Vegáætlun 1998-2002

Fimmtudaginn 29. janúar 1998, kl. 11:42:41 (3169)

1998-01-29 11:42:41# 122. lþ. 55.1 fundur 378. mál: #A vegáætlun 1998-2002# þál., 379. mál: #A langtímaáætlun í vegagerð# þál., samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur

[11:42]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir það sem hv. þm. sagði að það má segja að Ísland sé vanþróað land í vegamálum. Vegáætlunin snýr að því að reyna að fullnægja frumþörfum í vegamálum en er ekki einhver óskalisti um það hvernig hægt sé að ljúka öllu því sem gott væri að geta lokið á næstu þremur eða fjórum árum. Það er laukrétt hjá hv. þm. að þeir vegir sem falla undir þriðja og síðasta tímabilið eru seinast á ferðinni í áætluninni en ef hugmyndin er að ráðast í öll þau jarðgöng sem hv. þm. minntist á áðan, bæði á Austurlandi, Norðurlandi og Vestfjörðum á áætlunartímabilinu býst ég varla við að hægt sé að gera mikið í tengivegum eða flýta vegaframkvæmdum til Þórshafnar. Það er því alveg laukrétt niðurstaða hjá hv. þm. að miðað við þær skoðanir sem hann hefur í vegamálum og þær þarfir sem hann lýsti áðan, ef ætti að fullnægja öllum þeim óskum, er að sjálfsögðu óhjákvæmilegt að stórauka fé til vegamála. Um það erum við sammála en við verðum stundum að sætta okkur við að fjármagn er takmarkað og svo er það nú. Aðalatriðið er að hér er reynt að standa vel að verki og ég vil að það sé tekið fram að það er ekki tilviljun að tólf ára vegáætlun er lögð fram með þeim hætti sem gert er nú á þessari stundu. Það stendur einungis þannig á að ítarlegar tilraunir og athuganir sýndu að fyrri aðferð við samningu vegáætlunar gekk ekki lengur upp. Þá var nauðsynlegt að stýra verkefnum öðruvísi. Hin tilviljanakennda stórverkefnastefna sem við höfum gengið inn á á síðasta áratug hafði gengið sér til húðar og þess vegna reyndum við að koma öðruvísi að málinu.