Almannatryggingar

Þriðjudaginn 17. febrúar 1998, kl. 19:23:53 (3983)

1998-02-17 19:23:53# 122. lþ. 69.2 fundur 459. mál: #A almannatryggingar# (endurgreiðsla sérfræðikostnaðar) frv., ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 122. lþ.

[19:23]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra hefur ekki gefið nein svör við því hvort hún sé tilbúin til að koma til móts við þá sjúklinga sem þurfa að bera allan kostnað verði þetta frv. óbreytt að lögum. Ég kalla því eftir afstöðu hæstv. ráðherra því komi í ljós að einhverjir læknar semji ekki, ég virði markmið hæstv. ráðherrans að vilja ná samningum við alla, en komi í ljós að einhverjir læknar nái ekki samningum, er hæstv. ráðherra þá tilbúin að endurskoða afstöðu sína á þann veg að þeir sjúklingar, sem hafa þurft að bera allan kostnað vegna þess að læknar þeirra hafa ekki náð samningum, fái sinn hluta, sjúklingshlutann greiddan frá Tryggingastofnun? Er ráðherra tilbúin að endurskoða afstöðu sína komi í ljós að þeir nái ekki samningum?

Ég spyr aftur vegna þess að svar kom ekki fram í ræðu ráðherrans við þeirri spurningu í ræðu minni áðan, hvort e.t.v. kæmi til greina að koma til móts við þá sjúklinga með endurgreiðslum vegna reglunnar um endurgreiðslu mikils læknis- og lyfjakostnaðar. Ég kalla eftir því hvort hæstv. ráðherra sé tilbúin til að endurskoða afstöðu sína hvað þetta varðar. Síðan munum við auðvitað skoða þetta mál í heilbr.- og trn. þegar þar að kemur en það er mikilvægt að afstaða ráðherrans komi fram í þessari umræðu.