Þjóðlendur

Fimmtudaginn 05. febrúar 1998, kl. 15:34:28 (3506)

1998-02-05 15:34:28# 122. lþ. 60.2 fundur 367. mál: #A þjóðlendur# frv., ÓÞÞ
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur

[15:34]

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Mér hefur fundist þess gæta nokkuð í umræðunni að menn litu svo á að verið væri að taka land af einstaklingum og færa það ríkinu eða færa þjóðinni eitthvað sem hún ætti ekki fyrir. Eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar eru skýr. Það er óheimilt að taka nokkra eign af einstaklingi nema almannaheill krefji og þá komi bætur fyrir. Engin ákvæði eru í frv. um að það eigi að greiða bætur fyrir eitt eða neitt þannig að ég lít svo á að ekki sé hægt samkvæmt því að taka eitt eða neitt frá einstaklingum eða færa þjóðinni eitthvað sem hún á ekki nú þegar. Þá hefðu menn til lítils unnið eið að stjórnarskránni ef menn trúa því í alvöru að svo sé með frv. því að það ákvæði hennar er þó í það minnsta skýrt. Hér er þess vegna að mínu viti fyrst og fremst verið að reyna að koma skikkan á það pappírslega hvers er hvað í skjalasöfnum þjóðarinnar. Það er e.t.v. full nauðsyn á að það sé gert þegar maður hlustar t.d. á dóma Hæstaréttar þar sem landamerki jarðar, þinglesin réttindi, eru ekki talin segja rétt til um hvaða land tilheyrir viðkomandi jörð heldur er farið aftur til landnáms Guðrúnar Ósvífursdóttur og talið að gróðurfar á því tímabili og nú sanni að þetta hafi ekki verið hluti af tilheyrandi jörð á sínum tíma. Mér var að vísu ekki ljóst hvernig þeir áttuðu sig á gróðurfarinu í tíð Guðrúnar.

Burt séð frá því hafa verið alls konar deilur fram og til baka um þessi mál. Hér eru þjóðlendur skilgreindar landsvæði utan eignarlanda þó að einstaklingar eða lögaðilar kunni að eiga þar takmörkuð eignarréttindi. Ég hefði ekki talið óeðlilegt þó að þarna stæðu eyjar líka. Ég veit ekki til þess að ríkið eigi Surtsey. Á ríkið Kolbeinsey? Er það einhvers staðar þinglýst í eignarskránni miklu sem tók nokkur ár hjá fjmrh. að fara yfir til að finna hvað ríkið ætti? (Forsrh.: Við erum búin að steypa hana.) En það er búið að steypa þar og steypustjórnin var að sjálfsögðu spurð ráða þannig að það er allt eftir réttum formerkjum. (Gripið fram í: Þetta er landnám.) En því segi ég þetta að ef ekki eru tekin af tvímæli í textanum hefði ég talið eðlilegt að það væri gert þannig að ekki yrðu deilur um það seinna því að sá sem með réttu ætti að geta kallast landsnámsmaður í Surtsey væri hv. þm. Árni Johnsen sem dvaldist þar á sínum tíma. (Gripið fram í: Steingrímur Hermannsson.) Undir stjórn Steingríms en ekki að Steingrímur dveldist þar þannig að ég tel eiginlega að Árni hafi þar meiri réttindi.

Aftur á móti hefur komið fram hjá sumum að þetta eigi að tryggja almannarétt til umferðar. Það væri vel ef svo væri en Grágás gekk mjög vel frá þeim málum á sinni tíð. Hún heimilaði almenningi umferðarrétt um öræfin. Hún heimilaði jafnframt beit fyrir hesta ef menn væru þar á ferð og einnig að menn mættu veiða sér til matar. Þessi ákvæði voru öll þar inni. Við höfum aftur á móti horft á land sem hefur verið gert að þjóðgörðum. Það er skylt þjóðlendum. Kannski vildu menn gera þetta að þjóðgarði seinna. Á Þingvöllum fór það svo að ríkið leigði einstaklingum land og þess vegna var ekki öllum almenningi aðgengilegt eftir það. Við Jökulsárgljúfur í Öxarfirði var reiðgata niður með gljúfrinu. Ákveðið var að afnema rétt hestamanna til að ferðast þarna niður ríðandi eftir götunni nema með tilkynningarskyldu, viku fyrirvara. Þess vegna er ég er dálítið hræddur um að það hafi kannski bjargað nafna mínum að hann komst á Suðurpólinn að ekkert eignarhald var á pólnum. En það stöðvaði aftur á móti breska loftfarið að það var eignarhald á Kína. Það var alveg á hreinu að ríkið átti Kína og þar með bönnuðu þeir að þar mættu menn fara yfir þannig að það tryggir alfarið ekki ferðafrelsið þó að ríkið eigi einhvern hlut. Það er mikill misskilningur.

Þegar farið er yfir það í 5. gr. hverjir eigi að hafa sama rétt og áður þá kemur hér, með leyfi hæstv. forseta:

,,Þeir sem hafa nýtt land innan þjóðlendu sem afrétt fyrir búfénað eða haft þar önnur hefðbundin not sem afréttareign fylgja skulu halda þeim rétti í samræmi við ákvæði laga þar um.``

Hér hefði gjarnan mátt bæta við réttarákvæði Grágásar, um að ferðafrelsi almennings skuli að fullu virt, þannig að það sé alveg skýrt að almenningur hafi rétt til að ferðast yfir hálendið, hafi rétt til að veiða þar fisk til matar fyrir sig á ferðalögum sínum, hafi rétt til að hafa þar beit fyrir hest sinn ef þeir eru ríðandi. Ég held nefnilega hvort sem okkur líkar það betur eða verr að dálítið sé til í því sem kom fram hjá hv. þm. Pétri Blöndal að ekki er alltaf víst að almenningur njóti þess að vera eigandi ríkisins. Það er miklu algengara að ríkið líti eiginlega á almenning sem eign sína. Í það minnsta fengu þeir ungu menn sem voru kvaddir til herskyldu í Evrópu og féllu í seinustu tveimur heimsstyrjöldum aldrei að kynnast þeim stórkostlegu réttindum sem þeir höfðu af því að vera þegnar viðkomandi ríkja en þeir fengu aftur á móti að kynnast því að ríkið leit á þá sem eign sína.

Ég held líka að þegar farið er yfir frv. sé hægt að líta svo á að sá andi sem svífur yfir vötnunum sé jákvæður. Andinn er sá að ekki eigi í neinu flaustri að vinna það verk að komast til botns í þessum málum og skrásetja rétt hvað hvers er í skjalasöfnum Íslands. Menn eiga að hafa frið til að vinna þetta verk til 2007. Þess vegna finnst mér að það skjóti dálítið skökku við þegar kemur að því hvaða tíma einstaklingarnir eiga að hafa til þess að gera grein fyrir stöðu sinni. Menn hafa vissulega þrjá mánuði til að lýsa kvöðum en nú er það kannski bara einhver sem telur að þessi mál séu á hreinu hjá sér. Hann hafi þinglýstan samning og svo brestur á úrskurður nefndarinnar og hvað skyldi sá maður hafa langan tíma til að reyna að ná vopnum sínum? Hann hefur 15 daga. Ekki frá því að hann fær Lögbirting heldur frá því að Lögbirtingur er gefinn út. Þetta kemur fram í 12. gr. Athugasemdir skulu hafa borist óbyggðanefnd innan 15 daga frá þeim degi er kynningu lauk.

Ég held að það þurfi ekki svona mikið óðagot. Ég held að það hljóti að vera miðað við þá hugsun sem kemur fram að það eigi að vinna þetta verk til 2007 sem segir manni að engin hugsun er í því að það eigi með einhverri hraðsuðu að svipta menn rétti, þá hljóti sú nefnd sem fær þetta til meðferðar, og ég trúi ekki öðru en það væri að vilja hæstv. forsrh., að lengja í svona fresti.

[15:45]

Mönnum mundi bregða nokkuð mikið ef þjóðþing Íslendinga setti á stofn nefnd og tilkynnti að fram ætti fara allsherjarrannsókn á því hverjir væru sakamenn. Menn yrðu að gera skriflega grein fyrir því til nefndarinnar að þeir væru það ekki. Síðan fengju þeir 15 daga til að bjarga sér ef eitthvað annað skyldi koma í ljós.

Almenningur á Íslandi stendur yfirleitt ekki í málaferlum. Hvort sem okkur líkar það betur eða verr þá eru þeir sem eiga land hluti af almenningi á Íslandi. Sú kvöð að þurfa allt í einu að sanna eignarrétt sinn er þó nokkuð mikil kvöð.

Indíánarnir vissu það fyrir víst hvernig landi var skipt í Norður-Ameríku áður en hvítir menn komu þangað. En þeir fóru flatt þegar þeir áttu að sýna fram á landamerkin.

Þegar þetta er sett upp eins og hér er gert og rúmur tími ætlaður til verksins, þ.e. til 2007, þá hlýtur að vera hægt að lengja þann frest sem hér er settur fram.

Ég set spurningu við 19. gr. þegar kemur að málskotsrétti til dómstóla. Mönnum eru ætlaðir sex mánuðir í því skyni. En nefndin á aftur á móti að starfa í mjög mörg ár. Með fullri virðingu fyrir dómstólum þá skiptir máli hver ver mál eigi maður að ná fram rétti sínum. Veruleg örtröð gæti skapast hjá þeim mönnum sem helst væru til þess færir að standa í málsvörn á þessu sviði. Ekki er víst að svo auðvelt yrði að fá lögfræðinga með reynslu til að standa í málsvörn. Einnig þess vegna er ég þeirrar skoðunar að þessi frestur sé of stuttur. Það hefur nefnilega komið fram, með réttu hjá hæstv. forsrh., að þessi mál hafa verið gífurlega umfangsmikil þegar þau hafa komið í réttarsali. Þau hafa verið alveg ótrúlega umfangsmikil. Hver man ekki eftir málaferlunum um botninn í Mývatni svo maður taki dæmi?

Ég held að það sé af hinu góða að þannig sé gengið frá þessum málum að enginn sitji sár eftir á þeirri forsendu einni að honum hafi verið skammtaður svo stuttur frestur að óeðlilegt geti talist.

Úrskurðir óbyggðanefndar um málskostnað eru þess eðlis að það má fullnægja þeim með aðför, eins og fram kemur í 18. gr. Ég veit að réttarríkið hefur þessa heimild og notar hana oft en undir þessum kringumstæðum er spurning hversu grimmt eigi að ganga fram, vegna þess að þegar einstaklingur lendir í málaferlum við hið opinbera þá finnst honum hann vera að borga bæði sinn málskostnað og eins ríkisins. Hann er að borga sinn málskostnað með eigin peningum og hann er að málskostnað ríkisins með sköttum sínum. Hvort sem mönnum líkar það betur eða verr þá finnst mér þetta að mörgu leyti minna mál en hitt sem ég gat um áðan.

Hafi einhver talið mig hikandi gagnvart lagasetningunni vil ég að það komi fram að ástæðan er aðeins ein. Sú ástæða að hægt væri að setja hf. á eftir þjóðlenda. Það er ekki mikið mál. Það tekur ekki nema smátíma í Alþingi Íslendinga. Og það er hægt að selja allt sem ríkið á. En ríkið á ekki gott með að selja það sem kallað hefur verið almenningur og þar með eign þjóðarinnar. Það stendur misvel á hjá ríkinu á hinum ýmsu tímum. Það vill svo til að inni á hálendi Íslands eru gífurlegar auðlindir, m.a. háhitasvæði. Ég vona að sá skilningur sé fjarri öllum sem standa að þessu frv. og hér sé ekki verið að taka ákvörðun um að stofna þjóðlendu með það fyrir augum að eftir nokkur ár verði hf. sett fyrir aftan. Þá væru menn í reynd að snúa dæminu við, taka eignir almennings í landinu og gera þær að eignum kaupandans.

Ég vil aftur á móti geta þess að mér hefur oft fundist lagasetning fyrri tíma, t.d. grágásarlög, standast miklu betur tímans tönn en lagasetning okkar tíma. Ég held að hluti af því sé það að menn flýttu sér ekki jafnmikið við lagasetninguna. Menn litu ekki á það sem kappsmál að lög væru nauðsynlega afgreidd fyrir ákveðinn tíma, það væri meira virði að afgreiða þau síðar og hafa þau jafnframt skynsamleg. Ég tel að það sé frekar kostur en hitt að menn hafa gefið sér góðan tíma við að undirbúa þetta lagafrv. með það fyrir augum að geta lagt það fram með þeim afleiðingum að stjórnarandstaðan hefur keppst við að sýna fram á hvorir hafi fyrr flutt þetta frv. á Alþingi Íslendinga, Alþfl. eða Alþb. Ég trúi hæstv. forseta ansi vel í þeim málflutningi.