Túnfiskveiðar

Miðvikudaginn 18. febrúar 1998, kl. 15:54:15 (4048)

1998-02-18 15:54:15# 122. lþ. 70.11 fundur 423. mál: #A túnfiskveiðar# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., sjútvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 122. lþ.

[15:54]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Í upphafi vil ég taka fram að settur hefur verið á fót starfshópur eða vinnuhópur til þess að móta tillögur um það hvernig nýting túnfiskstofnsins geti skapað okkur hámarksarð í framtíðinni. Er hópnum m.a. ætlað að fjalla um þörf á áframhaldandi rannsóknum um túnfisk hér við land, hvernig standa eigi að samvinnu á alþjóðavettvangi varðandi stjórnun á túnfiskveiðum og hvernig stjórnun þeirra veiða íslenskra skipa eigi að vera. Er að því stefnt að vinnuhópurinn skili skýrslu um málið fyrir lok aprílmánaðar.

Eins og ég hef þegar tekið fram á vinnuhópurinn m.a. að athuga þörf á frekari rannsóknum. Hins vegar má benda á að síðustu tvö ár hafa farið fram tilraunaveiðar á túnfiski innan íslenskrar fiskveiðilandhelgi á vegum Hafrannsóknastofnunar. Fyrra árið var árangur fremur dræmur en hið síðara mjög góður. Hefur verið gerð grein fyrir niðurstöðum þessara rannsókna hér á Alþingi.

Meðal annars vegna þess hversu mikið fannst af túnfiski í rannsóknunum virðist ástæða til að afla frekari vitneskju um göngur hans hingað og hvað ráði þeim. Slík vitneskja gæti bæði fengist með tilraunaveiðum sem færu fram á vegum Hafrannsóknastofnunar og eins veiðum íslenskra skipa. Þegar hefur komið fram að íslenskum fiskiskipum, sem leyfi hafa til veiða í atvinnuskyni innan íslenskrar lögsögu, er að sjálfsögðu heimilt að stunda túnfiskveiðar þar. Fram hefur komið að íslenskir aðilar hyggjast halda til þessara veiða næsta sumar, en komi ekki til þess eða ef talið verður að afla þurfi enn frekari upplýsinga getur til þess komið að Hafrannsóknastofnun beiti sér fyrir tilraunaveiðum og þá e.t.v. með svipuðum eða sama hætti og undanfarin tvö ár.

Ekki hefur staðið til að leggja fram frv. að lögum sem heimili erlendum skipum veiðar í íslenskri lögsögu. Raunar er meginatriðið í þessu sambandi, verði túnfiskveiðar taldar arðbærar í lögsögunni, að veiðar íslenskra skipa hefjist úr þessum stofni enda styrkir slíkt stöðu okkar best varðandi nýtingu þessa stofns í framtíðinni.

Varðandi samvinnu okkar við Færeyinga er rétt að taka fram að á fundi sjávarútvegsráðherra Íslands og Færeyja í desember sl. var rætt um þessi málefni og um mögulega samvinnu Íslendinga og Færeyinga, fyrst og fremst um upplýsingagjöf á milli landanna hvernig að málum væri staðið. En um formlegar viðræður varðandi gagnkvæmar veiðiheimildir er það að segja að engar slíkar viðræður hafa enn farið fram. Þróist mál á þann veg að það verði talinn fýsilegur kostur erum við að sjálfsögðu reiðubúnir til þess að skoða þau málefni.