Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu

Fimmtudaginn 19. febrúar 1998, kl. 11:20:02 (4075)

1998-02-19 11:20:02# 122. lþ. 72.4 fundur 359. mál: #A eignarhald og nýting á auðlindum í jörðu# frv., SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 122. lþ.

[11:20]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. iðnrh. gleymir því að eftir að þessi álitsgerð barst varð það að samkomulagi í ríkisstjórn Davíðs Oddssonar að frv. yrði tekið fyrir að nýju og endursamið með hliðsjón af þessari álitsgerð. Það var gert í minni tíð og breytt frv. var lagt fram á ríkisstjórnarfundi í minni tíð sem að mati umsagnaraðila stóðst ákvæði stjórnarskrár. Á því frv. höfum við jafnaðarmenn og kvennalistakonur byggt okkar tillöguflutning á Alþingi. Það er því rangt hjá hæstv. iðnrh. að frv. mitt sem iðnrh. í þáv. ríkisstjórn, sem lagt var fram í ríkisstjórninni með beiðni um afgreiðslu hafi verið dæmt að stæðist ekki stjórnarskrána. Þvert á móti, því það var álit þeirra aðila sem umsögn um það veittu, þar á meðal annars þeirra umsagnaraðila sem hann gat um, að með þeim breytingum sem gerðar hefðu verið á frv. stæðist það fyllilega stjórnarskrána.

Þetta vildi ég að kæmi fram til að leiðrétta það sem hæstv. iðnrh. sagði. Ég vil trúa því að hann hafi ekki vitað betur því að ég trúi því vart að hann hefði farið upp með þessa yfirlýsingu ef honum hefði verið kunnugt um málsatvik.