Dánarvottorð o.fl.

Þriðjudaginn 24. febrúar 1998, kl. 18:46:19 (4190)

1998-02-24 18:46:19# 122. lþ. 74.10 fundur 464. mál: #A dánarvottorð# (heildarlög) frv., KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 122. lþ.

[18:46]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vildi nota rétt minn til andsvars til að beina spurningu til hæstv. heilbrrh. varðandi 10. gr. frv. Í athugasemdum kemur fram að í henni er að finna meginbreytingu þessara laga, frá gildandi framkvæmd eins og segir þar, og það varðar afhendingu dánarvottorða. Tilgangur þeirrar breytingar er sá að reyna að sjá til þess að dánarvottorð berist fyrr til Hagstofunnar þannig að þjóðskráin verði sem réttust. Ég er að reyna að átta mig á framkvæmdinni. Sá sem gefur út dánarvottorð skal afhenda venslamanni hins látna vottorðið. Síðan á venslamaðurinn að afhenda það sýslumanni í því umdæmi sem hinn látni átti lögheimili á dánardægri. Er þetta ekki býsna flókið í framkvæmd? Ég átta mig ekki á þessu, þ.e. þó þarna fækki aðilum hvort þetta verður eitthvað einfaldara í framkvæmd ef venslamenn þurfa að standa í slíkri afhendingu. Maður hugsar til þess þar sem eru stór umdæmi, t.d. umdæmi sýslumannsins í Reykjavík sem er býsna stórt umdæmi og nær upp í Kjós og hér í kringum Reykjavík, ef hæstv. ráðherra vildi aðeins skýra það fyrir okkur hvað það er sem gerir þessa framkvæmd einfaldari og gæti leitt til þess að dánarvottorðin bærust fyrr.