Niðurstaða atkvæðagreiðslu um afbrigði

Mánudaginn 09. febrúar 1998, kl. 18:42:00 (3562)

1998-02-09 18:42:00# 122. lþ. 62.93 fundur 207#B niðurstaða atkvæðagreiðslu um afbrigði# (aths. um störf þingsins), utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur

[18:42]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég held að það sé alveg ljóst eftir atkvæðagreiðsluna að málið verður ekki tekið fyrir fyrr en á miðvikudag samkvæmt þingsköpum. Ef menn hafa einhvern annan skilning þarf það að koma betur fram.

Hér er um mjög alvarlegt mál að ræða og auðvitað má deila um það hvort sú aðgerð sem farið er út í er rétt eða ekki. Það er eðlilegt að menn deili um það. En ég held að það megi vera alveg ljóst að fyrst þessi aðgerð er hafin mun verkfallinu ekki ljúka nema Alþingi ljúki störfum um málið. Hverjum er greiði gerður með því að fresta því sem mest? Haldið þið að ekki liggi alveg ljóst fyrir af frv. hvað um er að ræða? Ekkert þýðir að segja að það þurfi langan tíma til þess að setja sig inn í það. Málið er ekki þannig vaxið. Við verðum að átta okkur á því að gífurlegir hagsmunir eru í húfi og þess vegna eru það ekki aðeins stjórnarliðar sem bera mikla ábyrgð í þessu heldur líka stjórnarandstaðan. Ef stjórnarandstaðan er að tilkynna okkur það að hún sé tilbúin að fallast á þinglega meðferð á morgun held ég að það sé nauðsynlegt að það komi fram því að auðvitað óskum við eftir því að þingleg meðferð málsins fari fram sem fyrst. Það er öllum fyrir bestu.