Réttarstaða íbúa á hjúkrunar- og dvalarheimilum

Miðvikudaginn 25. febrúar 1998, kl. 16:12:40 (4217)

1998-02-25 16:12:40# 122. lþ. 75.13 fundur 284. mál: #A réttarstaða íbúa á hjúkrunar- og dvalarheimilum# þál., GHelg
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 122. lþ.

[16:12]

Guðrún Helgadóttir:

Hæstv. forseti. Ég vil þakka þingflokki jafnaðarmanna fyrir að bera þessa tillögu fram. Það er sannarlega tími til kominn að taka þessi mál föstum tökum. Þau hefa lengi verið vandamál. Elliheimilin svokölluðu voru stofnanir sem enginn gat sætt sig við. Þar var gamalt fólk látið búa við þrjá aðra og jafnvel fleiri í sama herbergi, hvort sem því líkaði félagskapurinn eða ekki. Þær stofnanir voru á tímabili teknar í gegn eftir áratuga tilraunir til að lagfæra ástandið.

Þá voru byggð annars konar elliheimili eða dvalarheimili eins og það er kallað, oft með litlum íbúðum þar sem fólki var ætlað að búa líkt og í eigin húsnæði. Þar var lítill eldhúskrókur og aðstaða til að lifa eðlilegu lífi. Þetta hafa því miður verið orðin tóm. Í fæstum tilvikum eru þessi eldhús nokkurn tíma notuð og fólk dettur fljótlega inn í stofnanakerfi sem byggist á þeirri forræðishyggju sem gjarnan er beitt gagnvart öldruðu fólki.

Áður en við er litið er farið að ganga um á kvöldin með svefnpillur handa fólki sem aldrei í lífinu hefur tekið slíkt inn. Fólki er gert að koma og borða á nákvæmlega réttu kortéri. Því er gert að sitja við borð hjá ákveðnu fólki ár eftir ár, hvort sem það sækist nokkuð eftir því sjálft eða ekki o.s.frv. Við höfum áreiðanlega öll horft upp á að sjá okkar nánustu breytast úr þokkalega frísku og fjörugu fólki yfir í að verða ,,fólk á stofnun``. Ég held að fyrsta verkefnið sem verðugt væri að íhuga væri að reyna að skilgreina þessar stofnanir upp á nýtt.

[16:15]

Ég er alveg sammála því sem kom fram í máli hv. málsflytjanda að e.t.v. eiga dvalarheimili fyrir aldraða miklu frekar heima undir félmrn. en heilbrrn. og þá yrðu kannski skýrari skil milli sjúkraþjónustu og venjulegrar öldrunarþjónustu. Það er einfaldlega tvennt ólíkt. Aldrað fólk á að sjálfsögðu að njóta sömu sjúkraþjónustu og allir aðrir landsmenn, annað er gróf mismunun eins og ég hef áður sagt í ræðustól á þessu þingi. Við eigum að hafa ókeypis sjúkraþjónustu að miklu leyti og það á auðvitað að ná til þeirra sem eru orðnir aldraðir eins og til annarra.

Af því að tími minn er takmarkaður og ég gæti haldið langa ræðu um þetta mál skal ég reyna að taka saman það sem ég vildi sjá gerast. Í fyrsta lagi að skilgreind yrði þjónusta sem er boðin öldruðu fólki sem er nú að verða líklega einn fjórði af þjóðinni eða jafnvel hærri tala þannig að hér er ekki um smáhóp að ræða. Auðvitað á þetta fólk að fá almannatryggingabætur sínar greiddar út eins og annað fólk. Það á síðan að greiða það sem því ber til dvalarheimilis en það á líka að fá kvittun með skilgreindum atriðum: hvað það er að borga. Það sem það hefur áunnið sér í lífeyrissjóði kemur málinu bara ekkert við. Enginn hefur og enginn á að hafa leyfi til að vaða í lífeyrisgreiðslur fólks, taka þar það sem því sýnist og oft þannig að fólk hefur ekki hugmynd um fyrir hvað það er að borga. Að sjálfsögðu borgar fólk þar sem það býr á dvalarheimili eins og upp er sett og við því er ekkert að segja. En að lífeyrisgreiðslur fólks séu látnar ganga upp í sjúkraþjónustu er siðleysi og að ég hygg brot á stjórnarskránni eins og ég hef áður sagt í vetur. En það virðast ekki nema örfáir hv. þm. af kvenkyni hafa tekið þátt í umræðunni. --- Það er ekki alveg rétt, einnig nokkrir karlmenn, ég skal vera sanngjörn. Að bjóða nokkurri manneskju, sem býr í íbúð fyrir aldraða á svokölluðu dvalarheimili, upp á 11 eða 12 þús. kr. á mánuði til að lifa fyrir er auðvitað ekki boðlegt. Hvað gerir þetta gamla fólk? Það á börn sem eiga afmæli, það koma jól. Við skyldum halda að fólk hefði kannski ýmsar venjur og jafnvel lesti sem því ætti að vera gjörsamlega í sjálfsvald sett hvort það nýtur eins og aðrir landsmenn. Þetta nær auðvitað ekki nokkurri átt.

Eins og ég hef áður sagt byggist þetta á þessu viðhorfi: Gamalt fólk er komið á dvalarheimili til að geyma það þangað til það deyr. Það er ljótt að segja þetta en svona er þetta. Ekki er gert ráð fyrir að þetta fólk lifi eins og venjulegt fólk enda gerir það það ekki. Það er ekkert gert til þess að það geri það.

Þá er ég komin að einu atriði enn, og nú verð ég líklega að stytta mjög mál mitt, þ.e. að venjulegt dvalarheimili eða hjúkrunarstofnun á að greiða alla hluti eins og hjálpartæki og annað slíkt fyrir þetta fólk. Það gerir það ekki. Það gerir það allra nauðsynlegasta og ég hef engan fyrir mér annan í þessari stóru fullyrðingu en fyrirtæki í Hafnarfirði sem ég hef rætt við um þessi mál. Það er ólíkt sem er pantað handa fólki á dvalarheimilum og fólki, sem er að biðja um hjálpartæki af öllum toga, sem býr í heimahúsum. Þegar verið er að reikna út kostnað og eðlileg daggjöld á dvalarheimilum er ósköp lítið gengið eftir því hvað er í raun og veru borgað af þessum peningum. Grun hef ég um að gamla fólkið hafi hvorki hugmynd um hvað það er að borga til heimilisins né hvað það fær í staðinn. Það á auðvitað að geta gert kröfur um mat og um þjónustu. Það borgar mikla peninga fyrir dvöl sína. Það á ekki að vera þarna eins og sjúklingar sem enginn í hlustar á eða tekur tillit til sem venjulegs borgara í landinu.

Ég er alveg sammála því sem hér kemur fram að auðvitað eiga að vera þjónustukort fyrir fólk á dvalarheimilum eins og annars staðar, lyfjakort og annað slíkt sem það á að geta nýtt sér eins og aðrir borgarar.

Ég sé að tími minn er á þrotum og ég lofa því ekki, hæstv. forseti, að taka ekki aftur til máls ef fleiri gera svo. En bara að lokum: Hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir minntist á að menn borguðu með sér eða það gæti verið komið undir vali hvað fólk gæti borgað. Við vitum að það viðgengst, og síðast í gær talaði við mig ellilífeyrisþegi sem borgaði eina milljón króna til að komast inn á Hrafnistu. Þetta hefur viðgengist um árabil og þetta er auðvitað ekki boðlegt.