Eignarhald á auðlindum í jörðu

Fimmtudaginn 19. febrúar 1998, kl. 15:16:52 (4107)

1998-02-19 15:16:52# 122. lþ. 72.5 fundur 425. mál: #A eignarhald á auðlindum í jörðu# frv., ÓÞÞ
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 122. lþ.

[15:16]

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Eitt atriði í málflutningi hv. þm. Sighvats Björgvinssonar kom mér til að hefja hér umræður á ný. Það eru draumórahugmyndirnar sem stundum koma fram um að þjóðin eigi að treysta því að Alþfl. ætli að leggja niður tekjuskattinn. Ég held að ég muni rétt að hv. þm. Sighvatur Björgvinsson hafi ekki verið á þeirri frægu þáltill. --- en hann gengur nú úr salnum. (SighB: Jú, jú, jú.) Var hv. þm. á þeirri frægu þáltill. sem hv. þáverandi formaður flokks þeirra, Jón Baldvin Hannibalsson og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir fluttu, þar sem lagt var til að eignatengja tekjuskattinn og leggja tekjuskattinn niður í reynd, það yrðu bara eignarskattarnir sem yrðu greiddir? Var hv. þm. á þeirri þáltill.? (SighB: Nei, ég var á tillögunni um að gefa út ...) Þá er það játað hér og nú að hv. þm. treysti sér á sínum tíma ekki til að fylgja þeirri tillögu (SighB: Ég var nú ekki á þingi.) og upplýsir að hann hafi ekki verið á þingi, en hvað færði þessi tillöguflutningur Alþfl. á sínum tíma? Hann færði þeim alveg ótrúlegt fylgi því þjóðin trúði því að þeir ætluðu að fara að leggja niður tekjuskattinn. (ÖS: Í hvaða flokki var ég þá?)

En hvað gerði hv. þm. Össur Skarphéðinsson þegar hann komst til valda á seinasta kjörtímabili? Jú, hann hækkaði tekjuskattinn þannig að hann hefur aldrei verið hærri í Íslandssögunni en hann var á því tímabili. Og ekki er skrýtið þó ég fyllist skelfingu þegar ég fæ af því fréttir hér og nú að Alþfl. ætli að fara að lækka tekjuskattinn. Þá hringja margar bjöllur í mínu höfði, þá er það bein tilkynning um að nú séu þeir að hugsa um að hækka hann.

Og skyldu menn nú vera eitthvað undrandi á því að þetta skuli koma hér fram? Það er þannig komið fyrir fylgi flokksins að það hefur sjaldan verið daprara. Þó er flokkurinn í stjórnarandstöðu, þó er hann í leiðtogahlutverki í sameiningunni. Hvað veldur? Enginn efar að hann hafi hæfari leiðtoga nú en hann hefur haft á undanförnum árum. (Gripið fram í: Jú.) Þess vegna er ekkert skrýtið þó að menn bjóði það nú í kaupmætti með þessu frv. ... (ÖS: Þeir eru búnir að gleypa Þjóðvaka. ... gekk úr Framsókn.) Hv. þm. Össur Skarphéðinsson er nú með upplýsingar um hvernig þeir ætli að bæta fylgið. Það sé búið að innbyrða Þjóðvaka en mér sýnist nú nokkuð vanta á. Foringinn stendur enn (Gripið fram í.) fyrir utan eftir því sem ég best veit, þótt búið sé að innbyrða vissa aðila sem þar voru í fylkingu, (Gripið fram í.) en þeir segjast vera byrjaðir að japla á Framsókn.

Það getur vel verið að nóg sé að flytja svona frv., láta í það skína að nú sé hægt að græða svo á að taka auðlindagjald af kolavinnslu á Íslandi, olíuvinnslu á Íslandi, jarðgasvinnslu á Íslandi, gullgreftri á Íslandi, járnvinnslu á Íslandi og hverju sem nöfnum tjáir að nefna, að hægt sé að leggja niður tekjuskattinn á einu bretti, leggja hann niður. Og hvaðan eru upplýsingarnar komnar? Þær er sko ekki af verri endanum. Þær eru komnar frá Bandaríkjunum. Bandaríkjamenn ætla að leggja niður tekjuskattinn. Það vill nú svo til að Bandaríkjamenn hafa í jörðu mikið af þeim efnum sem hér er verið að ræða um. Þeir eru einnig með hugmyndir um mengunarskatta og þeir hafa verið með hugmyndir um að þetta sé hægt hjá sér, e.t.v. með því að færa söluskattinn upp í 23%. En hvað skyldi virðisaukaskatturinn vera hár á Íslandi? Jafnvel formaður Alþfl. upplýsir það hér að varla væri hægt að fara miklu hærra með virðisaukaskattinn en hann er. Hann er 24,5% á þeim vörum sem hann er hæstur. Telja menn að við séum í þeirri stöðu að geta haft það eins og Bandaríkjamenn og hækkað söluskattinn upp í 23% og leyst þannig þessi mál? Nei, það er sko víðáttufjarri.

Hvernig sem á því stendur var einu sinni farið af stað með að hér ætti að vera 3% söluskattur og það töldu menn eins og hverja aðra vitleysu að hann þyrfti nokkurn tíma að fara upp í þær himinhæðir sem hann hefur komist í í dag undir nafninu virðisaukaskattur. En einhverra hluta vegna er það staðreynd að okkur dugar ekki að hafa mjög háar heimildir til að innheimta skatta, tækin duga ekki. Við erum engu að síður í þeirri stöðu að afla ekki nægilegra fjármuna. Þetta hefur náttúrlega orðið til þess að sumir þeir aðilar sem á sínum tíma börðust hvað harðast fyrir að hægt væri að tekjutengja eignarskattinn og losna á þann hátt við tekjuskattinn hafa talað um það í dag að það komist ekki allt til skila sem ríkinu er ætlað að fá. Og e.t.v. höfum við verið það viljugir við að útbúa glufur í skattkerfið að mjög erfitt er að hafa á kontról á að ná því inn sem ríkinu ber í þessum efnum.

En það athyglisverðasta við þetta allt saman var að þrátt fyrir að hér fari fram gífurleg sameiningarviðræða, eins og á sér stað í landinu, hafði hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon ekki frétt af því að Alþfl. liti svo á að tekjuskatturinn væri gjörsamlega úrelt tæki og bæri að leggja hann niður. Hann hélt enn fram gömlum kenningum Alþfl. fyrir 1950 um þessi mál. (Gripið fram í: 1930.) Sannleikurinn er sá að hann virtist miklu jarðbundnari, miklu nær raunveruleikanum. Miklu nær þeirri staðreynd að Íslendingar eru ekkert í færum um það, þó þeir samþykki þetta frv. og þó Alþfl. fengi alla þingmenn Íslands kosna, að geta lagt niður tekjuskattinn. Svona tal er gjörsamlega óábyrgt og flokkast undir hreint lýðskrum. Þess vegna þótti mér vænt um að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon vakti athygli á því að hér væri ekki um raunhæfa hluti að ræða. Það er eitt að tala um að menn vilji koma einhverri reglu á þá hluti sem í frv. eru eða fara að hreyfa því að þeir séu raunverulega að leggja drög að því að afla þeirra tekna í ríkissjóð með frv. eins og þessu, þ.e. að hægt sé að leggja niður tekjuskattinn. Það eru ótrúlegar blekkingar sem menn láta sér detta í hug að viðhafa í þessum efnum.