Kjaradeila sérfræðinga sem starfa utan sjúkrahúsa

Þriðjudaginn 27. janúar 1998, kl. 13:47:10 (3018)

1998-01-27 13:47:10# 122. lþ. 52.1 fundur 165#B kjaradeila sérfræðinga sem starfa utan sjúkrahúsa# (óundirbúin fsp.), SJóh
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur

[13:47]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Frá því í haust hafa sérfræðilæknar smám saman verið að segja upp samningum sínum við Tryggingastofnun og nú er svo komið að í sumum greinum eru allir starfandi sérfræðingar án samnings við stofnunina. Lengi vel var ákaflega hljótt um þetta mál. Einstaka maður leitaði til verkalýðsfélagsins síns, félagsmálastofnunar á svæðinu eða til þingmannsins eftir hjálp, þegar þeir stóðu óvænt frammi fyrir himinháum reikningi sem þeir áttu að greiða en engrar hjálpar var að vænta. Verkalýðsfélög gátu ekki vegna reglna um sjúkrasjóði greitt fyrir slíka þjónustu, félagsmálastofnanir gátu ekki hlaupið undir bagga, og svör heilbrigðisyfirvalda voru þau alveg fram yfir áramót, að Tryggingastofnun mundi ekkert greiða en reyndar hefur hljóðið í þeim breyst upp á síðkastið og hefur hæstv. heilbrrh. sagt í hálfgerðum véfréttastíl að þetta verði bætt að einhverju leyti ef sjúklingar gæti þess að reikningar séu nægilega vel útfærðir. Hvernig sem hægt er að ætlast til þess af þeim hópi að hann kunni skil á útskrift reikninga fyrir læknisverk? Þetta fólk hafði alla sína tíð greitt til samfélagsins og átti auðvitað rétt á að fá læknishjálp samkvæmt lögum. En nú virðist hafa orðið kerfisbreyting þannig að ákveðnar aðgerðir fengust ekki lengur gerðar inni á sjúkrahúsunum heldur var vísað á stofur úti í bæ.

Nú hefur frést að samningar væru að nást við sérfræðinga. Lítið hefur heyrst af því um hvað væri verið að semja, en læknar hafa sjálfir lýst yfir að þeir þyrftu að fá allt að 300% hækkun á gjaldskrá til að standa undir kostnaði við fullkominn tækjakost sem þyrfti að vera til staðar á slíkum lækningastofum. Getur hæstv. heilbrrh. upplýst þingheim um hvað verið er að semja og hvort gengið er e.t.v. að stórum hluta krafna sérfræðilækna?