Réttur þeirra sem ekki hafa atvinnu

Fimmtudaginn 12. febrúar 1998, kl. 11:55:32 (3730)

1998-02-12 11:55:32# 122. lþ. 66.1 fundur 71. mál: #A réttur þeirra sem ekki hafa atvinnu# þál., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur

[11:55]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að hv. þm. hafi alveg misskilið orð mín. Félagslegur öryrki er persóna, dæmd til örorku án þess að þess að fyrir séu líkamlegar ástæður. Það er erfiðisvinnufólk til sjós og lands, slitið fyrir aldur fram vegna erfiðis og vosbúðar, hefur líkamlegar ástæður og telst til hinna venjulegu öryrkja. Félagslegur öryrki, eins og það er skilgreint fyrir mér, er persóna sem getur ekki tekið þátt í lífsbaráttunni þrátt fyrir að líkamlega sé ekkert til fyrirstöðu. Ég ætla því að hv. þm. hafi alveg misskilið það sem ég var að tala um áðan.

Ég nefndi þetta vandamál áðan vegna þess að mér finnst ástæða til að kanna það. Við þurfum að átta okkur á því hvernig það má vera, í þjóðfélagi sem við viljum meina að sé svo heilbrigt, að slík þróun eigi sér stað. Ég var aðeins að benda á að það er mjög nauðsynlegt að átta sig á því að þetta er vísbending sem er afar slæm.