Þjóðgarðar á miðhálendinu

Fimmtudaginn 05. febrúar 1998, kl. 18:53:44 (3537)

1998-02-05 18:53:44# 122. lþ. 60.5 fundur 406. mál: #A þjóðgarðar á miðhálendinu# þál., umhvrh.
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur

[18:53]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Örfá orð í tilefni af þeirri till. til þál. sem hér er mælt fyrir. Ég tel að full ástæða sé til að leggja nokkur orð í belg og tel tillöguna fullrar athygli verðar og reyndar kannski ekki síður margt sem kemur fram í greinargerðinni og rökstuðningi fyrir þeirri tillögu sem hér er flutt.

Ég er sammála hv. flm. um að okkur ber að gæta mjög að því hvernig við umgöngumst náttúruna, landið okkar allt og ekki síður hálendið en aðra hluta landsins og þau svæði sem hér eru sérstaklega gerð að umtalsefni. Vissulega er ýmislegt í gangi hvað þetta varðar núna eins og kemur fram í greinargerðinni. Það er tínt til og greint frá ýmsu sem er að gerast og ástæða er til að hafa í huga þegar fjallað er um þetta mál.

Mig langar aðeins í upphafi máls míns --- ég ætla reyndar ekki að vera langorður --- að nefna það að þegar við tölum um náttúruvernd og friðlönd, þjóðgarða, friðlýsingu svæða eða skrásetningu á náttúruminjaskrá, þá er nú oft svo að menn telja kannski að aðalþættirnir sem þurfi að varast séu virkjunarframkvæmdir, orkuframkvæmdir, stóriðja og mál sem því tengjast og ber að hafa allt þetta í huga. En það ber að hafa líka fleiri þætti í huga í hinni daglegu umgengni og hegðan okkar og í þeirri nýju iðju eða nýja iðnaði sem við höfum lagt mikla áherslu á að byggja upp í landinu okkar og viljum auglýsa landið mjög hæft til þess að annast þann iðnað eða þá þjónustu. Þetta er ferðamannaþjónustan. Og þó að kannski sé ekki hægt að líkja því í sjálfu sér við stóriðju og áhrif hennar á náttúru eða umhverfi, þá þarf að gæta sín líka í uppbyggingu ferðamannaiðnaðarins og gæta þess að beina honum á þau svæði sem þola aukna umferð af því tagi og eins að búa þannig um á þeim svæðum að ferðamannaþjónustan geti notið svæðanna án þess að spilla þeim.

Vissulega er það ekki síst náttúran og náttúrufegurð og sérkennileiki íslenskrar náttúru sem dregur erlenda ferðamenn til landsins. Það hefur komið fram í skoðanakönnunum þó að það sé nú kannski fleira sem dregur ferðamenn til landsins eins og borgarlíf og næturlíf og eitt og annað sem við erum að bjóða hér upp á, jafnvel matargerð og matargerðarlist sem hefur sótt mjög fram á seinustu missirum hér á landi. Ég hygg að erlendir ferðamenn margir hverjir átti sig á að við kunnum líka að búa til góðan mat úr okkar heilnæmu matvælum hvort heldur það eru landbúnaðarfurðir eða sjávarafurðir.

En þetta var nú ekki efni þáltill. eða það sem ég ætlaði aðallega að ræða um heldur vildi ég lýsa því yfir að mér finnst full ástæða til þess að skoða það mál sérstaklega sem er hér til umræðu. Ég vil þó minna á að út af fyrir sig er ýmislegt í gangi hjá okkur á þessu sviði eins og er. Við erum nýlega búin að fjalla um undirbúning að þjóðgarði á Snæfellsnesi. Þar hefur nýlega lokið störfum nefnd og skilað tilögum til umhvrh. og á fjárlögum þessa árs er að finna heimildir til þess að vinna því máli framgang m.a. með kaupum á jarðeignum sem kynnu að falla innan þess þjóðgarðs. Það hefur auðvitað bæði töluverða vinnu og nokkurn kostnað í för með sér hvernig staðið er að málum af þessu tagi.

Ég vil líka minna á að núna er að störfum nefnd sem fjallar um og skilgreinir ósnortin víðerni. Sú nefnd starfar samkvæmt þingsályktun sem Alþingi samþykkti á seinasta þingi. Ég hef nýlega átt viðræður við formann þeirrar nefndar sem hefur tjáð mér að störf hennar séu nú á lokastigi.

Síðast en ekki síst vil ég minna á að svæðisskipulag miðhálendisins er í fullri vinnslu um þessar mundir. Því ferli er alls ekki lokið. Það á enn eftir að taka nokkurn tíma. Ég hef nýlega framlengt þann tíma sem nefnd sú sem að því máli hefur starfað fær til þess að ljúka sínum verkefnum, enda hefur borist gríðarlegur fjöldi athugasemda við tillögurnar eins og þær hafa verið lagðar fram þannig að nefndin hefur úr miklu að vinna.

Mér finnst full ástæða til að þetta sé haft í huga og að við skoðum þá tillögu sem hér er sett fram í samhengi við nefndarstarf svæðisskipulags miðhálendisins. Ég þykist þess reyndar fullviss að það hafi hv. flm. gert að verulegu leyti. Eins og fram kom í framsöguræðu hv. flm. þá er málið hér nýlega fram lagt þegar það er tekið til umræðu og ég hef ekki haft tíma til að skoða það ítarlega eða bera það saman við þær hugmyndir sem þar eru framsettar. Þó er hér getið um að gert er ráð fyrir mannvirkjabeltum og samgönguleiðum sem eru einnig í tillögum svæðisskipulagsnefndarinnar, miðhálendisnefndarinnar sem stundum hefur verið kölluð svo, og vafalaust er reynt að gæta nokkurs samræmis við þær tillögur sem þar eru fram settar, þó ég hafi ekki borið það saman.

[19:00]

Mig langar líka að taka undir það sjónarmið sem hér er sett fram um hversu brýnt það er að hafa góð samskipti við fólk á þeim svæðum sem liggja að þjóðgörðum, við þá friðun, því sú friðun sem felst í stofnun þjóðgarða getur haft áhrif á aðstöðu fólksins sem býr í næsta nágrenni, þannig að þess sé gætt að þetta fólk eigi aðild að undirbúningi af þessu tagi og reynt sé að tryggja jákvæð viðhorf. Ég hygg að ég sé ekki ljóstra upp neinum leyndarmálum þó að ég segi að stundum hafi orðið misbrestur á hvað þetta varðar og því miður megi finna mörg dæmi um að þeir sem búa næst þjóðgörðum hafi ýmsar athugasemdir við það hvernig að málum er staðið.

Ég sé, hæstv. forseti, að tími minn er að renna frá mér. Mig langar aðeins þó að hafa það sem mín lokaorð að ég tel að það sé líka afar mikilvægt að við skoðum verndarskipulag jöklanna okkar vegna þess að þó að þeir séu líka aðdráttarafl fyrir ferðamenn og í vaxandi mæli, þá má það ekki verða svo að þeir verði fyrst og fremst umferðaræð, eins og ég hygg að stundum megi segja að eigi við um Snæfellsjökul. Þess vegna er tímabært að huga að þjóðgarðinum þar og huga að því hvernig við getum látið fara saman náttúruverndina, þær auðlindir sem búa í jöklunum og að nýta þá til þeirrar uppbyggingar atvinnulífs sem vissulega er hægt að efla ef rétt er að málum staðið.