Uppboð á skuldabréfum ÞÞÞ á Akranesi

Mánudaginn 16. febrúar 1998, kl. 17:29:04 (3895)

1998-02-16 17:29:04# 122. lþ. 68.92 fundur 220#B uppboð á skuldabréfum ÞÞÞ á Akranesi# (umræður utan dagskrár), SvG
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 122. lþ.

[17:29]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Um þetta mál er svo margt að segja að erfitt gæti reynst að koma því að á þeim knappa tíma sem við höfum til umráða, 15 mínútum. Þetta mál er gríðarlega flókið og mætti halda því fram að það hafi verið flækt heilmikið í umræðunni. Kannski mætti halda því fram að ekki hafi verið reynt að skýra kjarna málsins vegna þess að í sjálfu sér er hann einfaldur.

Áður en ég kem að meginmáli ræðu minnar er athyglisvert að benda á að allir eru sammála um að dropinn sem fyllti mælinn hafi verið uppboðið og 50 þús. kr. tilboðið í bréfin. Það setur skriðuna af stað, veldur reiði og ólgu í þjóðfélaginu. Enginn þarf að vera neitt hissa á því. Þá spyr ég, ef allir eru í raun og veru sammála um það, af hverju er ekki gripið til úrræða í framhaldi af því og teknar nauðsynlegar ákvarðanir í þeim efnum. Það mundi bersýnilega hafa það í för með sér að sýslumaðurinn á Akranesi yrði a.m.k. minntur á að þegar uppboð fer fram sé hann mættur þar fyrir hönd tveggja sviða ríkisvaldsins, þ.e. bæði fjmrh. og dómsmrh.

[17:30]

En í staðinn fyrir að þrengja málið inn í þetta aðalatriði þá tekur nákvæmlega þarna steininn úr og dregin eru fram atriði, alls konar meira og minna rammflóknar lagaskýringar og aðalávirðingar hæstv. fjmrh. á Ríkisendurskoðun eru ekki efnislegar heldur fyrst og fremst þær að Ríkisendurskoðun hafi vitnað í rangar lagagreinar með tilteknum hætti í þeim greinargerðum sem Ríkisendurskoðun hefur sent frá sér.

Ég held að líka sé nauðsynlegt, herra forseti, að láta það koma fram --- ég læt það a.m.k. koma fram af minni hálfu --- að ég tel að málflutningur dómsmrh. og fjmrh. gegn Ríkisendurskoðun hér í dag sé hneyksli vegna þess að aftur og aftur nota þeir sér það að hér er enginn sem talar fyrir Ríkisendurskoðun. Enginn hér í þessari stofnun getur tekið upp hanskann fyrir Ríkisendurskoðun annar en forseti Alþingis sem allir vita að gerir það ekki. Þrátt fyrir að Ríkisendurskoðun eigi sér engan formlegan málsvara hér inni eins og staðan er þá fara þeir aftur og aftur með ótrúlegum svigurmælum að þessari stofnun sem vinnur á vegum forsn. Alþingis. Hæstv. dómsmrh. segir að vinnubrögð hennar séu löglaus og siðlaus. Hæstv. fjmrh. segir aftur og aftur að Ríkisendurskoðun grafi undan því starfi sem unnið er í ráðuneytunum. Hæstv. fjmrh. segir: ,,Ríkisendurskoðun les ekki þau gögn sem hún gefur út.`` Hæstv. fjmrh. segir að Ríkisendurskoðun dragi ekki neitt til baka eða að það sem hún dragi til baka geri hún þannig að óþolandi sé, án þess að hæstv. fjmrh. upplýsi hvernig Ríkisendurskoðun á að biðjast afsökunar. Hvernig á hún að láta í ljós sína iðrun fyrir hina háæruverðugu og hæstvirtu ráðherra þessa lands? Hvernig á Ríkisendurskoðun að iðrast miðað við málflutning hæstv. ráðherra hér? Síðan segir hæstv. fjmrh. það sem er hápunkturinn á ósmekklegum, hneykslanlegum svigurmælum í garð Ríkisendurskoðunar og það er þetta: ,,Í vinnubrögðum Ríkisendurskoðunar gerast hlutirnir þannig að þar helgar tilgangurinn meðalið.`` Hæstv. fjmrh. notar með öðrum orðum orðalag um Ríkisendurskoðun og samlíkingu sem gjarnan hefur verið notuð um verstu fanta sögunnar. Og þetta er um Ríkisendurskoðun. Hún hefur engan mann hér í þessum stólum eða sætum til að svara fyrir sig, engan.

Í Austurríki er það þannig að ríkisendurskoðandi hefur rétt til að koma á þingfundi til að svara fyrir sína stofnun þegar skýrslur hennar eru teknar fyrir. Það er einsdæmi í Evrópu. Sums staðar eru skýrslur ríkisendurskoðananna þannig að niðurstöðurnar hafa dómstólagildi. Í Suður-Evrópu eru ríkisendurskoðunarstofnanirnar kallaðar dómstólar. Annars staðar er um að ræða skýrslur. En í þessu tilviki, þó að hæstv. fjmrh. í öðru orðinu viðurkenni að ekki megi ljúka málinu og það þurfi að fara yfir málið í þinginu, þá notar hann tækifærið, a.m.k. tíu sinnum í ræðu sinni, til að ráðast að Ríkisendurskoðun með algerlega óheyrðum fyrirgangi. Ég segi alveg eins og er: Ef forsn. Alþingis ætlar að sitja þegjandi undir þessum ósmekklegu dylgjum og árásum á Ríkisendurskoðun, er í raun og veru spurning hvort hæstv. ráðherra er ekki þar með að ná nokkru fram, þ.e. því að hann vilji helst losna við þessa stofnun.

Ég tel að málflutningur hæstv. fjmrh. áðan hafi ekki snúist fyrst og fremst um þá skýrslu sem hér er verið að ræða, þ.e. þornin þrjú, heldur sé hæstv. fjmrh., eftir sjö ára viðureign við Ríkisendurskoðun, að reyna að ná sér niðri á henni, uppsafnaður pirringur fjmrn. á Ríkisendurskoðun sé að birtast í þessum ótrúlegu ræðuhöldum hæstv. fjmrh. í dag. Ég held að það sé nauðsynlegt að það komi mjög skýrt fram að þetta er hneykslanlegur málflutningur og ósmekklegur í garð stofnunar sem hefur engan til að verja sig hér á þessum stað.

Í öðru lagi ætla ég, herra forseti, að benda á það sem mér finnst vera svo ótrúlega einfalt í þessu máli en er eiginlega aldrei talað um. Það er sá veruleiki að um er að ræða uppboð á skuldabréfum. Þau eru tvö. Þau eru hvort að fjárhæð 43,5 millj. kr. eða svo. Þessi bréf eru til 20 ára og bera 5% ársvexti og er einn gjalddagi á ári, 1. febrúar ár hvert, í fyrsta sinn 1. febrúar 1997. Reyndar hefur það ekki verið nefnt í umræðunum í dag að sú eina afborgun sem þegar er gjaldfallin var upp á 14 millj. kr. og var greidd af báðum bréfunum til fjárnámshafa, þ.e. til innheimtumanns ríkissjóðs árið 1997. Þetta finnst mér sanna það sem sanna þarf í þessu máli, þ.e. það að í hendi ríkissjóðs, í vörslu ríkissjóðs, gátu þessi bréf auðvitað þýtt tiltekin verðmæti fyrir skattgreiðendur og þjóðina.

Þarna voru tvö bréf og það var greinilegt að ríkissjóður hafði tangarhald á þessum bréfum. Engum dettur í hug að segja hér að ríkissjóður hafi átt þessi bréf. Ríkissjóður hafði tangarhald á þessum bréfum. Og þá kemur hitt: Tangarhald til hvers? Jú, til þess að greiða annars vegar vangoldna skatta í stórum stíl og hins vegar sektir. Hvaða upphæðir er þar um að ræða? Þar er um að ræða upphæðir sem eru á fyrsta veðrétti, sektarfjárhæð þeirri sem Þórður Þ. Þórðarson hafði verið dæmdur til að greiða vegna umfangsmikilla skattsvika sinna, að fjárhæð 50 millj. 796 þús. kr. En á öðrum veðrétti gerði sýslumaður nýtt fjárnám vegna opinberu gjaldanna, hið umdeilda fjárnám, að fjárhæð 93.204.394 kr. auk vaxta. Með öðrum orðum: Ríkið, þ.e. þjóðin, skattgreiðendur, áttu inni hjá þessum aðila um 150 millj. kr. og til þess að tryggja sína stöðu er greinilegt miðað við allar aðstæður að ríkið á fárra kosta völ. Einn er sá að reyna að hafa hendur í hári þessara bréfa. Og um hvað snýst síðan málið af hálfu þeirra manna sem hér um ræðir? Það snýst um það að þegar formaður Alþb. og þingflokkur Alþb. og óháðra skrifar Ríkisendurskoðun, þá spyrjum við einfaldlega: Var hagsmuna ríkissjóðs gætt? Var hagsmuna þjóðarinnar gætt? Var hagsmuna skattgreiðenda gætt? Ríkisendurskoðun segir nei við þessu af því að ríkissjóður sleppti bréfunum. Menn voru ekki að vinna vinnuna sína vegna þess að menn gættu þess ekki að tryggja það að hagsmuna ríkissjóðs væri gætt. Og þegar öllum lagaflækjunum er flett utan af þessu máli þá stendur þetta upp úr. Annars vegar það að formaður Alþb. og við spyrjum: ,,Var hagsmuna ríkissjóðs gætt?`` Ríkisendurskoðun svarar: ,,Nei, hagsmuna ríkissjóðs og skattgreiðenda var ekki gætt.`` Og þá er alveg ljóst, eins skýrt og tvisvar tveir eru fjórir, herra forseti, að ekki er nokkur leið fyrir hæstv. fjmrh. að ætla sér að leysa þennan vanda með því að ráðast að Ríkisendurskoðun eins og hann gerði í dag. Það gengur ekki.

Ríkisendurskoðun er að vinna þau verk sem henni er skylt að vinna og kemst að þeirri niðurstöðu að ríkinu eða þeim sem með mál þess fara, þ.e. sýslumanninum í þessu tilviki sem er vinnumaður hjá báðum þessum ráðherrum sem hafa hér verið með miklar ræður í dag, hafi láðst að gæta hagsmuna þjóðarinnar, þ.e. ríkissjóðs. Og á vegum hverra er hann? Hann er á vegum þeirra. Á ábyrgð hverra er hann? Hann er á ábyrgð þeirra. Þannig er málið. Svo einfalt er málið og þess vegna held ég að í framhaldi af þessari umræðu sé alveg óhjákvæmilegt, herra forseti, að Alþingi taki á þessu máli. Ég tel út af fyrir sig að það geti gerst með ýmsum hætti. Ég hefði talið heppilegast að í þetta mál yrði sett rannsóknarnefnd samkvæmt stjórnarskránni vegna þess hvernig málið er vaxið, að það þurfi alveg sérstök efnistök til að taka á þessu máli.

Ég tel að engin venjuleg þingnefnd geti náð utan um þetta mál eins og það er orðið því það er bersýnilega orðið hápólitískt. Ræður ráðherranna í dag taka í raun og veru málið út úr faglegu samhengi. Ræður ráðherranna eru svo ofstækisfullar í dag að þeir taka málið algerlega út úr öllu faglegu samhengi. Og þeir segja sem svo: ,,Hér erum við mættir, tveir ráðherrar Sjálfstfl. og það er hin pólitíska æra okkar sem hér er að veði.`` Þannig að því miður er búið að setja málið í allt annað samhengi en það þyrfti að vera fyrir Alþingi vegna þess að í sjálfu sér er það ekki mál Alþingis heldur Sjálfstfl. í þessu tilviki hvort þessir ráðherrar hafa pólitíska æru eða ekki. Það er ekki málefni Alþingis út af fyrir sig. Því er það mikil spurning hvort ekki sé nauðsynlegt að taka málið út úr þessu samhengi sem ráðherrarnir hafa sett það í, út úr hinu þrönga flokkspólitíska samhengi Sjálfstfl. og setja það í vítt, faglegt samhengi, með því að kjósa rannsóknarnefnd samkvæmt stjórnarskránni til að fara yfir það. Nú geri ég hins vegar ekki ráð fyrir að það takist. Það er ekki vegna þess að ég hafi rangt fyrir mér í þeim efnum að það ætti að kjósa svona nefnd heldur er það vegna þess að ég er eiginlega sannfærður um að þessir hæstv. ráðherrar muni líka beita sér af öllu afli gegn því að svona nefnd verði til því þeirra er mikill mátturinn í þessu máli og þeir eru greinilega tilbúnir að ganga mjög langt í því að beita valdi.

Það sést t.d. best á þessum utandagskrárumræðum í dag og er kannski rétt að rifja það upp að þegar Alþb. óskaði eftir þessum utandagskrárumræðum, þá óskuðum við eftir að umræðurnar stæðu í hálftíma. Það var hins vegar ósk ráðherranna að umræðurnar færu fram skv. 2. mgr. 50. gr. þingskapanna en ekki þeirri fyrri vegna þess að þeir þurftu svo mikið að tala og það kemur í ljós í dag af hverju þeir þurftu að tala svona mikið. Þeir þurftu að efna til svona ofboðslegra árása á Ríkisendurskoðun. Efni máls þeirra var fyrst og fremst árásir á Ríkisendurskoðun og ekkert annað. Í raun og veru komu þeir aldrei að kjarna málsins sem er sá að þeir og þeirra stofnanir vanræktu að gæta hagsmuna þjóðarinnar, skattgreiðenda eða ríkissjóðs. Það er aðalniðurstaða Ríkisendurskoðunar.

Herra forseti. Það mætti síðan ná utan um þetta mál ef það virtist ekki vera miklu alvarlegra en þetta því að í greinargerð sýslumannsins á Akranesi eru aftur og aftur dregnar fram enn þá alvarlegri ávirðingar. Það er t.d. fullyrt í greinargerðinni, eins og fram kom í upphafsmáli hv. þm. Margrétar Frímannsdóttur, að ráðuneytið hefði gert svona samninga ekki ,,einungis við þá, sem dæmdir hafa verið til greiðslu sektar, en verið peningalausir og jafnvel gjaldþrota eins og Þ.Þ., heldur við menn, sem taldir voru auðugir á samningsstundu ...`` Þetta stendur í greinargerð sýslumannsins á Akranesi. Annars staðar í greinargerðinni segir orðrétt, herra forseti:

,,Dómsmálaráðuneytið hefur gerst brotlegt við lög með málflutningi og dómsáfellingu á opinberum vettvangi.``

Í greinargerð sýslumannsins á Akranesi eru nefnd sex tilvik þar sem sýslumaðurinn telur að dómsmrn. hafi gerst brotlegt við lög með málflutningi og dómsáfellingu á opinberum vettvangi. Og það segir sína sögu að þegar (Forseti hringir.) dómsmrn. vill fjalla um þetta mál þá dugir því ekki að notast við eigin lögfræðiþekkingu heldur eru kallaðir til menn utan úr bæ til að fara yfir málin. Það er því bersýnilegt að víða er pottur brotinn í þessu máli og hinar pólitísku árásarræður ráðherranna á Ríkisendurskoðun leysa þá ekki frá þessum vanda.