Búnaðarlög

Þriðjudaginn 03. febrúar 1998, kl. 14:26:29 (3318)

1998-02-03 14:26:29# 122. lþ. 57.3 fundur 368. mál: #A búnaðarlög# frv., landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur

[14:26]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eins og fram kom í framsögu minni hefur ekki enn verið rætt um það milli væntanlegra samningsaðila hvað samið verði um samkvæmt þessu frv. ef það verður að lögum. Ég bendi hins vegar á lista sem nefndin sem samdi frv. lætur fylgja með greinargerðinni. Í umfjöllun um 6. gr. frv. eru talin upp verkefni og undir tölulið II ,,Stuðningur við verndun umhverfis og bætta nýtingu landgæða`` er m.a. átt við friðun og verndun votlendis og eins og hv. þm. veit þá hefur verið unnið að því á vegum landbrn. með góðu samstarfi við umhvrn. og reyndar af nefnd sem skipuð er sameiginlega starfsmönnum þessara beggja ráðuneyta.

Við höfum ekki haft mikla fjármuni til þess að fylgja verkefninu eftir. Ég veit ekki hversu mikla fjármuni verður samið um til þessa verkefnis sérstaklega en bendi á að hér er um það getið ásamt öðrum þáttum sem umhverfismálin varðar. Ég vænti þess að um það geti náðst bærileg samstaða þó mér sé hins vegar ljóst að um þetta hafa verið nokkuð skiptar skoðanir eins og komið hefur fram bæði í ræðu og riti. Ég held hins vegar að hér sé um bæði merkilegt mál og mikilvægt að ræða. Ég hef lýst því yfir sem skoðun minni að verkefnið verði ekki unnið í andstöðu við bændur sem nýta land sitt til ræktunar ef þurrkunin þar kemur þeim til góða. Hins vegar vitum við að í fjölmörgum tilfellum er ekki lengur þörf á því jarðraski eða þeim breytingum á landi sem gerðar voru í góðri trú á sínum tíma.