Þjóðlendur

Fimmtudaginn 05. febrúar 1998, kl. 13:41:21 (3462)

1998-02-05 13:41:21# 122. lþ. 60.2 fundur 367. mál: #A þjóðlendur# frv., JóhS
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur

[13:41]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Við erum að fjalla um stærsta mál þingsins í langan tíma, mál sem jafna má við mikilvægi sameignarákvæðis íslensku þjóðarinnar á auðlindum sjávar og sem hefur gífurlega þýðingu fyrir framtíð og komandi kynslóðir. Við erum í raun og sanni að fjalla um það hverjir eigi Ísland, svo mikilvægt er þetta mál fyrir framtíð íslensku þjóðarinnar. Þess vegna er afar þýðingarmikið að vel sé til þessarar lagasetningar vandað og þannig að málum staðið að skýrt sé kveðið á um að hálendið og allt landsvæði utan eignarlands sé sameign íslensku þjóðarinnar. Því er það nokkur fingurbrjótur í annars mjög góðu frumvarpi sem er í samræmi við þau frumvörp sem við jafnaðarmenn höfum í marga áratugi lagt fram um þetta efni, að í því eru ákvæði sem hafa þann tilgang að reyna að ná einhverri tengingu við fráleitt frv. hæstv. félmrh. sem gengur þvert á ákvæði þessa mikilvæga máls sem við ræðum hér.

Það er vissulega meginatriði í því frv. sem hér er til umfjöllunar að verið er að staðfesta eignarrétt þjóðarinnar á hálendinu þar sem helstu náttúruperlur landsins eru og auðlindir þjóðarinnar fyrirfinnast. Það er tímamótaákvörðun sem hér er tekin verði þetta frv. að lögum og stærsta ákvörðun þingsins um langan tíma. En það skiptir líka öllu máli hvernig stjórnsýslunni verður háttað á hálendinu og hvernig eigi að ákveða landnýtinguna. Eiga nokkur sveitarfélög að hafa stjórnsýsluréttinn og ráða landnýtingu og skipulagi á miðhálendinu sem er um 40% af öllu Íslandi, eða viljum við hafa aðra skipan þar á?

Ég vænti þess að hæstv. forsrh. komi fljótlega í sal til að hlýða á mál mitt því ég hef nokkrar spurningar fram að færa.

(Forseti (StB): Hæstv. forsrh. er í húsinu og verður hér innan stundar.)

Með frv. um þjóðlendur er fyrst og fremst verið að ákvarða eignarrétt þjóðarinnar á hálendinu en ekki hver fari með stjórnsýsluna. Mér finnst afar mikilvægt að fyrir liggi í þessari umræðu hver sé skilningur hæstv. forsrh. varðandi stjórnsýsluna, þ.e. nú og ef frv. félmrh. verður samþykkt. Annars er ekki verið að ræða málið út frá réttum forsendum. Hæstv. félmrh. hefur haft þann ótrúlega skilning að staðan í dag sé þannig, eins og hann orðar það, að hér um bil allt hálendið skiptist í afrétti að undanteknum jöklum. Hæstv. félmrh. telur að stjórnsýsla sveitarfélaga og stjórnsýsluskyldur nái nú til alls landsins að undanteknum jöklunum. Ég tel afar mikilvægt að hæstv. forsrh. svari því hvort hann sé sammála hæstv. félmrh., að stjórnsýslan nái nú til alls landsins að jöklum undanteknum.

Ég hef nokkrar spurningar fram að færa við hæstv. forsrh. Því miður gat ég ekki verið við umræðuna síðari hluta þessa morguns og ég vona að ég sé ekki að endurtaka spurningar sem hæstv. forsrh. hefur fengið áður. Ef svo er vil ég biðja hann um að virða mér það til betri vegar.

Í sveitarstjórnarlögum og breytingum sem urðu á þeim 1986 um afrétti segir, með leyfi forseta:

,,Nú eiga íbúar tiltekins sveitarfélags upprekstrarrétt í afrétt sem ekki hefur verið skipað innan staðarmarka neins sveitarfélags og skal hann þá teljast til þess sveitarfélags.``

Með þessu ákvæði má segja að stjórnsýslan nái til afrétta. En það er auðvitað fjarstæða sem félmrh. heldur fram, að afréttir nái til alls hálendisins og óbyggða. Stór landsvæði teljast ekki til afrétta. Varla telst Ódáðahraun sem er 8.000 km2 svæði, til afréttar eða þá Sprengisandur. Og þó heldur ráðherrann því blákalt fram úr ræðustól að hér um bil allt hálendið skiptist í afrétti að undanteknum jöklum og því hafi sveitarstjórnir nú þegar stjórnsýsluvald á öllu landinu að undanskildum jöklum. Um þetta vil ég spyrja hæstv. forsrh., hvort hann sé þessu sammála. Það er brýnt að fá fram skoðun ráðherrans á þessu og hvort hann sé sammála því að stjórnsýsluvald sveitarfélaganna nái nú þegar til alls landsins nema jöklanna.

[13:45]

Einnig vil ég spyrja hæstv. forsrh. hvort hann telji eðlilegt að sveitarstjórnirnar fái stjórnsýsluvald og þar með ákvarðanir um landnýtingar- og skipulagsvald á landinu öllu og þar með talið hálendinu og jöklunum sem hæstv. félmrh. heldur fram að sé það eina sem nú er undanskilið stjórnsýsluvaldi sveitarfélaganna en jöklunum vill hann nú ná undir stjórnsýslu þeirra. Ég spyr að gefnu tilefni vegna orða hæstv. forsrh. við umræðuna fyrir jól um frv. hæstv. félmrh. þar sem hann sagði orðrétt, með leyfi forseta:

,,Það er rétt að taka fram þannig að það sé ekki misskilið að þjóðlendufrv. byggir á því að landinu öllu sé skipt í sveitarfélög ...``

Ég vil spyrja hæstv. forsrh. hvað hann meinar með þeim orðum að þjóðlendufrv. byggi á því að landinu sé öllu skipt í sveitarfélög. Það hafa ýmsir orðið til að gagnrýna það mjög að fela stjórnsýslu- og skipulagsmál á hálendinu örfáum sveitarfélögum. Vandamálin við það geta orðið margvísleg og nefni ég, með leyfi forseta, athyglisverða ábendingu frá orkumálastjóra sem fram kom í Morgunblaðinu 9. janúar sl. Hann bendir m.a. á í athugasemd sinni, að ef stjórnsýsla og skipulagsmál á hálendinu verði í umsjá þeirra 50 hreppa sem liggja að hálendinu, sé viðbúið að sama virkjunarmannvirkið tilheyri mismunandi, hreppum: stöðvarhús í einum, stíflur og lón í öðrum og línulagnir og aðkomuvegir í enn öðrum. Hagsmunir þessara sveitarfélaga muni rekast á því opinber gjöld, einkum fasteignaskattar, miðist við þann hrepp þar sem stöðvarhúsið er. Þetta bjóði þeirri hættu heim að virkjunaraðili hljóti mjög misjafnar undirtektir í mismunandi hreppum með tilheyrandi deilum og tilkostnaði við sættir.

Ég teldi það mikið slys ef frv. hæstv. félmrh. nær fram að ganga en með því yrði sveitarfélögum sem liggja að hálendinu falið stjórnsýsluvald yfir hálendinu en með því fengju nokkur sveitarfélög allt framkvæmdarvald og ákvörðun um nýtingu á miðhálendinu sem telst vera 40% af öllu landinu jafnvel þó staðfest væri með lögum að miðhálendið væri sameign allrar þjóðarinnar. Með því værum við í raun að taka sömu stefnuna og orðið hefur með fiskinn í sjónum, að jafnvel þótt hann sé sameign allrar þjóðarinnar, þá hafa örfáir sægreifar ráðstöfunarrétt yfir honum og selja síðan nýliðum aðgang að fiskimiðunum. Svipar þetta ekki í raun og sanni til þess sem getur gerst varðandi landið ef frv. hæstv. félmrh. nær fram að ganga? Erum við ekki þrátt fyrir lög um að miðhálendið sé sameign þjóðarinnar að fela 3--4% landsmanna vald og ákvörðun um nýtingu yfir svæði sem nær yfir hálft Ísland? Gætu þau 40 sveitarfélög þá ekki, ef þau hefðu stjórnsýsluna á sinni hendi, tekið ákvörðun um að taka upp gjald eða aðgangseyri að einhverjum náttúruperlum þjóðarinnar á hálendinu? --- svo ég reyni að draga upp samlíkingu með því sem gerst hefur með sameign okkar á fiskimiðunum þegar þeir sem hafa heimildirnar selja nýliðunum aðgang að auðlindum sjávar, sem við skulum ekki útiloka að geti orðið ef hið stórvarasama frv. félmrh. nær fram að ganga.

Grundvallaratriðið er auðvitað að hálendið verði með lögum lýst sem sameign þjóðarinnar en það skiptir líka máli í höndum hvaða stjórnsýsluvalds stjórnsýslan er og hvað sé lagt til grundvallar í ákvörðun um landnýtingu. Það er ekki vafi í mínum huga að stjórnsýslan á hálendinu á að vera í höndum ríkisvaldsins en ekki örfárra sveitarfélaga sem liggja að hálendinu því að skipulag hálendisins skiptir alla íbúa landsins máli en ekki bara þá sem búa í nálægð við hálendið. Það er vissulega eitthvað sem ekki er óumbreytanlegt eða endilega rétt að stjórnsýslan á afréttum eigi að vera í höndum sveitarfélaganna þó ákvæði sveitarstjórnarlaga frá 1986 kveði á um slíkan stjórnsýslulegan rétt sveitarfélaga. Það er ekki sjálfgefið að réttasta og eðlilegasta skipulagið sé að stjórnsýslan á afréttum sé í höndum sveitarfélaga þó þau hefðu þar áfram beitarrétt. En aðalatriðið er nú hvernig við viljum haga stjórnsýslunni á hálendinu og hvaða forsendur eigi að liggja til grundvallar við ákvörðun landnýtingar. Kannski þurfum við einfaldlega að átta okkur á því hvort við höfum markað þá framtíðarstefnumótum í stórum málaflokkum eins og orkumálum, umhverfismálum, ferðamálum og samgöngumálum á hálendinu, sem að mínu mati þurfa að liggja til grundvallar þegar við skipuleggjum hálendið. Og einnig hitt: Liggur eitthvað á að ákvarða hvernig við viljum haga stjórnsýslunni á svæðinu eða er nauðsynlegt að ákvarða hér og nú samhliða því að við setjum á lögbókina að hálendið sé sameign þjóðarinnar, hver fari þá með stjórnsýsluvald?

Fari mál svo að þau umdeildu ákvæði í frv. félmrh. nái ekki fram að ganga, þá er ekki að óbreyttu þjóðlendufrv. verið að ákveða hver fari með stjórnsýsluvald á hálendinu eða ákvörðun um landnýtingu þar en spurningin er líka sú hvort eitthvað liggi á að ákveða hver fari þar með stjórnsýsluvald. Við getum auðvitað velt fyrir okkur hvort rétt sé að ráðast í skipulagningu á hálendinu áður en við höfum markað okkur stefnu í stórum málaflokkum, hvernig við viljum haga nýtingar- og verndarsjónarmiðum á hálendinu, hvernig við viljum marka stefnu í ferðamálum til framtíðar o.s.frv. Við hljótum að leggja mikla áherslu á náttúruverndarsjónarmið og umhverfisvernd á hálendinu. Þar er einnig að finna helstu vatnsaflsvirkjunarkosti landsmanna og um það þarf að nást víðtæk sátt hvernig við finnum jafnvægi milli nýtingar- og verndarsjónarmiða á hálendinu. Örfá sveitarfélög sem hagsmuna hafa að gæta geta því ekki og eiga ekki að hafa rétt til að ráða því hvernig við skipuleggjum og nýtum hálendið. Ég tel að skynsamlegra væri að taka þessi mál í réttri röð, samþykkja frv. forsrh. sem sennilega þarf að taka breytingum, a.m.k. ef frv. hæstv. félmrh. nær ekki fram að ganga, og setja á grundvelli þess í gang vinnu svokallaðrar óbyggðanefndar sem hefur það hlutverk að úrskurða um eignarrétt innan þjóðlendna, að kanna og skera úr um hvaða land telst til þjóðlendna og hver séu mörk þeirra eignarlanda og skera úr um mörk þess hluta þjóðlendna sem nýtt eru sem afréttur. Þeirri vinnu á að vera lokið 2005. Að því loknu væri hægara að ráðast í framtíðarskipulag miðhálendisins Íslands þegar búið er að skera úr um hvaða land telst til þjóðlendna og úrskurða um eignarréttindi innan þjóðlendna. Á þeim tíma hefði Alþingi mótað framtíðarstefnu í stórum málaflokkum sem þarf að liggja til grundvallar skipulagi á hálendinu eins og í orkunýtingar-, umhverfis- og náttúru- og ferðamálum og hvernig við viljum haga stjórnsýslunni á svæðinu og ákvörðun um landnýtingu.

Ef nú er talið nauðsynlegt að fyrir liggi ákvörðun þingsins um hver hafi stjórnsýsluvald yfir miðhálendinu mætti út af fyrir sig gera það í frv. um þjóðlendur og tel ég vel koma til álita tillögu þá sem fram kom árið 1991 sem margir gagnrýndu þá, um að miðhálendi Íslands væri sérstakt umdæmi og sérstök samráðsnefnd undir forsæti forsrh. færi með stjórnsýsluvald þar. Ég vil í þessu sambandi vitna í þá vinnu sem fram hefur farið um framtíðarskipulag miðhálendisins sem unnin hefur verið á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða um breytingu á skipulagslögum sem varð að lögum 1993. Vissulega hefur farið fram mjög gagnleg vinna í þeirri samvinnunefnd sem skipuð var á sínum tíma til að gera tillögur um skipulag miðhálendisins en a.m.k. sums staðar virðist gæta misskilnings í því að með þessu ákvæði hafi verið tekin ákvörðun um hver fari með stjórnsýsluvald á miðhálendinu og um það hefur ekki verið tekin ákvörðun. Aftur á móti mundi frv. félmrh. ákvarða stjórnsýsluna á miðhálendinu og skjóta um leið lagastoð undir tillögur þær sem nú liggja fyrir um skipulag miðhálendisins sem ég teldi vera stórslys. Þar með væri í reynd tekin úr höndum þingsins stefnumótun í stórum málaflokkum sem ákvarðanir um landnýtingu á miðhálendinu ættu að byggja á en stefnumótun í þeim málaflokkum væri í veigamiklum atriðum tekin af þeim aðilum sem að þessum skipulagstillögum hafa unnið sem síðan yrði staðfest af ráðherra. Vil ég í þessu sambandi vitna í grein í Morgunblaðinu eftir Trausta Valsson. En þar kemur eftirfarandi fram, með leyfi forseta:

,,Nefndinni hefur verið leyft að búa til nýja orkumála-, samgöngu-, ferðamála- og verndunarstefnu`` --- þegar hann vísar í tillögur miðhálendisnefndar. Og reyndar hefur verið á það bent að samvinnunefndin hafi farið út fyrir það valdsvið sem markað var með ákvæði til bráðabirgða. Um það segir Trausti Valsson, með leyfi forseta:

,,Það er ekkert minnst á að lögsöguréttur og uppskipting hálendisins eigi að fylgja í kjölfarið. Samt sem áður hafa skipulagsyfirvöld og umhvrn. leyft nefndinni að gera slíka uppskiptingu að nánast forsendu og á þessu sama tímabili hleypt af stokkunum aðal- og svæðisskipulögum sem ganga út frá því að land ofan markalínunnar verði með fullvissum hætti aukið við lögsagnarumdæmi viðkomandi byggða. Bráðabirgðaákvæði hefur ekki veitt leyfi til skipulagsstarfsins heldur það að nefndin og skipulagsyfirvöld skyldu túlka þetta ákvæði sem ákvörðun Alþingis um að skipta miðhálendinu milli aðliggjandi sveitarfélaga.``

Tillögur þær sem nú liggja fyrir um skipulag miðhálendisins hafa verið töluvert gagnrýndar m.a. fyrir það sem ég áðan nefndi og að ekki liggi fyrir framtíðarstefnumótun í stórum málaflokkum sem skipulag hálendisins þurfi að taka mið af. Það er ástæða til að taka undir þá gagnrýni. Það sem vakti athygli mína á ráðstefnu sem haldin var í september um tillögu um skipulag miðhálendisins var að í raun er undir það tekið af skipulagsstjóra sem sagði eftirfarandi á ráðstefnunni, með leyfi forseta:

,,Auðvitað má segja sem svo að áður en ráðist var í gerð svæðisskipulags fyrir miðhálendið hefði átt að gera fimm ára áætlun um víðtækar rannsóknir á svæðinu. Að þeim loknum hefði ríkisstjórnin átt að marka stefnu í landnotkun og landnýtingu ýmissa málaflokka. Þegar sú stefna hefði legið fyrir hefði þurft að gera landsskipulag sem næði til landsins alls þar sem mörkuð hefði verið stefna og teknar bindandi ákvarðanir í veigamiklum atriðum. Að því loknu hefði þurft að taka ákvarðanir um stjórnsýslulega skiptingu alls landsins og í kjölfar þess að setja lög um eignarhald á afréttum og almenningum.``

Þarna er skipulagsstjóri raunverulega að segja að rangt hafi verið farið að og við förum ekki í réttri röð í þetta mál eins og ég hef lýst. Ég held að það væri gagnlegt, herra forseti, að átta sig á því hvernig við förum í þessar ákvarðanir og vinnu til að við stöndum ekki fyrr en síðar frammi fyrir skipulagsslysi sem ekki verður úr bætt.

Ég vil í lokin nefna tvö eða þrjú atriði í frv. forsrh. um þjóðlendur sem ég tel að þurfi e.t.v. sérstakrar skoðunar við. Ég nefni þar 2. mgr. 3. gr. sem kveður á um að leyfi forsrh. þurfi til að nýta vatns- og jarðhitaréttindi, námur og önnur jarðefni innan þjóðlendu og að heimilt sé ráðherra að leyfa nauðsynleg afnot af landi til hagnýtingar á þessum réttindum. Hvað felur þessi grein í sér? Er hætta á að Alþingi sé að framselja of mikið vald til framkvæmdarvaldsins? Þessi ábending er einungis sett fram til þess að það sé athugað sérstaklega.

Ég velti líka fyrir mér ákvæði sömu greinar um að tekjur af leyfum til nýtingar lands skuli vera í höndum forsrh. án nokkurra afskipta eða atbeina þingsins. Hér gæti verið um umtalsverðar tekjur að ræða sem forsrh. hefur einn ákvörðunarvald um þó að hann eigi að leita tillagna frá sérstakri samstarfsnefnd samkvæmt 4. gr. frv.

Ég bendi einnig á 19. gr. frv. þar sem segir að sá sem ekki vill una úrskurði óbyggðanefndar skuli höfða mál innan sex mánaða frá útgáfudegi þess. Þarf ekki að athuga hvort hér sé um óeðlilega skamman frest að ræða?

Að lokum bendi ég á ákvæði 6. gr. um skipan óbyggðanefndar.

Í fyrsta lagi. Er það rétt að skipan þessarar nefndar sé alfarið í höndum forsrh.?

Í öðru lagi. Felur ákvæðið um að nefndarmennirnir þrír skuli fullnægja skilyrði til að gegna embætti héraðsdómara, að starfandi héraðsdómrarar gætu verið skipaðir í þá nefnd sem hefur úrskurðarvald sem hægt er að skjóta til dómstóla þar sem sömu dómarar eiga kannski sæti? Ég vil spyrja hæstv. forsrh. hvort hann telji rétt að starfandi héraðsdómarar eigi sæti í slíkri nefnd. Þó að áskilið sé að þeir skuli fullnægja skilyrðum til að gegna embætti héraðsdómara, þarf þá ekki að segja að þeir séu starfandi héraðsdómarar? Hver er skoðun hæstv. forsrh. á því að starfandi héraðsdómarar taki sæti í nefnd sem hefur úrskurðarvald í málum sem hugsanlega eiga eftir að fara fyrir dómstólana?

Herra forseti. Það skulu vera mín lokaorð að gífurlega mikilvægt er og miklir hagsmunir eru í húfi fyrir framtíð þjóðarinnar að vel takist til með landnýtingu á hálendinu og þar megum við ekki rasa um ráð fram.