Kjaradeila sjómanna og útvegsmanna

Fimmtudaginn 29. janúar 1998, kl. 14:07:20 (3201)

1998-01-29 14:07:20# 122. lþ. 55.92 fundur 184#B kjaradeila sjómanna og útvegsmanna# (umræður utan dagskrár), Flm. SJS
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur

[14:07]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. sjútvrh. fyrir svörin og þakka fyrir þessa umræðu. Ég hafði vænst þess að heyra skýrari svör hjá hæstv. ríkisstjórn varðandi það hvort hæstv. ríkisstjórn hefði hugleitt íhlutun í deiluna. Ég held að það sé mjög nauðsynlegt að þau skilaboð sem deiluaðilar fá héðan séu alveg skýr hvað það snertir. Hæstv. utanrrh. hefði ekki síst haft ástæðu að taka af skarið um sína afstöðu í þeim efnum en nokkurs misskilnings hefur gætt í framhaldi af þeirri ákvörðun hans að fresta Afríkuför sinni þar sem hann telji sig þurfa að vera hér á vettvangi vegna hugsanlegrar íhlutunar stjórnvalda.

Varðandi það sem sagt hefur verið um samhengi þessarar deilu við lögin um stjórn fiskveiða, þá tek ég undir það sem hæstv. sjútvrh. sagði. Svo skjótt sem deiluaðilar koma sér saman um breytingar á þeirri umgjörð þá vænti ég að auðsótt verði að lögfesta þær hér á Alþingi. Hitt þarf að vera alveg ljóst og niðurstaðan af tilraunum undangenginna ára til að taka á þessari deilu er skýr. Hún er sú að deiluaðilar verða að finna efnislega lausn. Þeir verða að koma sér saman um aðferð hvað verðlagningarþáttinn snertir og slíkt samkomulag þarf að halda. Það er engin lausn og verri en engin lausn ef menn veldu þann kost, hugsanlega að undangengnu nokkurra vikna verkfalli, að lögfesta íhlutun og frestun á deilunni.

Við hljótum auðvitað að beina eindreginni hvatningu héðan frá Alþingi og eindregnum tilmælum til deiluaðila um að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að reyna að finna lausn á málinu á þeim dögum sem enn eru til stefnu áður en verkfall hefst.