Dýralæknar og heilbrigðisþjónusta við dýr

Fimmtudaginn 12. febrúar 1998, kl. 16:14:25 (3790)

1998-02-12 16:14:25# 122. lþ. 66.13 fundur 436. mál: #A dýralæknar og heilbrigðisþjónusta við dýr# (heildarlög) frv., landbrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur

[16:14]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr sem flutt er á þskj. 762 og er mál nr. 436.

Frv. byggir á tillögum nefndar sem skipuð var 1. febrúar 1996 til að endurskoða lög um dýralækna, nr. 77/1981, með síðari breytingum. Í nefndina voru skipaðir auk yfirdýralæknis sem var formaður, einn fulltrúi tilnefndur af Dýralæknafélagi Íslands, einn tilnefndur af yfirdýralækni og einn tilnefndur af Bændasamtökum Íslands. Tillögur þeirrar nefndar lagði ég fram til kynningar á Alþingi á sl. vori. Sú tillaga hlaut ekki afgreiðslu og ákvað ég því á liðnu sumri að skipa sérstakan starfshóp til að undirbúa endurframlagningu frv. á næsta löggjafarþingi. Í þeim hópi áttu sæti fjórir þingmenn auk fyrrverandi og núverandi yfirdýralæknis.

[16:15]

Helstu breytingar frá fyrra frv., því sem lagt var fram í fyrravor, eru á skipan umdæma héraðsdýralækna og vaktumdæma þar sem fjölgað er um einn héraðsdýralækni og eitt vaktumdæmi frá því sem áður var lagt til. Enn fremur var fellt út ákvæði um sérstakan aðstoðarmann yfirdýralæknis eða aðstoðaryfirdýralækni og fækkað var um einn sérgreinadýralækni frá því sem áður var gert ráð fyrir.

Á undanförnum 30 árum hafa verið gerðar fjölmargar breytingar á dýralæknalögum. Flestar þeirra hafa hnigið að því að fjölga dýralæknisumdæmum að tilmælum Bændasamtakanna sem hafa talið bændur fá ófullnægjandi dýralæknisþjónustu eða afskipta hvað þjónustu varðar vegna búsetu. Af þessari ástæðu hefur dýralæknisumdæmum stöðugt fjölgað. Þau voru 12 árið 1950, 20 árið 1970 og 31 árið 1990.

Samkvæmt núgildandi lögum er landinu skipt í 31 dýralæknisumdæmi og starfa nú héraðsdýralæknar í 27 umdæmum. Héraðsdýralæknar hafa aldrei verið skipaðir í þrjú umdæmi, Hafnarfjarðarumdæmi, Akranesumdæmi og Norðfjarðarumdæmi, vegna skorts á fjárveitingu. Eitt hérað er nú ósetið, Norðausturlandsumdæmi, og tveimur umdæmum, Barðastrandar- og Strandaumdæmum, er þjónað frá Ísafirði.

Auk fastlaunaðra héraðsdýralækna starfa dýralæknar á sérsviðum varðandi sóttvarnir, fisksjúkdóma, fugla-, svína-, hrossa- , loðdýra-, sauðfjár-, nautgripa- og júgursjúkdóma. Einn dýralæknir starfar við eftirlit með sláturafurðum og er hann jafnframt stað gengill yfirdýralæknis.

Auk framantalinna dýralækna hefur sjálfstætt starfandi dýralæknum fjölgað á síðustu árum. Nú munu 15 dýralæknar starfa með sjálfstæðan rekstur. Sjálfstætt starfandi dýralæknar eru nær eingöngu á þeim svæðum landsins þar sem dýrafjöldi er mestur, greiðastar samgöngur og þar sem flest er gæludýra og dýra til afþreyingar. Á þess um svæðum sinna sjálfstætt starfandi dýralæknar einnig hluta af þjónustu við bændur vegna búfjárhalds þeirra.

Aðstæður til dýralæknisþjónustu hafa breyst mikið síðustu áratugi þannig að öll rök hníga að því í tillögum um nýja skipan dýralæknisþjónustu að taka tillit til þeirra breytinga. Samgöngur hafa batnað til mikilla muna víðast um landið og einangrun landsvæða er hvergi svo sem hún var til skamms tíma.

Í nágrannalöndum okkar er skipan dýralækninga nokkuð mismunandi.

Í Noregi er ríkjandi héraðsdýralæknakerfi á þann hátt að á þéttbýlum svæðum gegna héraðsdýralæknar eingöngu eftirlitshlutverki en í dreifbýli gegna þeir bæði eftirlitsstörfum og almennum dýralækningum.

Í Svíþjóð hefur nýlega verið innleitt opinbert kerfi varðandi dýralækningar. Ríkið greiðir héraðsdýralæknum laun en innheimtir síðan kostnað af bændum fyrir aðgerðir, lyf og ferðir. Auk héraðsdýralækna starfa sjálfstæðir dýralæknar með frjálsa gjaldskrá.

Í Danmörku er almennum dýralækningum eingöngu sinnt af sjálfstætt starfandi dýralæknum en umdæmisdýralæknar hafa eftirlit með höndum eða skipuleggja það og njóta þá starfskrafta sjálfstætt starfandi dýralækna ef með þarf.

Í Finnlandi starfa flestir dýralæknar á eigin vegum með styrk frá sveitarfélögum. Auk þess eru fastráðnir dýralæknar í eftirlitsstörfum.

Ég vík nú að frv. eins og það er lagt fram og því skipulagi sem þar er ráðgert að koma á. Markmið þessarar endurskoðunar er að bæta nýtingu fjárframlaga hins opinbera til dýralæknisþjónustu, gera skipulag dýralæknisþjónustu sveigjanlegra, tryggja dýralæknisþjónustu um allt land eftir því sem við verður komið, auka heilbrigðiseftirlit með innflutningi búvara og tryggja eðlilegt samstarf eftirlitsaðila í landbúnaði og koma í veg fyrir skörun á þeim vettvangi.

Núgildandi löggjöf um dýralækna hér á landi er nær eingöngu miðuð við störf héraðsdýralækna sem bæði annast eftirlit og almenna dýralæknisþjónustu. Við breyttar aðstæður þykir rétt að leggja til aðra skipan þannig að störf sjálfstætt starfandi dýralækna nýtist betur en verið hefur og jafnframt að leggja meiri áherslu á hlutverk dýralækna við hvers konar eftirlit með heilbrigði búfjár og með allri framleiðslu úr búfjárafurðum, þó þannig að komist verði hjá skörun við eftirlit, svo sem eftirlit á vegum sveitarfélaga og Hollustuverndar ríkisins.

Tekið er tillit til aðstæðna þar sem samgöngur, t.d. að vetri, eru oft erfiðar og búfjárstofn lítill, einkum á strjálbýlli svæðum. Á slíkum svæðum er þess vart að vænta að sjálfstætt starfandi dýralæknar sjái rök til þess að setjast að með dýralækningaþjónustu og þar því þörf á aðstoð opinberra aðila við almenna dýralæknisþjónustu.

Telja verður að samkvæmt stjórnsýslu- og samkeppnislögum sé brýnt að skilja að eins og aðstæður leyfa eftirlits- og dýralæknisþjónustu sama aðila. Það samrýmist illa góðri stjórnsýslu að aðili gefi út starfsleyfi og hafi jafnframt tekjur af þjónustu við þá starfsemi sem fær leyfið.

Á þessum sjónarmiðum byggist sú tillaga að skipta verkefnum dýralækna í eftirlitsstörf og almennar dýralækningar. Við þá skiptingu er horft til búsetu, fjölda og dreifingar dýra og samgangna. Þannig eru talin upp þau svæði landsins þar sem gert er ráð fyrir að aðeins starfi héraðsdýralæknir sem eingöngu fáist við eftirlitsstörf og þiggi laun sín úr ríkissjóði en öll almenn dýralæknisþjónusta verði á vegum sjálfstætt starfandi dýralækna. Ljóst er að þessu fyrirkomulagi verður ekki alls staðar við komið og því er gert ráð fyrir að í önnur umdæmi verði skipaðir dýralæknar sem áfram gegna hinu tvíþætta hlutverki eftirlits og almennrar dýralæknisþjónustu en þeir þiggi aðeins laun úr ríkissjóði fyrir eftirlitsstarfið.

Fyrirkomulag samkvæmt frv. eykur líkur á því að upp verði komið dýralæknastöðvum þar sem sérhæfni yrði meiri og gæti það orðið til þess að lengra verði fyrir suma að sækja dýralækni en við núverandi skipan og þar með dýrara. Möguleiki er á að draga úr slíku, t.d. með því að dýralæknar annist í auknum mæli sæðingar búfjár því að þá mundi heimsóknum dýralækna fjölga og þær gætu nýst við tilfallandi dýralæknis- og forvarnastörf vegna heilbrigði gripa.

Augljós ávinningur af hinu nýja skipulagi felst einnig í því að sveigjanleiki er meiri og því unnt að hliðra til störfum eftir áherslum innan kerfisins og því hvar álagið er mest hverju sinni.

Hæstv. forseti. Ég mun nú gera stuttlega grein fyrir nokkrum helstu greinum frv. sem fela í sér nýmæli frá því sem nú er í lögum.

Í 4. gr. er ákvæði um dýralæknaráð sem verður eins konar ráðgjafi ráðherra og yfirdýralæknis í veigamiklum málum, t.d. varðandi innflutning búfjár. Við höfum sloppið við fjölda hættulegra sjúkdóma sem hafa valdið miklum usla þar sem þeir hafa komið upp í öðrum löndum. Jafnframt hafa sjúkdómar, sem lítið ber á í heimalandi, valdið ómældu tjóni á íslensku búfé þegar þeir hafa borist til landsins.

Stöðug varnarbarátta gegn því að smit berist til landsins hefur oft sætt harðri gagnrýni af hendi þeirra sem ekki þekkja hversu ómetanlega hagsmuni er verið að verja, þ.e. gott heilbrigðisástand og lítil útgjöld við dýralækningar ásamt lágum lyfja- og bóluefniskostnaði. Með skipan dýralæknaráðs er skotið styrkari stoðum undir margar þær veigamiklu ákvarðanir sem tengjast hagsmunum þjóðarinnar í þessum efnum. Næsta víst er að með aukinni samkeppni og fjölgun dýralækna koma upp fleiri ágreiningsefni sem ávinningur felst í að geta leitað lausnar á án þess að fara með mál til dómstóla. Niðurstaða lögskipaðs hóps sérfróðra manna mun að öðru jöfnu verða til styrktar í varnarbaráttunni og við úrlausn ágreiningsefna og styrkja yfirstjórn dýralæknamála.

Ákvæði 5. gr. um að aðstoðaryfirdýralæknir skuli vera yfirdýralækni til aðstoðar og staðgengill hans er nýmæli. Aðstoðaryfirdýralæknir skal valinn úr hópi sérgreinadýralækna.

Þá eru einnig í greininni ákvæði um verksvið yfirdýralæknis. Verkefni embættis yfirdýralæknis hafa aukist mjög á síðustu árum. Kemur þar margt til, svo sem auknar heilbrigðiskröfur, aukin samskipti og viðskipti milli landa, stóraukin verkefni vegna fjölþjóðasamninga á sviði dýrasjúkdóma, heilbrigðiseftirlits og samræmingar starfshátta landa sem aðild eiga að slíkum samningum.

Ísland er aðili að mörgum alþjóðastofnunum sem fjalla um heilbrigði dýra og búfjárafurða. Embætti yfirdýralæknis fær sendar skýrslur og tilkynningar sem varða þessi mál og er jafnframt skuldbundið til að gera grein fyrir slíkum málum hér á landi, m.a. vegna inn- og útflutnings dýra og búfjárafurða. Þessi samskipti eru mjög mikilvæg þar sem kröfur um opnun markaða milli landa hafa aukist á síðustu árum og munu enn aukast með nýjum samningum um alþjóðaviðskipti.

Í frv. er gert ráð fyrir að allt eftirlit með framleiðslu sláturafurða og mjólkur verði undir yfirstjórn yfirdýralæknis til að samræming náist og til að koma í veg fyrir skörun við aðra aðila sem hafa eftirlit með afurðunum þegar þær eru komnar í dreifingu.

Í 7. gr. er gert ráð fyrir því að eingöngu dýralæknar sem hafa leyfi til að stunda dýralækningar megi framkvæma læknisaðgerðir á dýrum.

Samkvæmt 16. gr. núgildandi laga er unnt að veita mönnum sem ekki hafa dýralæknismenntun leyfi til að starfa að dýralækningum. Frumvarpið gerir ráð fyrir að slík heimild falli niður. Bæði er það að dýralæknum hefur fjölgað og margir eru við nám í dýralæknisfræðum, auk þess sem skilningur og kröfur um dýravernd og góða meðferð dýra hafa aukist.

Í 8. gr. er ákvæði sem fært er til samræmis við ákvæði lyfjalaga. Henni er ætlað að skapa meira aðhald og árvekni um meðferð lyfja. Í flestum tilvikum verður að reikna með að sjúkdómsgreining byggist á skoðun við heimsókn dýralæknis, en greining á rannsóknarstofu eftir heimsókn dýralæknis eða eftir símaviðtal þar sem dýralæknir hefur farið yfir einkenni og gang sjúkdómsins með eiganda eða umráðamanni dýrsins telst einnig fullnægjandi sé ekki um neinn vafa að ræða af hálfu dýralæknis.

Í 4. mgr. 9. gr. er ákvæði sem byggist á þeim skipulagsbreytingum sem felast í frv. þessu, þ.e. að dýralæknar sem stunda almennar dýralækningar eru skyldugir til að taka þátt í opinberri vaktþjónustu á því svæði þar sem aðalstarfsstöð þeirra er. Vaktþjónustan verður kostuð af ríkissjóði. Þessi vaktþjónusta bannar ekki öðrum starfandi dýralæknum á svæðinu sem ekki eru á vakt að taka að sér vitjanir en þeir fá þá aðeins greitt hjá dýraeigendum sjálfum fyrir vitjunina. Geti dýralæknir sem ekki er á vakt ekki tekið vitjun getur hann alltaf vísað á vakthafandi dýralækni utan almenns þjónustutíma. Vaktþjónustan verði skipulögð af héraðsdýralækni í viðkomandi umdæmi samkvæmt nánari reglum sem fram koma í samningum við Dýralæknafélag Íslands.

Í 11. gr. felst mikil skipulagsbreyting. Dýralæknisumdæmum fækkar úr 31 í 13 umdæmi. Í tíu umdæmanna er einn dýralæknir skipaður með búsetu í hverju þeirra en tveir dýralæknar skulu starfa í þeim þremur sem eru landfræðilega stærst.

Lögð er áhersla á að héraðsdýralæknar sinni eftirlitsstörfum en sjálfstætt starfandi dýralæknar sinni almennum dýralækningum og er það meginreglan. Í sumum umdæmum verður aftur á móti að ætla héraðsdýralæknum það hlutverk að sinna bæði eftirlitsþættinum og almennum dýralækningum eins og áður hefur komið fram.

Gert ráð fyrir að héraðsdýralæknirinn í þremur umdæmum, Gullbringu- og Kjósar-, Skagafjarðar- og Eyjafjarðar- og Suðurlandsumdæmum, sinni eingöngu eftirlitsstörfum en hinir tíu sinni bæði eftirlitsþættinum og almennum dýralækningum. Það er þó ljóst að breyttar aðstæður í framtíðinni í einstökum byggðarlögum koma til með að gefa tilefni til endurmats á þessu fyrirkomulagi.

Í 13. gr. felst nýmæli sem á sér hliðstæður annars staðar, t.d. í Noregi, þ.e. að greiða skuli hluta ferðakostnaðar þegar um langan veg er að fara til nauðsynlegra dýralæknisstarfa bæði til að veita reglubundna þjónustu og bráðaþjónustu. Slíkt auðveldar þeim sem búa afskekkt að nýta þjónustu dýralækna.

Með 14. gr. verður lögð stóraukin áhersla á að fá til starfa dýralækna með sérþekkingu á einstökum sviðum innan landbúnaðarins. Þeim hefur í samvinnu við búgreinafélögin tekist að bæta heilbrigði og auka arðsemi búanna ásamt því að tryggja hollari afurðir. Ekki er æskilegt að þeir dýralæknar, sem vinna á sérsviðum, vinni jafnframt að almennum dýralækningum.

Til þess að nánari tengsl skapist milli sérgreinadýralækna og bænda er einn dýralæknir með sérþekkingu á júgurbólgu er staðsettur við Bændaskólann á Hvanneyri og annar með sérþekkingu á hrossasjúkdómum við Bændaskólann á Hólum.

Áríðandi er að þessi þjónusta sé fyrir hendi, en betra heilsufar búfjár, bættur aðbúnaður og minnkandi notkun lyfja er í samræmi við þau markmið að framleiða vistvænar og lífrænar afurðir.

Hæstv. forseti. Ég vil að öðru leyti vísa til greinargerðarinnar og athugasemda með frv. Hvað varðar meðferð máls vil ég leggja mikla áherslu á nauðsyn þess að lögfesta frv. á þessu þingi og að lokum legg ég til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. landbn.