Framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna

Þriðjudaginn 10. febrúar 1998, kl. 14:05:34 (3582)

1998-02-10 14:05:34# 122. lþ. 63.1 fundur 376. mál: #A framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna# þál., RG
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur

[14:05]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég fagna því alveg sérstaklega þegar við ræðum framkvæmdaáætlun til fjögurra ára og aðgerðir til að ná fram jafnrétti kynjanna, að þá skuli vera hér nokkrir karlmenn í salnum og ætla greinilega að taka þátt í umræðunni. Mér sýnist næsta ljóst að þeir ætli að leggja umræðunni til léttan brag og tel ég það ágætt.

Virðulegi forseti. Það er nokkuð oft sem við höfum rætt framkvæmda- og jafnréttisáætlanir og tekið hér jafnréttisumræðu. Á liðnum árum hefur verið gripið til margvíslegra aðgerða eins og ég vék að í andsvari mínu fyrir fáum mínútum. Það hefur verið gripið til nýjunga til að leiða okkur í allan sannleika um leiðir til að ná fram jafnrétti kynjanna svo sem að stofna karlanefnd Jafnréttisráðs sem ég held að hafi verið mjög gott mál og hefur komið að jafnréttisumræðunni á annan hátt en áður og leitað að nýjum fleti á henni.

Það er líka afar mikilvægt að leitað hefur verið samráðs bæði á milli ríkis og sveitarfélaga, ríkis, sveitarfélaga og félagasamtaka fyrir utan alla þá sem eru að vinna að þessum málum. Þetta er allt mjög mikilvægt.

En það er líka umhugsunarefni fyrir okkur sem ræðum jafnréttismál að á sama tíma og við lítum um öxl og á umræðu sem farið hefur fram í meira en áratug skuli ný umræða vera sprottin í þjóðfélaginu. Hver er hún? Það er umræða um ofurkonuna. Ekki af því að hellingur af konum í þjóðfélaginu sé að verkum, sem eru svo frábærar að þær eigi að fá stimpilinn ofurkonur. Nei, umræðan er ekki um það þó að ég sé sannfærð um að margar konur ættu skilið þá nafnbót. Nei, umræðan sem upp er sprottin og er áleitin um þessar mundir er vegna þess að fjöldi kvenna hefur tekið þátt í samfélaginu til jafns við karla í sannfæringu þess að með ákveðnu viðhorfi, vilja til að breyta, sé hægt að skipa sér hlið við hlið til verka á jafnréttisgrundvelli. En þegar upp er staðið kemur í ljós að sú kona virðist hafa ætlað sér ofurverkefni. Það er það sem umræðan snýst um núna. Konur, sem hafa skipað sér á bekk með körlum í erfiðum verkefnum, merkilegum verkefnum, minni verkefnum, hver svo sem þau eru, eru líka að hugsa um heimili og börn, eru líka að hugsa um foreldra, aldraða og sjúka sem í fjölskyldunni eru, eru líka að reyna að taka þátt í samfélagslegum verkefnum, eru líka að reyna að eiga tómstundir og bogna jafnvel undan öllu saman. Það er full ástæða til að við stöldrum við þetta í dag þegar við enn á ný leitum leiða til að efla jafnrétti kynjanna.

Virðulegi forseti. Í inngangi að þessari till. til þál. um framkvæmdaáætlun segir:

,,Jafn réttur og jöfn staða kynjanna verða þó ekki tryggð með stjórnvaldsaðgerðum einum saman.`` Og það er hárrétt. Þegar leitað er að beinum stjórnvaldsaðgerðum í þessari framkvæmdaáætlun, sem ég tek fram að er með mjög gott innihald, virðulegi forseti, er að finna margt af því sem við höfum talað um í gegnum árin og sem við munum standa saman að, góð orð og góður ásetningur. En það er alveg ljóst að á stjórnvaldsaðgerðir skortir til að við getum stuðlað að því virka jafnrétti sem við viljum að verði til, líka með hugarfarsbreytingum, ég tek undir það.

Við höfum rætt oftar en ekki og endanlega afgreitt frá Alþingi tillögu um opinbera fjölskyldustefnu, en það sem skiptir máli er að hún verði virk. Þegar ég segi að stjórnvaldsaðgerðir skorti, nefni ég launamálin, ég nefni skólann, ég nefni stuðningsúrræði fjölskyldunnar svo sem leikskóla, úrræði fyrir aldraða, allt það sem skapar fjölskyldunni það umhverfi að allir einstaklingar, ungir og eldri innan hennar geti blómstrað. Það vantar stjórnvaldsaðgerðir og í mörgum tilfellum kosta þær peninga.

Ég nefndi fjölskyldustefnuna. Í tillögu félmrh. var tillaga um fjölskyldusjóð tekin út. Hins vegar er í þáltill. á bls. 6 falleg markmiðsgrein 3.18. ,,Félagsmálaráðuneytið mun standa fyrir könnun á áhrifum aðgerða opinberra aðila til styrktar fjölskyldunni. Sérstaklega verði skoðað hvort og þá hvernig skilyrði fjölskyldunnar í samfélaginu hafi batnað vegna slíkra aðgerða.`` Þetta eru góð orð. Þetta er nokkurn veginn það sama og áformað er fjölskyldustefnunni en sjóðurinn sem átti að standa undir þessu var tekinn út, peningarnir eru ekki til staðar.

Ég ætla líka að vekja athygli þingmanna á því þegar við ræðum þær góðu markmiðsgreinar, sem eru á bls. 20, að í þskj. er umsögn fjmrn. en þar segir, með leyfi forseta:

,,Flest verkefnin falla að núverandi starfsemi ráðuneyta og stofnana ríkisins. Ekki er gert ráð fyrir að þau hafi í för með sér aukinn kostnað en þau kunna hins vegar að hafa áhrif á forgangsröðun verkefna innan ráðuneyta og stofnana ríkisins. Þau atriði sem horfa til aukins kostnaðar er að finna í starfi nokkurra nefnda sem sérstaklega yrðu settar á laggirnar vegna framkvæmdaáætlunarinnar.``

Síðan eru taldar upp nefndir a, b, c, d og alveg aftur til g. Þær nefndir á að setja á laggirnar og kostnaðarauki ríkisins vegna þeirra er á bilinu 7--10 millj. kr. Við verðum að horfast í augu við það, virðulegi forseti, að þegar við tölum um aðgerðir og að fjmrn. skuli meta þær, vonum við auðvitað að það séu aðgerðir sem skapi nýja umgjörð um fjölskylduna og nýja möguleika. Þarna er það ekki að finna.

Ég vil líka nefna annað, virðulegi forseti, og vil bera fram beina fyrirspurn til ráðherra um það. Við höfum lagt fram skýrslur. Ég nefni skýrslu um launamyndun og kynbundinn launamun, sem lögð var fram 1995, og ég nefni áfangaskýrslu starfshóps um starfsmat félmrn. frá febrúar 1996. Þá komum við konurnar á Alþingi saman og fórum yfir þessa áfangaskýrslu, fullar af væntingum um hvað hún gæti hugsanlega fært konum í launajafnrétti og nú spyr ég ráðherrann: Hvað líður þessum verkefnum sem þarna voru boðuð? Ríkisspítalarnir sem voru teknir út sem tilraunaverkefni, Hitaveitan, Félagsmálastofnun og Reykjavíkurborg. Þetta er eitt af því sem þarf að gerast til að skapa rammann um líf kvenna svipaðan því sem gerist hjá körlum.

Virðulegi forseti. Ég hef nefnt að mjög margt gott er að finna í þessari skýrslu og ég ætla mér að gera henni svolítið betri skil ef ég fæ tækifæri til að tala aftur. En ég vil gjarnan nefna eitt, af því að það var gert frekar lítið úr athugasemd minni í andsvari við félmrh., að frá 1985 hafa jafnréttismál verið í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórna, ýmist jafnréttis- eða framkvæmdaáætlanir. Ég held að þetta sé fimmta jafnréttis- og framkvæmdaáætlunin. Mjög mikilvægir þættir hafa verið teknir inn, t.d. strax í annarri framkvæmdaáætlun. Þá voru meginmarkmiðin aðgerðir til að jafna stöðu kynjanna á öllum skólasviðum, aðgerðir varðandi launamál kvenna og karla og aðgerðir til að bæta stöðu kvenna á vinnumarkaði og í dreifbýli ásamt félagslegum verkefnum og réttindum.

Virðulegi forseti. Ég verð að koma hér í síðari ræðu minni og rekja það hvað við höfum verið að fara í gegnum hin síðari ár til að við horfum meðvitað á það hverju hefur verið reynt að hrinda af stokkunum og hverju er ábótavant enn þá, þrátt fyrir rúman áratug í vinnu að þessum málum.