Þjónustugjöld í heilsugæslu

Þriðjudaginn 27. janúar 1998, kl. 19:01:56 (3098)

1998-01-27 19:01:56# 122. lþ. 52.9 fundur 41. mál: #A þjónustugjöld í heilsugæslu# (breyting ýmissa laga) frv., heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur

[19:01]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Ögmundur Jónasson leggur hér fram frv. þess efnis að fólk hætti að greiða komugjöld inn í heilsugæsluna. Þetta frv. hefur verið lagt fram áður og er því ekki nýtt af nálinni. Það sem ég hef lagt til í þessu máli er að komið verði á svokölluðu valfrjálsu stýrikerfi, þ.e. að einstaklingar geti sjálfir ráðið því hvort þeir greiði eina lága upphæð einu sinni á ári og eigi þá frían aðgang að heilsugæslunni það sem eftir er ársins. Ekki hefur náðst samkomulag við Læknafélagið um þetta kerfi sem ég tel mjög mikilvægt að samkomulag náist um. Í þessu sambandi vildi ég segja þetta og minna á að í tíð þessarar ríkisstjórnar hafa ekki orðið verulegar hækkanir á þjónustugjöldum almennt. Varðandi þjónustugjöld í heilsugæslunni var það um áramótin 1995--1996 sem komugjöld hækkuðu um 100 kr. og síðan hefur ekki verið hreyft við þeim.

Varðandi aðrar fyrirspurnir sem hv. þm. kom hér inn á og koma kannski ekki frv. beinlínis við en voru hér til umfjöllunar í dag í fyrirspurnatíma, t.d. um það hvort til greina komi að borga svokallað matargjald á sjúkrahúsum þá hef ég lesið tillögur stjórnarnefndar Ríkisspítalanna í Morgunblaðinu. Þetta er eitt af því sem þeir eru með í huga. Um þetta hefur ekki verið rætt í ríkisstjórn, eins og kom fram í dag, og engin ákvörðun um það tekin.