Vörugjald af olíu

Þriðjudaginn 03. febrúar 1998, kl. 19:35:47 (3372)

1998-02-03 19:35:47# 122. lþ. 57.8 fundur 358. mál: #A vörugjald af olíu# frv., ÁE
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur

[19:35]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa langt mál um frv. Við höfum rætt það og efnisatriði þess áður. Eins og fram hefur komið er meginatriðið þess að við tökum upp kerfi með litaðri olíu og leggjum þungaskatt af, þó þannig að þungaskattur verði áfram á stærri bíla. Olíugjaldið sjálft mun skila 2,4 milljörðum og þungaskatturinn 0,7, samtals 3,1 milljarði þannig að gert er ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs verði óbreyttar.

Eitt meginatriði frv. er þó að hægt er að færa rök fyrir því að þessi útfærsla sé umhverfisvænni og skynsamlegri en fyrri álagning. Viðbótarrök í málinu voru að menn voru komnir í það mikil vandræði með þungaskattskerfið og innheimtu þess að einhverjar róttækar breytingar þurfti að gera. Það hefur hins vegar verið endurbætt þannig að tekjur hafa þar orðið miklu meiri en áætlað var og hefur greinilega verið komið í veg fyrir þá misnotkun eða einhvers konar vantalningu sem áður var.

Það er hins vegar rétt og ég fagna eiginlega því uppleggi hæstv. fjmrh. að leggja málið dálítið í hendur á hv. efh.- og viðskn. til frekari útfærslu. Þetta er ekki einfalt mál. Það þarf að vanda sig mjög vel við þetta. Með nýlegum breytingum á lögum um þungaskatt sjáum við að mönnum geta verið mjög mislagðar hendur hvað þann þátt varðar og er ég þar með að vísa til frv. sem var afgreitt í haust af stjórnarmeirihlutanum þegar Samkeppnisstofnun hafði úrskurðað að 30% álag á þungaskatti á smærri bílum bryti í bága við samkeppnislög, að í stað þess að létta 30% álaginu af þeim bifreiðum sem málið snerist um var 25% gjald lagt á alla þá bíla sem þar komu til greina og þar með hækkaðir skattar á öðrum bílum sem hafði ekki þurft að greiða þungaskatt af. Við í stjórnarandstöðunni lögðumst harkalega gegn þessu.

Það kennir okkur hins vegar að við þurfum að passa okkur mjög vel þegar við gerum þær breytingar sem um er að ræða því þó svo að hægt sé að færa rök fyrir málinu varðandi umhverfisáhrif og að eðlilegra sé að taka gjaldið í kringum olíu eins og hér er lagt til, þá getur þetta allt saman verið álitaefni, t.d. það hvort nota eigi þessa gjaldtöku og þungaskatt með sem svo stóran skattstofn eins og talað er um. Umferðin er skattlögð mjög verulega og þetta orkar allt nokkuð tvímælis, hvort við eigum að hafa svo mikinn hluta af tekjuöflun ríkisins tengdan umferð.

Herra forseti. Sömuleiðis er kostnaður af litun mikið tæknilegt álitamál. Hæstv. fjmrh. upplýsti kostnaðaráætlun upp á 330 millj. Þetta er mikið fé og mér skilst að ekki séu öll kurl komin til grafar í því. Hv. efh.- og viðskn. mun vitaskuld skoða hvort önnur útfærsla á málinu sé heppilegri.

Sömuleiðis er gengið út frá því í frv. að olíuverðið verði 90% af bensínverði en jafnframt er vikið að því að í nágrannalöndunum er algengast að það sé 80% af verði bensíns. Það er mikið álitamál og mér finnst munurinn of lítill eins og sett er upp í frv. en eins og hæstv. ráðherra hefur sagt er þetta allt saman til umræðu og þess vegna breytingar ef menn komast að samkomulagi um betri útfærslu.

Herra forseti. Það verða lokaorð mín að ég tel brýnt að skoða málið í víðara samhengi, þ.e. skattlagningu almennt af bifreiðum. Ég hef verulegar áhyggjur af því hve illa hefur gengið að endurnýja atvinnubílaflotann. Það á bæði við um vöruflutningabíla og ekki hvað síst rútur. Við erum að gera okkur vonir um að nýta ferðaþjónustu enn betur en gert hefur verið og það er til skammar hvernig rútubílafloti okkar lítur út. Greinilegt er að ekki hefur verið afkoma og staða í þeirri atvinnugrein til að endurnýja bílaflota okkar eðlilega. Ég þarf ekki að lýsa því hve þetta er til vansa og dýrt fyrir okkur að vera ekki með góðan atvinnubílaflota en í þessu er líka fólgin slysahætta og ég mundi gjarnan vilja, herra forseti, að hv. efh.- og viðskn. reyndi að skoða málið í víðara samhengi. Við höfum öðru hverju lagt fram hugmyndir og tillögur sem eiga að örva endurnýjun á tilteknum bílum. Ég vil mjög gjarnan halda áfram á þeirri leið vegna þess að vinna atvinnubílstjóra er mjög mikilvæg. Þessi stétt manna hefur ekki notið neinnar sérstakrar velvildar af hálfu löggjafans og mér finnst vel kominn tími til að skoða mál þeirra sérstaklega þannig að þeir geti bæði búið við betri afkomu og eðlilega endurnýjun á atvinnutækjum sínum. Það kemur að þeirri hugsun, sem ég nefndi í upphafi, hvort við séum að leggja of mikil gjöld á þann hluta atvinnulífsins sem tengist atvinnubílum, þ.e. vöruflutningum og fólksflutningum.

Þetta eru allt saman álitaefni. Ég er ekki að kveða upp úr um hvaða stefnu eigi beinlínis að taka í þessu heldur miklu frekar að segja að ég vil skoða málið með opnum huga eins og fjmrh. hefur lagt til. Hins vegar bendi ég á að það er brýnt fyrir okkur að ganga frá málinu þannig að réttlæti og sanngirni séu fólgin í því og að samkeppnisskilyrði séu jöfn en einnig að þessi atvinnugrein nái að rétta úr sér að lokinni þeirri lagasetningu sem við munum fara að vinna að.