Afturköllun stjórnarfrumvarps um bann við verkföllum sjómanna

Miðvikudaginn 11. febrúar 1998, kl. 13:34:20 (3635)

1998-02-11 13:34:20# 122. lþ. 64.91 fundur 210#B afturköllun stjórnarfrumvarps um bann við verkföllum sjómanna# (aths. um störf þingsins), SighB
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur

[13:34]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Fyrir atbeina stjórnarandstöðunnar var komið í veg fyrir að frv. ríkisstjórnarinnar um bann við verkfalli sjómanna yrði tekið fyrir með afbrigðum á Alþingi í fyrradag og afgreitt sem lög frá Alþingi í gær eins og hæstv. forsrh. lýsti í viðtali við fjölmiðla sl. mánudag að ríkisstjórnin hefði ákveðið. Afstaða stjórnarandstöðunnar varð til þess að sjómönnum gafst ráðrúm til að koma fram með nýjar tillögur um lausn vinnudeilunnar sem þeir hefðu ella ekki getað. Jafnvel ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa lýst því yfir að þeir fagni frumkvæði sjómanna og lausn getur verið innan seilingar.

Frv. ríkisstjórnarinnar um lögþvingun liggur hins vegar enn fyrir Alþingi þótt það sé ekki á dagskrá þessa fundar. Hótunin um þá lagasetningu stendur enn og í skjóli þeirrar hótunar kunna viðsemjendur sjómanna að vilja draga lausn deilunnar á langinn vilji þeir fremur lög en lausn. Því er rík ástæða til að spyrja nú um fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar um málatilbúnað sinn. Ég spyr því hæstv. forsrh. þessarar spurningar: Mun ríkisstjórnin ekki þegar kalla lagafrv. sitt um lögþvingun á sjómenn til baka eða hyggst hún áfram láta frv. liggja fyrir Alþingi sem hótun um lögþvingun þrátt fyrir sáttatilboð sjómanna sem ráðherrarnir sjálfir hafa sagt að geti leyst deiluna?