Efling sauðfjárbúskapar í jaðarbyggðum

Miðvikudaginn 04. febrúar 1998, kl. 15:36:37 (3418)

1998-02-04 15:36:37# 122. lþ. 59.6 fundur 266. mál: #A efling sauðfjárbúskapar í jaðarbyggðum# þál., Flm. EOK
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur

[15:36]

Flm. (Einar Oddur Kristjánsson):

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir þær umræður sem urðu um þetta mál bæði í gær og nú í dag. Þær hafa verið ákaflega gagnlegar og ákaflega uppörvandi. Eins og gefur að skilja er þessi tillaga ósköp fyrirferðarlítil og það er náttúrlega ekki skilgreint neitt hvað átt er við þegar talað er um að efla jaðarbyggðirnar. Það er ekki farið út í að skilgreina það, enda þótti okkur það ekki við hæfi. Hæstv. landbrh. kom inn á þetta í máli sínu í gær. En það sem við erum að hugsa held ég sé nokkuð ljóst. Jaðarbyggðir þar sem beit er nóg og beitiland er mikið. Ég þekki margar slíkar sveitir heima á Vestfjörðum. Ég gæti nefnt dæmi úr kjördæmi hæstv. ráðherra. Ég gæti nefnt Þistilfjörð þar sem lambféð gengur sumardaginn langan í konfekti. Á þessum svæðum er mjög æskilegt að geta beitt sauðfé.

Ég vil líka taka undir það sem komið hefur hér fram að auðvitað er það svo að margt annað gæti orðið til styrktar jaðarbyggðinni. Og það er rétt að horfa til þeirra hluta, svo sem hlunnindabúskapar, æðarvarpsins, hrognkelsaveiðanna og rekans, sem ég þekki vel heima og styrkir byggðirnar þar víða. En hugsun okkar flutningsmanna var að þetta væri tillaga um að styrkja sauðfjárrækt vegna þess að við trúum því og þykjumst vita að sauðfjárræktin er þrátt fyrir allt sá hornsteinn þessara byggða sem margt annað stendur og fellur með.

Í snarpri og snöfurmannlegri ræðu hv. þm. Svavars Gestssonar í gær, fluttri þessu máli til styrktar, kom fram að auðvitað hefði það litla þýðingu að vilja styðja jaðarbyggðirnar ef ekki fylgdi með sá vilji að vera tilbúinn til að mismuna. Ég tel þetta, herra forseti, alveg hárrétt hjá hv. þm. Það verður að fylgja með vilji til að mismuna og það er sannarlega hugsun flutningsmanna þessarar þáltill. Þetta er tillaga um að mismuna til þess að styrkja þessar byggðir þar sem beitin er nægjanleg, þar sem sauðfjárræktin getur haft úrslitaáhrif um hvort byggðirnar lifa eða deyja. Ég vil líka taka fram að ég held að það væri óráð ef við létum Bændasamtökin um þetta. Við skulum forða þeim frá að drekka úr þeim bikar. Við eigum að gera þetta sjálfir. Menn eiga að axla pólitíska ábyrgð sjálfir. Við, sem viljum styðja þessi mál, eigum að gera það og við eigum að koma fram með tillögur um það hvernig menn vilja mismuna, því það er ofraun Bændasamtökunum að gera það. Þeim er það er alger ofraun.

Ég vil þakka þessa umræðu. Mér hefur fundist hún mjög góð þó einstaka atriði valdi mér dálitlum vangaveltum, samanber ummæli hv. formanns landbn., Guðna Ágústssonar, hér áðan vegna þess að ég trúi því að óframleiðslutengdir styrkir til jaðarbyggðanna geti verið eitruð peð. Ég hef a.m.k. mjög á tilfinningunni að það sé einmitt aðferðin sem þeir í Brussel nota, ekki til að halda jaðarbyggðum lifandi til frambúðar, heldur einmitt til að deyða jaðarbyggðirnar. Ég vil því vara við þeirri hugsun þó ég þykist vita að góður hugur sé þar að baki, vegna þess að það verður einmitt að styrkja framleiðsluna, styrkja bændurna, styrkja þá vinnu sem þeir eru sérfræðingar í og styrkja þær atvinnugreinar sem landið býður upp á til að við getum nýtt þarna það sem skiptir öllu máli og eins og kom fram í grg. okkar, þar sem einmitt fjárfestingarnar eru svo mjög til staðar, einmitt þar sem þekkingin á atvinnugreininni er til staðar og svo nauðsynlegt er að varðveita hana.

Ég vil, herra forseti, að lokum mælast til þess að þetta mál verði að lokinni þessari umræðu sent hv. landbn. til umfjöllunar.