Lögbinding lágmarkslauna

Miðvikudaginn 28. janúar 1998, kl. 14:07:34 (3131)

1998-01-28 14:07:34# 122. lþ. 54.92 fundur 181#B lögbinding lágmarkslauna# (aths. um störf þingsins), GE
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur

[14:07]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Ég hafði gert ráð fyrir því þegar ég ákvað að kveðja mér hljóðs um störf þingsins að þingmenn yrðu almennt viðstaddir og ég tala nú ekki um þá sem sitja hérna eða eiga sæti á auðu bekkjunum, þ.e. hæstv. ráðherra.

Ég kveð mér hljóðs um lögbindingu lágmarkslauna og ástæðan er sú að ég óska eftir því við þingið að frv. sem liggur fyrir frá 2. des., mál nr. 307, fái sérstaka flýtimeðferð á grundvelli þeirra upplýsinga sem ég hef gert grein fyrir með því að dreifa gögnum til hv. þm. og þar með fréttatilkynningu til fjölmiðla þar sem segir frá að undirritaður hafi verið að kynna sér rök sem liggja fyrir lögbindingu lágmarkslauna. Í ljósi þeirra staðreynda sem ég hef aflað mér eru rök fyrir því að nauðsyn sé að taka þetta frv. fyrir og afgreiða það á þinginu. Sannfæring mín hefur verið sú að nauðsynlegt væri að lögbinda lágmarkslaun á Íslandi. Eftir að hafa kynnt mér skýrslu ILO um lágmarkslaun og eftir að hafa lesið bók sem heitir ,,Spásögn og staðreyndir (Myth and Measurement): um áhrif lögbindingar lágmarkslauna á hagkerfi þjóðanna`` er ég sannfærður um að hér er á ferðinni málefni sem er nauðsyn að taka upp. Þess vegna óskaði ég eftir því við hæstv. forseta þingsins að málið verði tekið upp sem fyrst á dagskrá Alþingis og gefið verði færi á að mæla fyrir því hið fyrsta og það verði tekið til meðferðar í félmn. og málið afgreitt á grundvelli nýrra staðreynda um áhrif lögbindingar lágmarkslauna á hagkerfi þjóðanna.