Uppboð á skuldabréfum ÞÞÞ á Akranesi

Mánudaginn 16. febrúar 1998, kl. 18:05:05 (3905)

1998-02-16 18:05:05# 122. lþ. 68.92 fundur 220#B uppboð á skuldabréfum ÞÞÞ á Akranesi# (umræður utan dagskrár), Flm. MF
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 122. lþ.

[18:05]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Þetta mál er um margt sérstakt eins og áður hefur komið fram. Þar sem við erum að ræða um skýrslu Ríkisendurkoðunar sem heyrir undir Alþingi er auðvitað einkennilegt að hér geta ráðherrar, meðan þeir svara fyrir skýrslu sem kom frá Ríkisendurskoðun í upphafi árs ásamt greinargerð sem skilað var vegna athugasemda ráðuneytanna, mætt með aðstoðarmönnum sínum sem m.a. hafa tekið þátt í því að vinna þau minnisblöð, fréttatilkynningar og greinargerðir sem hafa birst frá ráðuneytunum, en Ríkisendurskoðun sem heyrir undir Alþingi hefur hins vegar enga möguleika til þess að koma og svara fyrir sig. Vissulega hefur það gerst hér í dag að þessi umræða hefur, að mínum mati, snúist of mikið um Ríkisendurskoðun. Umræðan snýst ekki um niðurstöður Ríkisendurskoðunar heldur Ríkisendurskoðun sem stofnun. Stofnunin hefur staðið sig mjög vel og við höfum átt mjög góð samskipti við hana. Að vísu ekki hæstv. fjmrh. en flestir aðrir hafa átt góð samskipti við Ríkisendurskoðun.

Mér finnst þetta mál vera tiltölulega einfalt. Sú niðurstaða Ríkisendurskoðunar að fjmrn. eða fulltrúar þess hafi brugðist sem hagsmunagæsluaðilar ríkissjóðs er réttmæt. Það er niðurstaða Ríkisendurskoðunar sem eingöngu er studd rannsókn þeirra á uppboðinu. Það er því óþarft að eyða löngum tíma í allra handa lagaflækjur vegna þess að Ríkisendurskoðun fékk ekki annað hlutverk en að skoða uppboðið sérstaklega og hvort eðlilega hefði verið staðið að því. Niðurstaða Ríkisendurskoðunar eftir að hafa skoðað uppboðið er sú að fjmrn. hafi brugðist sem hagsmunagæsluaðili ríkissjóðs.

Ragnar Hall kemst í raun að sömu niðurstöðu í sinni greinargerð, þó það sé út frá öðrum forsendum. Ragnar skoðaði gang málsins lengra aftur í tímann en Ríkisendurskoðun var falið. Í niðurstöðu hans í 8. lið telur hann að fjmrn. eða sérlegur fulltrúi fjmrn., sem er í þessu tilviki sýslumaðurinn á Akranesi, hafi brugðist hlutverki sínu þar sem segir orðrétt, með leyfi forseta:

,,Í skýrslu Ríkisendurskoðunar er ekki vikið að því, að fleiri fullnustumöguleikar kunni að hafa verið fyrir hendi í sambandi við umrædda skattkröfu ríkissjóðs en ekki verið nýttir. Í því sambandi bendi ég á, að fyrsta fjárnámsgerðin, sú sem framkvæmd var 28. des. 1995, var lýst árangurslaus að hluta. Sú gerð heimilaði kröfuhöfum að knýja fram gjaldþrotaskipti á búi gerðarþolans. Vitað var á þessum tíma að skuldabréfin sem fjárnám var gert í höfðu orðið til við ráðstöfun eigna gerðarþolans til aðila sem voru honum nákomin í skilningi gjaldþrotaskiptalaga og kynnu af þeim sökum að vera riftanleg, ef verð og greiðsluskilmálar teldust óeðlileg. Gjaldþrotaskipti hefðu á engan hátt rýrt fullnustumöguleika ríkissjóðs af öðrum eignum þrotamanns, því að ljóst mátti vera að hann skuldaði ekki öðrum en ríkissjóði.

Þegar umrædd fjárnámsgerð fór fram voru liðnir tæpir tíu mánuðir frá því að ÞÞÞ hafði ráðstafað eigum sínum til einkahlutafélagsins sem er skuldari á margnefndum skuldabréfum. Ráðstöfun eigna til nákominna er að öðrum skilyrðum uppfylltum riftanleg ef hún hefur átt sér stað á síðustu 24 mánuðum fyrir þann dag sem krafan um gjaldþrotaskipti kemur fram.``

Síðan segir Ragnar: ,,Ég tel að það hafi verið misráðið að setja ekki fram kröfu um gjaldþrotaskipti á búi ÞÞÞ áður en þessi tími rann út, sem var í byrjun mars 1997, en innheimtuaðilar ríkissjóðs hafa af minni tilefnum knúið fram gjaldþrotaskipti á búum skuldara. Þegar fjárnámin voru gerð 9. september 1997 voru riftunarmöguleikar hins vegar úr sögunni og þess vegna tilgangslítið að knýja fram gjaldþrotaskipti.``

Niðurstaða Ragnars Halls er sú að ríkisstjórnin og þá fyrst og fremst fjmrh. hafi brugðist sem hagsmunagæsluaðili ríkissjóðs.

Það er hægt að varpa ábyrgðinni yfir á þennan ágæta títtnefnda sýslumann á Akranesi. Auðvitað er hægt að segja að ábyrgðin sé hans, að hann hafi ekki sinnt störfum sínum sem skyldi. Það má vel vera. Engu að síður er hann eins og hæstv. fjmrh. sagði áðan, sérstakur fulltrúi hans við svona aðgerðir. Þannig að fjmrn. átti í öllum tilvikum fulltrúa á staðnum, sýslumanninn á Akranesi. En niðurstaða Ragnars er hin sama og niðurstaða Ríkisendurskoðunar þó hún byggi á öðrum forsendum og hann hafi skoðað málið frá upphafi sem Ríkisendurskoðun var ekki falið. Sjálfsagt væri hægt að draga fram margt fleira í þessu máli væri það skoðað frá byrjun. Hjá skattrannsóknastjóra hefur komið fram að hann vilji sem fæst orð hafa um það sem á eftir rannsókninni sjálfri kom.

Eftir að þessu er klúðrað, Hæstiréttur hefur fellt sinn dóm og gert manninum að greiða 50 millj. kr. sekt, óskar lögmaður hins dæmda eftir því við sýslumann að fá sektarkröfuna færða fram fyrir kröfu vegna skattaskuldar. Það er ósköp eðlilegt vegna þess að bréfin eru eina tryggingin sem eftir er fyrir greiðslu. Og þessi 154 millj. kr. skattaskuld er nánast afskrifuð. Þegar sýslumaður breytir fjárnáminu, færir sektina fram fyrir og gerir ekki nýtt fjárnám fyrir skattaskuldunum þá er hann að taka ákvörðun, þó ég sé auðvitað ekki lögfróð, um það að afskrifa 154 millj. kr. skattaskuld.

Það er rétt hjá hæstv. fjmrh. að verði sektin greidd þá hefur það fé, sem menn gerðu ráð fyrir að ná inn eftir að nýtt fjárnám var gert, ekki tapast. En hins vegar er alveg ljóst að flest bendir til þess að um 154 millj. kr. hafi tapast. Allir gera sér grein fyrir því að þegar að baki þessarar sektarkröfu liggur sú vararefsing að viðkomandi einstaklingur sitji í tólf mánuði í fangelsi ef hann ekki greiðir, þá er öll pressan á það að greiða sektina en ekki skattkröfuna. Þess vegna finnst mér sú ákvörðun sýslumanns með öllu óskiljanleg, tveimur mánuðum eftir að bréf ráðuneytis er sent þar sem ráðuneytið biður um eðlilega meðferð á opinberum gjöldum sem þessi einstaklingur skuldaði, að færa sektina fram fyrir og keyra allt í uppboð. Þar með hefur hann tekið ákvörðun um að sektin verði greidd með skuldabréfunum, fáist eitthvert verð fyrir þau, en skattkröfurnar standi eftir. Auðvitað er það mjög alvarlegt að standa svona að málum frá upphafi. Ef fjmrn. hefði fylgst með þessum sérstaka fulltrúa sínum, sýslumanninum á Akranesi, og gjörðum hans í þá hefði fjmrn. e.t.v. getað bent á að óeðlilega væri staðið að málinu í upphafi, eins og Ragnar Hall bendir á. Auðvitað er dómur hans harður í þeirri greinargerð sem hann vinnur fyrir dómsmrn. Hann er jafnharður og sá dómur Ríkisendurskoðunar að ekki hafi verið staðið nægjanlega vel að því að verja hagsmuni ríkissjóðs. Hér er um mjög stóra upphæð að ræða.

[18:15]

Ég get nefnt sem dæmi að í því þorpi sem ég bý eru um 540 íbúar. Heildartekjur þess sveitarfélags til að standa undir öllum útgjöldum, sama hvort um er að ræða rekstur eða stofnkostnað á ári hverju, eru 80 millj. kr. Skuldin, sem að öllum líkindum verður afskrifuð því við skulum gefa okkur að sektin verði greidd, annars er refsing þar til vara, samsvarar tveggja ára tekjum þessa sveitarfélags. Þetta er ekkert lítið hagsmunamál. Og 154 millj. er ekki lítil upphæð og margt væri hægt að gera fyrir hana, t.d. verja henni til sjúkrahússins á Akranesi eða í Stykkishólmi, til heilsugæslunnar á Vesturlandi eða til skólamála á Vesturlandi, ef við bindum þetta við þann landsfjórðung þar sem allt þetta mál á nú heima. Auðvitað er erfitt að horfa upp á slíkt þegar við erum á sama tíma að skera niður til samfélagslegrar þjónustu.

Eignatilfærslan sem átti sér stað í upphafi innan þessarar fjölskyldu, eignirnar hafa auðvitað að hluta orðið til vegna þess að þær 154 millj. voru notaðar til annarra hluta en að greiða það sem okkur ber til ríkisins til að standa undir samfélagslegum verkefnum. Auðvitað.

Það sem mér finnst alvarlegast í þessu máli er að það er ákveðin tilfinning fyrir því að þetta sé ekkert einsdæmi. Kröfur hafi tapast á þennan hátt, fyrir handvömm innheimtumanns ríkissjóðs og sá hinn sami innheimtumaður sem hagar sér á þennan hátt sem fulltrúi fjmrn. hagar sér á annan hátt með það sem snýr að dómsmrn. þegar hann er fulltrúi þess. Það er líka mjög alvarlegur hlutur. Þær ásakanir sem fram hafa komið af hans hálfu gagnvart starfsmönnum dómsmrn. og jafnframt hæstv. dómsmrh. eru mjög alvarlegar. Fjölskyldum sakamanna sem sitja í fangelsi í fimm mánuði, fjölskyldumenn, vegna þess að þeir gátu ekki greitt 2,5 millj. kr. skuld, svíður þessi mismunun. Vararefsingin var fimm mánaða fangelsisvist samkvæmt dómi sem féll fyrir nokkrum árum --- fjölskyldumaður hirtur, settur inn og engin miskunn. Fimm mánuðir fyrir 2,5 millj. en í þessu máli eru mánuðirnir 12 fyrir 50 millj. Þarna er ákveðinn mismunur á ferðinni, mismunun sem aðstandendur fá ekki skilið. En þessir einstaklingar fá að heyra af hálfu þessa fulltrúa dómsmrn. að það sé samið í dómsmrn. um greiðslu skulda og hann fullyrðir að það hafi verið gert í fjögur skipti. Hæstv. dómsmrh. segir að það kannist enginn starfsmaður dómsmrn. við þetta. Það segir hann í ræðustól. Við hljótum þá að eiga heimtingu á að sýslumaðurinn, sem fer fram í fjölmiðlum og skilar inn greinargerð, sem nú er opinber um þetta mál þar sem þessar fullyrðingar standa, komi fram og rökstyðji þær með afgerandi hætti. Vegna þess að þarna eru það alvarlegar ásakanir á hendur starfsmönnum dómsmrn. að við það verður ekki unað. Það er ekki hægt að sitja undir þessu, og það af ábyrgum embættismanni, fulltrúa lögregluvaldsins, fulltrúa ríkissjóðs, hann gegnir þarna þó nokkuð mörgum embættum í þessu máli, það getum við ekki látið átölulaust. Það verður að komast til botns í þeim ásökunum sem hann hefur borið fram. Þær eru ekki bara um að dómsmrn. hafi brotið 52. gr. almennra hegningarlaga, heldur segir hann að þetta þýði að verið sé að breyta fullnustu dóma, það brjóti önnur lög. Síðan kemur fram í lok greinargerðarinnar, ég held í einum fimm liðum, hvernig hann telur að dómsmrn. hafi brotið lög gagnvart hans eigin persónu. Við getum ekki látið slíkar fullyrðingar frá sýslumannsembætti sem vind um eyru þjóta. Það er ekki nóg að hæstv. ráðherra komi hér og segi: Starfsmenn dómsmrn. og embættismenn kannast bara ekkert við að þetta hafi verið gert. Ef ástæða er til að fá einhverja löglærða menn úr háskólanum til að fjalla sérstaklega um skýrslu Ríkisendurskoðunar, þá er fullkomin ástæða til að fá einhverja aðila til að fjalla sérstaklega um afstöðu og fullyrðingar sýslumannsins á Akranesi. Svo alvarlegar eru þær og geta haft mjög alvarlegar afleiðingar, því þær eru ekki til þess að auka tiltrú fólks, hvorki á störfum dómsmrn. né sýslumannsembættisins í þessu tilviki. Við hljótum því að fara fram á að þarna verði farið rækilega ofan í þær fullyrðingar.

Ég vil aðeins að lokum, virðulegi forseti, segja að þetta mál er í raun einfalt. Það snýst um að hagsmunum ríkissjóðs var ekki fylgt eftir sem skyldi. Ábyrgðin er auðvitað hjá hæstv. fjmrh. þó að það hafi verið embættismaður hans sem ekki fylgdi því eftir. Og við getum ekki sagt í öðru orðinu: Hann er ekki fulltrúi fjmrn. en í hinu orðinu að hann sé fulltrúi fjmrn. ef hann mætir sem sérstakur fulltrúi þess á uppboði.

Þessi títtnefndi maður hefur sagt í greinargerð sinni að það hafi komið honum algerlega í opna skjöldu að fjmrn. sendi ekki fulltrúa á staðinn. Hæstv. fjmrh. sagði að sýslumaður væri fulltrúi fjmrn. og hreint ótrúlegt að Ríkisendurskoðun hefði ekki áttað sig á því, því það kæmi ekki fram í skýrslunni.

En það sem öllu verra er að þessi ágæti sýslumaður virðist bara alls ekki hafa áttað sig á því hvert hlutverk hans var þennan dag miðað við þær fullyrðingar sem koma fram í greinargerð hans, því hann tekur alveg sérstaklega fram að hann hafi vænst þess að fulltrúi fjmrn. mætti og byði í bréfin, annað hafi komið sér algerlega á óvart og fullyrðir jafnframt að ríkissjóður hafi tapað verulegum verðmætum á því að mæta ekki á staðinn, eins og hann orðar það í greinargerðinni.

Það verður svo sem af nógu að taka fyrir þann óháða aðila sem fer yfir skýrslu Ríkisendurskoðunar og öll fylgiskjöl sem með henni eru, því í greinargerð vegna athugasemda við skýrslu Ríkisendurskoðunar um uppboðið á skuldabréfunum, sem Ríkisendurskoðun skilaði núna síðast, fylgir m.a. þessi ágæta greinargerð frá sýslumanninum á Akranesi og frá Ragnari Hall.

Ég held að rétt sé að fara yfir málið frá upphafi og jafnframt að gera þá kröfu til þeirrar nefndar að hún skoði hvort um önnur hliðstæð mál sé að ræða. Það sem snýr að fjmrn. er að það brást í hagsmunagæsluhlutverki sínu og á því hlýtur ráðuneytið að bera fulla ábyrgð, en það sem snýr að dómsmrn. eru í raun miklu, miklu alvarlegri hlutir varðandi þær fullyrðingar sem fram hafa komið frá sýslumanninum á Akranesi.