Almannatryggingar

Þriðjudaginn 17. febrúar 1998, kl. 18:46:07 (3967)

1998-02-17 18:46:07# 122. lþ. 69.2 fundur 459. mál: #A almannatryggingar# (endurgreiðsla sérfræðikostnaðar) frv., heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 122. lþ.

[18:46]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. 3. þm. Vestf., Einar Oddur Kristjánsson, er ekki sammála mér varðandi þá lagabreytingu sem liggur fyrir þinginu. Ég held að það sé vegna grundvallarmisskilnings sem kom fram í máli hans áðan. Hann sagði að óeðlilegt væri að greiða mönnum laun í vinnudeilu. Ég er alveg sammála því, enda er ekki um það að ræða í þessu tilviki. Við erum eingöngu að ræða um það að þeir sjúklingar fái endurgreitt sem eru hjá þeim læknum sem ekki eru á taxta Tryggingastofnunar í dag en verða það innan skamms tíma vonandi. Það er eingöngu verið að minna þá sjúklinga á, sem fara til þeirra lækna, að halda saman reikningum sínum til að hægt sé að endurgreiða þeim eftir á, því það er ekki hugsað að Tryggingastofnunin sem slík safni einhverjum fjármunum vegna þessarar deilu.

Annað grundvallaratriði sem við hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson erum ekki sammála um --- við erum reyndar oftast sammála þannig að það er ekki nema tilbreyting í því að við skiptumst nú á skoðunum --- er að heilbrrn. og Tryggingastofnun eigi að setja einhliða taxta. Ja, svo mikið veit fyrrv. formaður Vinnuveitendasambandsins í samningamálum að þá fyrst mundi flotinn sigla að landi ef þannig væri að málum staðið.