Þjóðlendur

Fimmtudaginn 05. febrúar 1998, kl. 15:16:38 (3495)

1998-02-05 15:16:38# 122. lþ. 60.2 fundur 367. mál: #A þjóðlendur# frv., félmrh. (ber af sér sakir)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur

[15:16]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Að mér hefur verið dróttað í þessari umræðu að ég hafi farið með ósannindi hér (Gripið fram í: Hver dróttaði?) úr ræðustólnum og (SF: Sighvatur.) af því tilefni lét ég fletta upp í gjörðabók þingflokksins. Það er nú ekki viðkunnanlegt að vera að vitna í trúnaðarskjöl eins og gjörðabækur þingflokka, en ég hafði ekki frumkvæði að því. Þar er sagt frá því að ég hafi kynnt frv. til sveitarstjórnarlaga 5. nóvember 1997. Allir þingmenn flokksins voru á fundi að undanskildum hæstv. iðnrh., Finni Ingólfssyni, og hv. þm. Ísólfi Gylfa Pálmasyni og í stað hæstv. umhvrh., Guðmundar Bjarnasonar, sat þá á þingi hv. þm. Ingunn Svavarsdóttir. Þar er greint frá því að ég hafi skýrt frá efni frv. og síðan er bókað: ,,Siv gerði athugasemdir.`` Og þar er átt við hv. þm. Siv Friðleifsdóttur. Þetta er sú bókun sem gerð var þegar frv. var afgreitt úr þingflokknum. Ég man ekki svo nákvæmlega ræðuhöld manna, en þetta var gert á fundi þar sem þetta frv. var afgreitt frá þingflokki framsóknarmanna.