Samskipti dómsmálaráðuneytisins og lögregluyfirvalda

Þriðjudaginn 17. febrúar 1998, kl. 18:26:54 (3962)

1998-02-17 18:26:54# 122. lþ. 69.92 fundur 235#B samskipti dómsmálaráðuneytisins og lögregluyfirvalda# (umræður utan dagskrár), JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 122. lþ.

[18:26]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Út af síðasta svari hæstv. ráðherra, af því að hér hefur verið vitnað í allshn. og fund sem nefndin átti með Jónatan Þórmundssyni og það sem hann sagði þar, þá sagði prófessorinn að fullnustumatsnefnd hefði staðið frammi fyrir ákvörðun sem þá þegar hefði verið tekin í þessu máli. Ég get ekki skilið málið öðruvísi en svo að hér sé verið að vitna til skuldbindinga fyrrv. ráðherra í þessu máli og þannig hefði fullnustumatsnefnd og ráðherra verið stillt upp við vegg.

Varðandi fyrri spurningu mína um birtingu gagna um reynslulausnina, þá vísar ráðherra til birtingar á sakargögnum. Varla er sá hluti skýrslunnar, sem snýr að reynslulausninni, birting á sakargögnum. Þar erum við að tala um málsmeðferð framkvæmdarvaldsins, í þessu tilfelli dómsmrn. og meintum afskiptum þess af reynslulausninni. Þar er varla um að ræða birtingu sakargagna. Ég spyr hvort hæstv. ráðherra hafi leitað eftir því við saksóknara að sá kafli yrði birtur. Ég tel það auðvitað mikilvægt vegna þess að gagnrýnin hefur í dag og áður beinst að reynslulausninni.

Ég spyr því ráðherrann: Hefur hann leitað eftir því við saksóknara að fá þennan kafla birtan eins og þann er varðar skipulag lögreglunnar?