Efling sauðfjárbúskapar í jaðarbyggðum

Þriðjudaginn 03. febrúar 1998, kl. 18:09:20 (3361)

1998-02-03 18:09:20# 122. lþ. 57.7 fundur 266. mál: #A efling sauðfjárbúskapar í jaðarbyggðum# þál., ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur

[18:09]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég færi hv. þm. þakkir fyrir vandaða ræðu. Í máli hans kom greinilega fram umhyggja hans gagnvart miklu vandamáli. Það eru jaðarbyggðirnar, sauðfjárbændurnir og þessi atvinnugrein sem hefur átt undir högg að sækja. Ég er sammála því að vitaskuld á að skoða möguleika jaðarbyggða þar sem beitilönd eru vannýtt eða betri skilyrði eru til að stunda sauðfjárbúskap en annars staðar. Við þekkjum slík svæði hér á landi. Eina atriðið sem ég vildi gera athugasemdir við í ræðu hans er hófleg bjartsýni hans um útflutningsmöguleika á kindakjöti á næstu árum. Ég er ekki svo bjartsýnn með það. Eins og aðrir er ég sammála um sérstöðu vörunnar, þetta hefur verið reynt áður. Mér finnst ekki rétt þegar við erum að taka á vandamálum sauðfjárbúskapar, sem við þurfum að ræða, og skapa þeim möguleika til að hafa góða afkomu, að gefa í skyn að hægt sé að leysa þetta auðveldlega með aukinni framleiðslu. Það voru að vísu ekki orð hv. þm. en það var gefið nokkuð í skyn að þarna væri vannýttur og óskoðaður möguleiki. Ég lít ekki svo á. Það eru kannski aðrar leiðir sem koma frekar til styrkingar, aðrir þættir í landbúnaði sem mundu e.t.v. skila meiru, eflingu smærri byggðanna í kringum þessa staði. Það er allt til umræðu þannig að ég held að það verði að skoða þetta í dálítið víðara samhengi en hv. þm. lagði upp með. Þó svo ég deili með honum áhyggjum hans af þessu held ég samt að það verði að leita fleiri ráða en að ganga út frá því að við getum á næstu árum auðveldlega stundað útflutning á kindakjöti. Það er torsótt leið þótt ekki sé hún útilokuð.