Lögbinding lágmarkslauna

Miðvikudaginn 28. janúar 1998, kl. 14:17:46 (3137)

1998-01-28 14:17:46# 122. lþ. 54.92 fundur 181#B lögbinding lágmarkslauna# (aths. um störf þingsins), Forseti StB
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur

[14:17]

Forseti (Sturla Böðvarsson):

Í tilefni orða hv. 5. þm. Vesturl. vill forseti taka fram að frv. hans hefur ekki fengið neina sérstaka meðferð heldur hefur verið farið með það eins og önnur þingmannamál. Þegar þingstörf hófust að nýju í gær eftir jólahlé lágu fyrir 34 órædd þingmannafrumvörp og 26 þingsályktunartillögur eða samtals 60 þingmál. Það er verkefni forsetanna að reyna að koma þessum málum að og fá þau rædd og afgreidd til nefnda. Það hefur gengið erfiðlega vegna þess að sá tími sem við höfum markað okkur til umræðna er knappur og virðist ekki nægja til þess að þingmál, bæði stjórnar og þingmanna, fái eðlilega umræðu og hún geti farið fram fljótlega eftir að mál hafa verið lögð fram.

Reglan hefur verið sú að mál eru tekin á dagskrá eftir málsnúmerum eins og eðlilegt er. Löng venja er fyrir að stjórnarfrumvörp fái forgang og mál þingmanna hafa líka verið tekin á dagskrá að nokkru eftir málefnasviðum. En þetta mál þurfum við forsetar að ræða almennt í hópi okkar og við forustumenn þingflokkanna. Eina leiðin í þessum efnum er sú að lengja fundartímann.

Þess er svo að geta eins og áður sagði að það er forsetanna að tryggja að mál komist á dagskrá og fái afgreiðslu til nefndar en forseti getur hvorki, né á hann, að hafa áhrif á störf þingnefnda og þingmenn geta ekki gert þá kröfu til forseta að hann tryggi afgreiðslu mála frá Alþingi. Þar er við meiri hluta alþingismanna að eiga.