Málefni Hanes-hjónanna

Miðvikudaginn 18. febrúar 1998, kl. 16:14:14 (4059)

1998-02-18 16:14:14# 122. lþ. 70.12 fundur 422. mál: #A málefni Hanes-hjónanna# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi SJóh
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 122. lþ.

[16:14]

Fyrirspyrjandi (Sigríður Jóhannesdóttir):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. dómsmrh. fyrir svörin og hv. alþingismönnum, sem hafa lagt orð í belg, sérstaklega fyrir að hafa komið og lagt þessu máli lið. Ég held að þetta sé mjög brýnt mál. Ég vil í fyrsta lagi taka fram og ítreka að von er á sendinefnd frá Bandaríkjunum á morgun til að ræða framsalsreglur milli landa með sérstöku tilliti til þessa máls. Ég verð að segja að mér finnst þetta vera yfirleikur hjá Bandaríkjamönnum og ekki mjög góður bragur á þessu. Við erum sjálfstæð þjóð og það er Hæstiréttur Íslands sem tók þessa ákvörðun og hún er fyllilega lögleg.

Það kom fram hjá hæstv. dómsmrh. að hann telur sig ekki eiga að hafa skoðun á því hvort Hanes-hjónunum verði veitt landvist vegna þess að þarna eigi að koma ákvörðun frá lægra settu stjórnvaldi, þ.e. útlendingaeftirlitinu. Það hefur komið fram í umræðum undanfarna daga að skoðun ráðherra hefur heilmikið að segja varðandi það hvaða ákvarðanir eru teknar af lægra settu stjórnvaldi svo ég held að það væri allt í lagi að hæstv. ráðherra hefði heilbrigða skoðun á málinu og léti hana í ljós.

Að síðustu tek ég heils hugar undir þau orð hv. þm. Guðrúnar Helgadóttur að Alþingi afgreiði málið með því að veita þessu fólki landvist ef ekki verður hægt að afgreiða það öðruvísi.