Framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna

Þriðjudaginn 10. febrúar 1998, kl. 16:03:03 (3602)

1998-02-10 16:03:03# 122. lþ. 63.1 fundur 376. mál: #A framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna# þál., RG
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur

[16:03]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Undir lok fyrri ræðu minnar í dag vildi ég koma inn á orð og athafnir ríkisstjórna. Það er mikilvægt að halda því vel vakandi að hver einasti ræðumaður í dag hefur talað um markmiðssetningarnar í þessari framkvæmdaáætlun, tekið undir þær, fagnað því sem hefur verið nýtt í henni, en allir hafa látið í ljós áhyggjur yfir að þrátt fyrir hin fögru orð sem ríkisstjórnin hefur sett fram hefur okkur miðað of hægt fram á veg.

Virðulegi forseti. Fyrsta framkvæmdaáætlunin náði til ársins 1986--1990. Önnur framkvæmdaáætlunin náði yfir tímabilið 1990--1994 og ég lýsti því hversu góðar markmiðsáætlanir þær voru. Þriðja framkvæmdaáætlunin tók gildi 1991 og náði til ársins 1994 og fjórða framkvæmdaáætlunin stóð frá 1993 til ársloka 1997. Við erum nú að fjalla um fimmtu framkvæmdaáætlunina til fjögurra ára um aðgerðir til að ná fram jafnrétti kynjanna. Ég verð að viðurkenna að oft á þessum árum hef ég verið með vissa hugljómun yfir því sem menn settu sér fyrir og væntingar um hvaða áhrif það mundi hafa á möguleika kvenna í karlasamfélaginu sem við höfum hingað til búið við.

Ég vil líka nefna að í inngangi þessarar framkvæmdaáætlunar segir að leiðarljós framkvæmdaáætlunarinnar sé að sjónarmið jafnréttis verði fléttað inn í alla þætti stefnumótunar, ákvarðana og aðgerða á vegum ríkisins. Hérna hefur því líka verið fagnað að hið nýja orð, samþætting, er nú komið inn í áætlunargerð ríkisstjórnarinnar. En það er ekki svona einfalt vegna þess að í fyrri framkvæmdaáætlun, sem tók gildi í maí 1993, segir að þessi áætlun byggi á þeirri hugmyndafræði að flétta þurfi jafnréttissjónarmiðin inn í starfsemi opinberra stofnana. Sú mikla og góða áhersla hefur verið í gildi í fjögur ár en þrátt fyrir það höfum við ekki getað séð samþættinguna í framkvæmd ríkisstjórnar t.d. á þessu kjörtímabili. Ég vil líka minna á það, virðulegi forseti, sem hér hefur verið bent á af hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, að gerðar voru jafnréttisáætlanir ríkisstofnana frá því í mars 1991 og næstu tvö, þrjú árin og voru þær mjög mikilvægar. Ekkert slíkt hefur leitað sína leið inn í framkvæmdaáætlun í kjölfarið og ég spyr sérstaklega um það hvort félmrh. hyggist kalla eftir slíkum jafnréttisáætlunum til að efla vitund stofnana ríkisins í jafnréttisátt.

Virðulegi forseti. Ég ætla að fara nokkrum orðum um nokkrar greinar sem er að finna í frv. Ég held t.d. að mjög mikilvægt sé, að það áform komist í framkvæmd að öll tölfræði verði kyngreind vegna þess að ég tel að allar upplýsingar sem unnar eru og sýna svart á hvítu stöðuna hjá konum og körlum hjálpi okkur að finna leiðirnar út úr vandanum. Ég er líka alveg sannfærð um að gagnlegt verður að fá nefnd sem kannar með hvaða hætti opinber stefnumótun taki mið af jafnrétti kynjanna vegna þess að ég er sannfærð um, að því máli er enn mjög ábótavant, því miður. Það væri hægt að gera mikla betur.

Ég ætla líka að leggja áherslu á þriðja atriðið sem er í inngangsverkefni ríkisstjórnar og það er að nefnd eigi að leggja fyrir ríkisstjórn tillögu að rannsóknarverkefni um efnahagsleg völd kvenna og karla og hvar þau liggja í íslensku samfélagi. Á öllum Norðurlöndunum hafa konur farið fram undir slagorðinu --- hela lönen, halva makten --- sem þýðir ósköp einfaldlega að konur eiga að fá full laun fyrir sömu störf og þær eiga að hafa helming valdanna. Þetta er svo einfalt. Það er hægt að fara fram í raun og veru með eina markmiðsgrein og hún er þessi: Full laun og helmingur valdanna. Ekki vegna þess að konur séu valdasjúkar og heimti völd til að hafa völd, heldur hvar sem konur koma að kjötkötlunum til jafns við karla, hvort heldur er í opinberum nefndum og ráðum, hvort heldur að vera helmingur þingmanna á löggjafarsamkundunni, ég tala ekki um að vera helmingurinn í ríkisstjórn --- það er þá sem sjónarmið kvenna fara að skila sér í blandaðan hóp karla og kvenna þannig að áhrif kvennanna sýni sig í verki. Þetta hefur ekki gerst í karlasamfélaginu sem við höfum búið við fram að þessu og þess vegna erum við ekki komin lengra. Svo einfalt er það.

Fyrr í dag barst endurskoðun á kjördæmaskipan og kosningareglum í tal í ræðu hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur og að það hefði mikil áhrif á möguleika kvenna að komast t.d. á þing. Það er ekki nokkur vafi og ég tek undir það að eitt af þeim kerfum sem mundi þar geta breytt miklu er að landið yrði eitt kjördæmi. Ég tek líka undir það að erfitt er að sjá að sú nefnd sem nú skilar tillögum til þingsins geti um leið lagt fyrir okkur sérstaka úttekt á áhrifum mismunandi kosningakerfa. Nefndin er að fara að skila tillögum til okkar um hvað hún treystir sér í núna. Það er ágætt, við skulum skipa nefndir og fleiri nefndir. En við erum að nálgast aldamótin og það eru óteljandi nefndir búnar að vera að störfum og við skipum alltaf nýjar og nýjar nefndir en þokumst áfram.

Virðulegi forseti. Annað gerólíkt sem ég ætla að nefna er liður 2.8 á bls. 4, sem er um forsjár- og umgengnismál. Ég tek heils hugar undir það sem þar kemur fram. Þetta er þáttur sem þarf að skoða mjög vel, en ég bendi líka á að af stjórnarandstöðunnar hálfu liggja mjög fín þingmál fyrir í þinginu um þau mál og sem við munum væntanlega benda á þegar við vinnum þetta í nefnd.

Aðeins um aukna virkni kvenna í stjórnmálum og af því að ég dró inn í umræðuna ofurkonuna í dag, ofurkonuna sem er ekki svo mikil ofurkona að hún sé að gera allt jafn vel eða betur en karlarnir, ofurkonuna sem hefur tekið að sér of mikil verkefni í löngun sinni eftir að standa jafnfætis. Það er ekkert í þessu plaggi sem víkur að stóra málinu sem íþyngir ofurkonunni, nefnilega verkaskiptingunni á heimilunum. Konur verða að standa frammi fyrir þeirri óþægilegu spurningu hvort þær hafi haldið of lengi og of fast í sameiginlegu verkefnin þar og haldið þeim öllum á sinni könnu samhliða því að leita út og ákveða að standa jafnfætis körlunum úti á vinnumarkaði, í pólitíkinni, í félagsstörfunum og annars staðar þar sem hugurinn leitar til starfa. Og sé það niðurstaðan að konan hafi haldið í of ríkum mæli í verkefnin á heimilunum, þá verðum við að standa frammi fyrir því að leita leiða þar.

Virðulegi forseti. Ég hefði einnig viljað ræða um konur og atvinnuleysi vegna þess að félmrh. hefur gefið til kynna að ákveðinn hópur atvinnulausra kvenna sé í rauninni ekki atvinnulausar konur heldur konur sem kjósi að vera á atvinnuleysisbótum heima hjá litlum börnum eða börnum á skólaaldri. Hvað segir þetta okkur? Við höfum ekki svarað samfélagslegu kröfunni um að konur (Forseti hringir.) með ung börn eða konur með börn á skólaaldrei geti farið út á vinnumarkaðinn, geti skipt með sér verkum með maka sínum og verið að afla tekna til jafns við hann. Þess vegna hef ég sagt, virðulegi forseti, --- og auðvitað er ég búin að ljúka seinni ræðu minni án þess að ljúka á nokkurn hátt þeirri umfjöllun sem ég hefði kosið, enda er umræðan þess eðlis --- en þetta segir okkur það sem ég vék að í máli mínu í fyrri ræðu minni, að samfélagslegar aðgerðir vantar (Forseti hringir.) sem kosta peninga til að konur geti staðið jafnfætis körlum, til að fjölskyldur geti sinnt hlutverki sínu samhliða því að konur og karlar eru úti á vinnumarkaði og vinna þar hlið við hlið, jafngild.