Túlkun þingskapa

Fimmtudaginn 12. febrúar 1998, kl. 10:33:38 (3706)

1998-02-12 10:33:38# 122. lþ. 66.91 fundur 216#B túlkun þingskapa# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur

[10:33]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég þakka forseti fyrir þessi orð eða þessa yfirlýsingu sem e.t.v. má kalla svo þar sem ekki var samkvæmt því sem forseti sagði um formlegan úrskurð að ræða. En orð forseta staðfesta ótvírætt að það sem stjórnarandstaðan gerði sl. mánudag var ekkert annað en það að nýta sér ótvíræðan og óumdeildan rétt sinn samkvæmt þingsköpum. Atkvæðagreiðsla um afbrigði við mál þegar svo stendur á sem þarna gerði er ekki formsatriði. Allt tal um misnotkun er því tilefnislaust með öllu og þeim til vansa sem slíkt hafa uppi og ekki eru þá menn til að draga það til baka eða biðjast afsökunar á því.

Pólitíska ábyrgð á þeirri afstöðu, sem við hins vegar tókum sem greiddum atkvæði gegn afbrigðunum, berum við að sjálfsögðu eins og við gerum jafnan þegar við tökum afstöðu til mála, og þarf ekki hv. þm. Geir H. Haarde til að fræða okkur um að við stöndum ábyrg fyrir þeirri efnislegu afstöðu sem við tökum til mála hér á Alþingi. Þar af leiðandi, herra forseti, er sömuleiðis allt tal um pólitíska misbeitingu jafnfjarri öllu sanni eins og hið fyrra. Ég lít því svo á að tilefnislaust sé með öllu að hafa uppi slíkar ásakanir. Þær falla hér dauðar og ómerkar með þeim rökstuðningi sem ég hef haft og með þeim orðum sem hæstv. forseti viðhafði áðan.