Skipan opinberrar nefndar um auðlindagjald

Fimmtudaginn 19. febrúar 1998, kl. 17:57:55 (4145)

1998-02-19 17:57:55# 122. lþ. 72.8 fundur 465. mál: #A skipan opinberrar nefndar um auðlindagjald# þál., StB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 122. lþ.

[17:57]

Sturla Böðvarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég er ánægður með þetta svar hjá hv. 8. þm. Reykv. Ég hef einnig hlýtt á ræður hv. 4. þm. Norðurl. e., Steingríms J. Sigfússonar. Hann hefur mjög ákveðnar meiningar í sambandi við þessi mál og sérstaklega álagningu auðlindagjalds eða auðlindaskatts. Ég dreg þá ályktun af svari hv. þm. að það megi jafnvel búast við þeim tíðindum að Alþfl., í ljósi samfylkingarviðræðna og þessarar tillögu Alþb., muni draga til baka hugmyndir sínar um auðlindaskatt. Ef þeir gera það ekki þá eru þeir ekki hæfir til samstarfs eða viðræðna um þá leið sem Alþb. er að leggja til hér og ég hef sagt hér við þessa umræðu að mér finnist skynsamleg og ég geti vel fallist á þá tilraun sem þeir leggja hér upp með.

Alþfl. hefur verið mjög einarður í þeirri afstöðu sinni að það eigi að leggja á auðlindaskatt, auðlindaskatt sem jafnvel leiði til þess að hægt verði að leggja af alla tekjuskattsálagningu í landinu og falla þar með frá þeirri tekjujöfnun sem tekjuskattur felur í sér í rauninni. Ég tel afar mikilvægt að fljótlega fáist í þinginu svar við þeirri spurningu hvort Alþfl. hafi fallið frá þessum hugmyndum. Ég get að sjálfsögðu, herra forseti, ekki ætlast til þess að hv. 8. þm. Reykv. svari þeirri spurningu en það er nauðsynlegt að hann hafi það veganesti í samfylkingarviðræður sínar við Alþfl.