Túnfiskveiðar

Miðvikudaginn 18. febrúar 1998, kl. 15:57:24 (4049)

1998-02-18 15:57:24# 122. lþ. 70.11 fundur 423. mál: #A túnfiskveiðar# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., Fyrirspyrjandi KPál
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 122. lþ.

[15:57]

Fyrirspyrjandi (Kristján Pálsson):

Herra forseti. Ég get út af fyrir sig verið ánægður með að búið sé að stofna vinnuhóp til að skoða hvernig þróunin eigi að vera á næstu árum og hlýtur að vera vandað til verka þar. Eftir því sem hæstv. ráðherra segir á sá hópur að vera búinn að ljúka sínu starfi fyrir lok apríl. Að sjálfsögðu er mjög skammur tími til þingloka ef það verður ekki búið að slíta þingi þegar þessi hópur verður búinn að skila áliti sínu. Ef við hyggjumst nýta okkur möguleika erlendra skipa til að veiða í landhelginni undir stjórn íslenskra útvegsmanna og sjómanna er að sjálfsögðu enginn tími til þess að setja lög til þess að ná þeim markmiðum. Ég lýsi því vonbrigðum mínum með að þessi hópur skuli þurfa allan þennan tíma. Búið er að stunda þessar tilraunaveiðar í tvö ár. Það er alveg ljóst hvernig þróunin hefur verið. Ekki er verið að fiska túnfisk í fyrsta skipti við Íslandsstrendur, það hefur verið gert í áraraðir. Því hefði ég gjarnan viljað sjá þessa vinnu ganga hraðar fyrir sig.

Ég fagna því að einhverjar viðræður hafa farið fram við Færeyinga um samstarf þjóðanna í þessum efnum en ég held að það sé mjög mikilvægt fyrir okkur upp á framtíðina að slíkt samstarf geti orðið sem nánast.

Að lokum beini ég einungis þeim tilmælum til hæstv. ráðherra að hann reyni að flýta störfum vinnuhópsins sem allra mest. Ég held að við megum ekki sofna á verðinum því að ég er hræddur um að við komum ekki þessum málum á þann grunn að við séum farnir að veiða að einhverju marki innan skamms tíma frjósum við inni í samningum okkar við ICAT sem við verðum að vinna með og erum þá reynslulausir í túnfiskveiðum framtíðarinnar.