarðarkaupstaður og Dalabyggð).
    Þau verkefni, sem talin eru hér að framan, eru á sviði fimm ráðuneyta, félagsmálaráðuneytis, heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis, umhverfisráðuneytis, menntamálaráðuneytis, og dómsmálaráðuneytis.
    Með tilliti til þess að staða einstakra reynslusveitarfélagaverkefna er nú að meginefni til skýr þykir við hæfi að birta hér á eftir yfirlit þar sem fram kemur hvaða verkefni samningar hafa náðst um eða eru enn í athugun, eftir sveitarfélögum, og hvaða verkefni hafa fallið niður. Yfirlitið miðast við 1. maí 1997.

I. Reykjavík.


Samþykkt verkefni.


    Stjórnsýslutilraunir í Grafarvogi (dómsmálaráðuneyti, heilbrigðisráðuneyti og félagsmálaráðuneyti). Tilraunaverkefni í því skyni að samræma alla opinbera þjónustu sem veitt verður á einni hverfisskrifstofu.
    Byggingarmál (umhverfisráðueyti). Heimilt að flytja tiltekin afgreiðsluverkefni frá byggingarnefnd til byggingafulltrúa. Samþykkt nr. 614/1995.
    Félagsleg húsnæðismál (félagsmálaráðuneyti). Breyting á fyrirkomulagi framkvæmdalána. Dregið úr eftirlitshlutverki Húsnæðisstofnunar ríkisins með húsnæðisnefnd. Samþykkt nr. 611/1996.
    Vinnumál (félagsmálaráðueyti). Samþykkt nr. 531/1996.
    Heilbrigðiseftirlit (umhverfisráðuneyti). Samþykkt nr. 111/1997.

Verkefni sem hafa fallið niður.


    Löggæsla. Borgin yfirtaki staðbundna löggæslu.
    Málefni fatlaðra. Verkefni svæðisskrifstofu málefna fatlaðra flytjist til borgarinnar og heyri undir Félagsmálastofnun.

II. Akureyri.


Samþykkt verkefni.


    Öldrunarmál og heilsugæsla (heilbrigðisráðuneyti). Nýtt greiðslufyrirkomulag vegna reksturs öldrunarstofnana og yfirtaka á heimahjúkrun. Heimaþjónusta samræmd í stjórnkerfi bæjarins, þ.e. heimaþjónusta, heimahjúkrun og þjónusta við sambýli og elliheimili. Samningur kominn á.
    Byggingarmál (umhverfisráðueyti). Byggingafulltrúi fær heimild til fullnaðarafgreiðslu byggingarleyfisumsókna og framkvæmdaleyfa, en umsækjendur geti skotið úrlausn hans til byggingarnefndar. Samþykkt nr. 229/1996.
    Menningarmál (menntamálaráðuneyti). Verkefni á sviði menningarmála færist frá menntamálaráðuneyti til bæjarins. Samingur við ráðuneyti 20. apríl 1996.
    Mál fatlaðra (félagsmálaráðuneyti). Bærinn yfirtaki sem mest af þjónustu við fatlaða. Samþykkt nr. 331/1996.
    Stjórnsýslutilraunir (félagsmálaráðueyti). Margvíslegar stjórnsýslutilraunir innan bæjarkerfisins.
    

Verkefni sem hafa fallið niður.


    Félagsleg húsnæðismál. Meðferð félagslegra húsnæðismála færist frá Húsnæðisstofnun ríkisins til bæjarfélagsins.
    Vinnumál. Undanþágur frá lögum um atvinnuleysistryggingar, samvinna við ríkisstofnanir um sameiginleg átaksverkefni gegn atvinnuleysi og endurskoðun atvinnuleysisskrár, ásamt stjórnsýslutilraunum á þessu sviði.
    Skipulagsmál. Bærinn eigi frumkvæði að og annist gerð svæðis-, aðal- og deiliskipulagsáætlana.

III. Hornafjarðarbær.


Samþykkt verkefni.


    Öldrunarmál og heilsugæsla (heilbrigðisráðuneyti). Yfirtaka á heilbrigðis- og öldrunarmálum í sýslunni gegn rammafjárveitingu frá ríkinu. Samþykkt nr. 680/1996.
    Félagsleg húsnæðismál (félagsmálaráðuneyti). Yfirtaka á verkefnum Húsnæðisstofnunar ríkisins. Lán löguð að félagskerfinu, engin innlausnarskylda. Samþykkt nr. 193/1997.
    Stjórnsýslutilraunir (félagsmálaráðuneyti). Átak í gæðastjórnun sem lyki með vottun á allri þjónustu bæjarfélagsins eða einhverra stofnana þess skv. ISO 9000 staðli.

Verkefni sem hafa fallið niður.


    Skólamál. Yfirtaka á rekstri framhaldsskóla í A-Skaftafellssýslu gegn rammafjárveitingu frá ríkinu.
    Vinnumál. Stofnun atvinnumálaskrifstofu í samstarfi bæjarfélagsins, verkalýðsfélagsins og Búnaðarsambandsins.

IV. Neskaupstaður.


Samþykkt verkefni.


    Byggingarmál (umhverfisráðuneyti). Heimild byggingarfulltrúa til að afgreiða vissa tegund mála án þess að þau séu lögð fyrir byggingarnefnd. Samþykkt nr. 617/1995.
    Félagsleg húsnæðismál (félagsmálaráðuneyti). Undanþágur frá ákvæðum um skyldur og verksvið húsnæðisnefnda. Samþykkt nr. 115/1996.
    Stjórnsýslutilraunir (félagsmálaráðuneyti). Breytingar á stjórnsýslu bæjarins. Samþykkt nr. 115/1996.


Verkefni sem hafa fallið niður.


    Sálfræðiþjónusta. Sameining sálfræðiþjónustu sem heilsugæslustöð, fræðsluskrifstofa Austurlands, svæðisskrifstofa málefna fatlaðra og félagsþjónusta bæjarins eiga að veita íbúum.
    Veghald. Snjómokstur á Norðfjarðarvegi um Oddskarð.

V. Vestmannaeyjabær.


Samþykkt verkefni.


    Byggingarmál (umhverfisráðuneyti). Heimild byggingafulltrúa til að afgreiða vissa tegund mála án þess að þau séu lögð fyrir byggingarnefnd. Samþykkt nr. 14/1996.
    Mál fatlaðra (félagsmálaráðueyti). Yfirtaka bæjarins á ákveðnum rekstrarþáttum í málefnum fatlaðra. Samningar undirritaðir 3. janúar 1997.

Verkefni sem hafa fallið niður.


    Öldrunarmál. Rammasamningur við ríkið um alla öldrunarþjónustu í Vestmannaeyjum, aðra en sjúkrahúsþjónustu.
    Félagsleg húsnæðismál. Yfirtaka bæjarins á félagslegum húsnæðismálum með rammasamningi við Húsnæðisstofnun ríkisins.
    Skólamál. Yfirtaka á þjónustu Fræðsluskrifstofu Suðurlands í Vestmannaeyjum.
    Stjórnsýslutilraunir. Yfirtaka bæjarins á allri starfsemi ríkissjóðs í Vestmannaeyjum.

VI. Hafnarfjarðarkaupstaður.


Samþykkt verkefni.


    Byggingarmál (umhverfisráðuneyti). Byggingafulltrúa verði veitt heimild til afgreiðslu ákveðinna mála en unnt verði að skjóta úrlausnum hans til byggingarnefndar. Samþykkt nr. 686/1995.
    Félagsleg húsnæðismál (félagsmálaráðuneyti). Starfsfólki bæjarins falið eftirlit og úttektir og dregið úr beinum samskiptum umsækjenda við Húsnæðisstofnun ríkisins. Samþykkt nr. 424/1996.
    Vinnumál (félagsmálaráðuneyti). Bætt þjónusta við atvinnulausa, m.a. með þeim hætti að sú starfsemi verði samþætt starfsemi Félagsmálastofnunar í ríkari mæli en nú og undanþága verði veitt frá reglum um skipan í stjórnarnefnd vinnumiðlunar. Samþykkt nr. 120/1997.
    Stjórnsýslutilraunir (félagsmálaráðuneyti). Gagngerar stjórnsýslubreytingar, m.a. með endurskipulagningu nefndakerfis með það að markmiði að einfalda boðleiðir og gera stjórnkerfið skilvirkara.

Verkefni sem hefur fallið niður.


    Löggæsla. Bærinn yfirtaki rekstur staðbundinnar löggæslu og hafi eftirlit með vínveitingahúsum í Hafnarfirði.
    

Verkefni sem var synjað en verður tekið til athugunar á árinu 1997.


    Mál aldraðra (heilbrigðisráðuneyti). Unnið verði að samþættingu allrar öldrunarþjónustu í bænum.

VII. Garðabær.


Samþykkt verkefni.


    Byggingarmál (umhverfisráðuneyti). Byggingafulltrúa verði veitt heimild til afgreiðslu ákveðinna mála en unnt verði að skjóta úrlausnum hans til byggingarnefndar. Samþykkt nr. 427/1996.

Verkefni sem hafa fallið niður.


    Félagsleg húsnæðismál. M.a. breytingar á lánstíma, dregið úr eftirliti Húnæðisstofnunar ríkisins með húsnæðisnefnd og reglum um greiðslumat breytt.
    Vinnumál. Bætt þjónusta við atvinnulausa, t.d. þannig að Félagsmálastofnun annist greiðslu atvinnuleysisbóta.
    Náttúruvernd. Bærinn fari með ákvörðunarvald um friðun náttúruminja innan lögsagnarumdæmis bæjarins.
    Sálfræðiþjónusta. Sálfræðiþjónusta í skólum. Fallið frá í kjölfar yfirtöku grunnskóla.

Verkefni sem var synjað en verða tekin til athugunar á árinu 1997.


    Mál aldraðra (heilbrigðisráðuneyti).
    Heilsugæsla (heilbrigðisráðueyti).

VIII. Reykjanesbær.


Samþykkt verkefni.


    Vinnumál (félagsmálaráðuneyti). Vinnumiðlun og þjónusta við fólk í atvinnuleit. Samþykkt nr. 671/1996.

Verkefni sem hafa fallið niður.


    Félagsleg húsnæðismál. Bæjarstjórn ákvarðar m.a. fjölda, stærðir og byggingarflokka félagslegra íbúða fyrir hvert ár á grundvelli rammafjárveitingar frá Húsnæðisstofnun ríkisins.
    Stjórnsýslutilraunir. Ný lög um málefni sveitarfélaga gildi að hluta eða öllu leyti í sveitarfélaginu áður en þau öðlast gildi gagnvart öðrum sveitarfélögum.

Ný umsókn sem vísað var annað.


    Vímuvarnir. Bærinn, tollgæslan og lögreglan taki höndum saman og leiti nýrra lausna við misnotkun vímuefna. Verður væntanlega komið á í tengslum við svokallað ECAD-verkefni (European Cities Against Drugs).

IX. Dalabyggð.


Samþykkt verkefni.


    Stjórnsýslutilraunir (félagsmálaráðuneyti). M.a. endurskipulagning nefndakerfis.
    

Verkefni í athugun.


    Skógrækt (landbúnaðarráðuneyti). Sveitarfélagið taki að sér hlutverk Skógræktar ríkisins innan marka sveitarfélagsins og skyld verkefni á sviði gróðurræktar og gróðurverndar.

Verkefni sem hefur fallið niður.


    Vinnumál. Sveitarfélagið reki atvinnuráðgjöf þar sem á einum stað verði sameinuð öll ráðgjöf og aðstoð við atvinnulífið og upplýsingamiðlun.
    

Verkefni sem verður tekið til athugunar á árinu 1997.


    Mál aldraðra (heilbrigðisráðueyti). M.a. bygging og rekstur á dvalar- og hjúkrunarrými fyrir aldraða og yfirtaka á heimahjúkrun.
    

X. Borgarbyggð.


Verkefni sem hafa fallið niður.


    Félagsleg húsnæðismál. Flutningur verkefna frá Húsnæðisstofnun ríkisins til sveitarfélagsins.
    Vinnumál. Atvinnuleysisskráning, vinnumiðlun o.fl. verði hluti af félagsþjónustu sveitarfélagsins.
    Veghald. Sameining rekstrardeildar Vegagerðarinnar í Borgarnesi og áhaldahúss Borgarbyggðar undir stjórn sveitarfélagsins.

XI. Vesturbyggð.


Verkefni sem hafa fallið niður.


    Öldrunarmál. Tilraun með heilsugæslu.
    Málefni fatlaðra.

XII. Snæfellsbær.


Verkefni sem hefur fallið niður.


    Heilsugæsla og öldrunarmál. Yfirtaka á rekstri heilsugæslu og öldrunarþjónustu.