Lögverndun á starfsheiti grunnskólakennara

Föstudaginn 13. febrúar 1998, kl. 10:51:47 (3803)

1998-02-13 10:51:47# 122. lþ. 67.1 fundur 445. mál: #A lögverndun á starfsheiti grunnskólakennara# (heildarlög) frv., menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur

[10:51]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseeti. Ég lít á ræðu hv. þm. sem sögulegt yfirlit því að það er alrangt að halda því fram að samstarf ráðuneytisins við Hið ísl. kennarafélag sé slæmt. Það er mjög gott samstarf við forustumenn Hins ísl. kennarafélags. Það er ljóst að við erum ekki sammála um þennan þátt sem hv. þm. vék að, og ég vék sjálfur að. Það lýtur sérstaklega þó að þeim sem hafa iðnréttindi og kennslu iðngreina í framhaldsskólum. Það er því sögulegur ágreiningur og heyrir sögunni til það bréf sem hv. þm. las og var það staðfest m.a. á fundi sem ég átti með stjórn Hins ísl. kennarafélags í gær. Það er ekkert sem ber í milli ráðuneytisins og stjórnar Hins ísl. kennarafélags sem segir að ágreiningur eða tortryggni sé í okkar samskiptum.

Varðandi kennaraskrána sem hv. þm. las svona sem sagnfræði, því að málinu hefur að sjálfsögðu miðað frá því að þær ákvarðanir voru teknar og það hefur verið unnið að því. Það liggja fyrir tillögur frá Sambandi ísl. sveitarfélaga um hvernig unnt verði að standa vel að þessu. Ráðuneytið hefur fallist á þær tillögur og kennarasamtökin hafa fylgst nákvæmlega með því og var m.a. rætt ítarlega á fundi mínum með stjórn Hins ísl. kennarafélags í gær og farið yfir málið. Og hvað varðar námsmatsnefndirnar þá er það líka auðleyst mál ef menn vilja koma sér saman um það og ráðuneytið hefur lýst vilja sínum til að gera það með þeim hætti að kennarasamtökin geti vel við þetta unað.

Um afstöðu ráðuneytisins til grunnskólans er einnig alrangt hjá hv. þm. að grunnskólinn sé hornreka í ráðuneytinu. Þvert á móti hefur ráðuneytið starfað nákvæmlega samkvæmt grunnskólalögunum og tekið á öllum þeim málum sem grunnskólann varðar í samræmi við lögin. Við erum núna að vinna að aðalnámskránni og það er rétt, en það er líka okkar lagaskylda í samræmi við ákvæði í grunnskólalögunum.