Kjaradeila sjómanna og útvegsmanna

Fimmtudaginn 29. janúar 1998, kl. 13:49:35 (3193)

1998-01-29 13:49:35# 122. lþ. 55.92 fundur 184#B kjaradeila sjómanna og útvegsmanna# (umræður utan dagskrár), ÁRÁ
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur

[13:49]

Árni R. Árnason:

Herra forseti. Það er eðlilegt að Alþingi Íslendinga ræði málin þegar kjaradeila sjómanna og útvegsmanna virðist komin í hnút eins og sannarlega virðist nú og stefnir í verkfall þeirrar greinar sem skapar mest verðmæti í þjóðarbúi okkar. Auðvitað er það ástand mjög alvarlegt og eðlilegt að menn hafi áhyggjur. Fram undan er sjáanlegt mikið tap verðmæta sem verður ekki unnið upp og líklegt að engu breyti þó að starfsemi hefjist aftur. Það sem er þó alvarlegast er að fjölskyldur verða fyrir miklum skaða og þar á meðal fjölskyldur sem hafa engin áhrif á deiluaðila, hafa engin áhrif haft á hvernig þeir hafa haldið á málum til þessa eða hvernig þeir vinna úr deilunni eins og hún stendur nú.

Það er laukrétt að deiluefnin sem eru alvarlegust eru verðmyndun aflans og áhrif sem stafa af viðskiptum með veiðiheimildir. Um þetta hafa staðið langvinnar deilur þessara aðila og væri rangt að telja það ný efni í stjórnmálum eða kjaramálum á Íslandi. Það sem er þó verst er að þær umleitanir sem hafa orðið til sáttaumleitana eru gersamlega árangurslausar enn sem komið er og verður ekki annað sagt en að allt sem fram kemur sýni að andrúmsloftið milli deiluaðila sé mjög slæmt. Síðustu viðbrögð í fréttatímum sýna að það er laukrétt lýsing. Ég vil hins vegar nota þetta tækifæri til að taka undir þær skoðanir sem hæstv. sjútvrh. lét í ljós að kjaradeilu af þessu tagi verða menn að leysa með samkomulagi og til þess verða deiluaðilarnir sjálfir að sýna samningsvilja í framkvæmd.