Viðskiptabann gegn Írak

Miðvikudaginn 04. febrúar 1998, kl. 13:54:26 (3386)

1998-02-04 13:54:26# 122. lþ. 58.2 fundur 418. mál: #A viðskiptabann gegn Írak# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., Fyrirspyrjandi ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur

[13:54]

Fyrirspyrjandi (Ögmundur Jónasson):

Hæstv. forseti. Hæstv. utanrrh. sagði áðan að íslenska ríkisstjórnin væri sammála refsiaðgerðunum. Hann sagði jafnframt að hún hefði ekki séð ástæðu til að gera sérstaka samþykkt um málið.

Við erum að tala um staðhæfingar þess efnis sem koma frá ábyrgum aðilum, þar á meðal stofnunum Sameinuðu þjóðanna, að mörg hundruð þúsund manns hafi látið lífið af völdum þessara refsiaðgerða. Ég hef einvörðungu tvær mínútur til ráðstöfunar og ég ætla að segja þetta:

Ákvörðun um viðskiptabannið á Írak var tekin í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Framkvæmd viðskiptabannsins er hins vegar í höndum einstakra fullvalda ríkja sem bera hvert fyrir sig ábyrgð á gerðum sínum og afleiðingum þeirra. Þessi ábyrgð er lagaleg, siðferðileg og pólitísk. Enda þótt ákvarðanir öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna séu skuldbindandi þá eru til þær aðgerðir sem undir öllum kringumstæðum er rangt að framfylgja. Ef ákvarðanir öryggisráðsins stríða gegn grundvallarreglum og markmiðum Sameinuðu þjóðanna og þeim samningum og sáttmálum um mannréttindi sem þjóðir heimsins hafa skuldbundið sig til að fylgja, þá er rangt undir öllum kringumstæðum að fara að vilja öryggisráðsins og þetta segir maður sem vill veg Sameinuðu þjóðanna sem mestan. Ég tel hins vegar að verið sé að misnota nafn Sameinuðu þjóðanna á grófan hátt og grafa undan tiltrú almennings á þessari mikilvægustu alþjóðastofnun heimsins.

Hér gefst ekki tími til að ræða hinar lagalegu hliðar þessa máls, t.d. þá staðreynd að það mundi flokkast undir alvarlegt hryðjuverk að hóta og síðan framkvæma aðgerðir sem hafa í för með sér dauða 100 saklausra barna á degi hverjum. Þetta er hins vegar að gerast í Írak. Hér gefst ekki heldur tækifæri til að ræða nánar hinar pólitísku hliðar þessa máls, t.d. þá staðreynd að Bandaríkjamenn og Bretar sem virðast ákafastir talsmenn aðgerðanna gegn Írökum studdu (Forseti hringir.) sjálfir Saddam Hussein beint og óbeint með vopnasölu þegar hann var Washington þóknanlegur, jafnvel eftir að ljóst var að hann bjó yfir efnavopnum og beitti þeim gegn saklausu fólki. Og efnin (Forseti hringir.) í þessi efnavopn keypti hann m.a. af Bretum eftir árásirnar á Kúrda 1988.

Kjarni málsins er sá að fórnarlamb (Forseti hringir.) þessara aðgerða er ekki Saddam Hussein (Forseti hringir.) heldur alþýða manna í Írak. Þess vegna er sú krafa sem við hljótum að reisa að viðskiptabannið verði numið úr gildi og þjóðir heimsins hætti að ofsækja saklaust fólk.

(Forseti (ÓE): Forseti verður nú að hvetja hv. þingmenn til þess að gæta tímamarka. Það getur ekki verið mjög skemmtilegt að tala undir þessum bjölluhljómi.)