Niðurstaða atkvæðagreiðslu um afbrigði

Mánudaginn 09. febrúar 1998, kl. 18:34:03 (3558)

1998-02-09 18:34:03# 122. lþ. 62.93 fundur 207#B niðurstaða atkvæðagreiðslu um afbrigði# (aths. um störf þingsins), SvG
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur

[18:34]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Þingsköp Alþingis eru lög. Lögin eru sett af meiri hluta Alþingis og það lagaákvæði sem er um að ræða var sett samhljóða af öllum þingmönnum þannig að árás hæstv. forsrh. áðan á stjórnarandstöðuna er árás á þingið, er árás á lögin; lítilsvirðing við þingið, lítilsvirðing við lögin. Þótt ekkert annað komi til en að það var bersýnilega nauðsynlegt að láta hæstv. forsrh. vita hvernig lýðræðislegar og þingræðislegar leikreglur eru, var nauðsynlegt að láta það koma áðan skýrt fram vegna þess að hótanir hans gagnvart þinginu, lítilsvirðing hans gagnvart þinginu, lítilsvirðing hans gagnvart stjórnarandstöðunni, gagnvart sjómannastéttinni í landinu og gagnvart þjóðinni er með slíkum endemum að því verður að svara hér og annars staðar.