Vegáætlun 1998-2002

Fimmtudaginn 29. janúar 1998, kl. 14:52:22 (3212)

1998-01-29 14:52:22# 122. lþ. 55.1 fundur 378. mál: #A vegáætlun 1998-2002# þál., 379. mál: #A langtímaáætlun í vegagerð# þál., JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur

[14:52]

Jón Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Mér er ljúft að taka undir það að við hv. 4. þm. Austurl. höfum átt ágætt samstarf um vegamál á Austurlandi og reyndar allur þingmannahópurinn. Um það hvort mér finnist þessi áætlun vera dapurleg eða ekki þá get ég tekið undir það að vissulega hefði ég viljað sjá áætlun um jarðgöng á næstu tólf árum. Það er alveg ljóst. Hins vegar er því ekki að neita að verkefnin í almennri vegagerð eru mjög mikil og þar á meðal hjá okkur. Þau hafa verið tekin í þessa áætlun í meira mæli en áður var og það er jákvætt. En ég vona svo sannarlega að þannig ári á næsta tólf ára tímabili að lag sé til að taka sértæka ákvörðun um jarðgöng. Ég ætla ekki að gefa neinar yfirlýsingar um hvenær ég tel að slíkt gerist. Það væri ekki ábyrg yfirlýsing af minni hálfu en ég vona að okkur takist að stýra efnahagsmálum okkar þannig að við getum aukið í að þessu leyti. Ég tel þá að ef menn vilja auka í væru jarðgöng í forgangi. Hins vegar hefur það verið svo, því miður, að ríkisfjármálum hefur verið þannig háttað á undanförnum árum að áætlanir hafa ekki staðist en vonandi verður þar breyting á.