Kosningar til sveitarstjórna

Þriðjudaginn 03. mars 1998, kl. 15:34:40 (4280)

1998-03-03 15:34:40# 122. lþ. 76.12 fundur 225. mál: #A kosningar til sveitarstjórna# (heildarlög) frv. 5/1998, félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 122. lþ.

[15:34]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég átti þess því miður ekki kost að vera viðstaddur 2. umr. þessa máls en stend hér upp til að þakka hv. félmn. fyrir mikið starf að þessu verki, meira starf en ég átti von á þegar málið var til 1. umr. því á frumvarpinu urðu talsverðar breytingar í félmn. Upphaflegur tilgangur minn með þessum frumvarpsflutningi var að samræma lögin um kosningar til sveitarstjórna lögunum um kosningar til Alþingis, þ.e. að sníða kosningalög til sveitarstjórna og samræma þau lögunum um kosningar til Alþingis.

Að vísu lá fyrir að lögin um kosningar til Alþingis mundu taka breytingum fljótlega og þá reiknaði ég með að lögunum um kosningar til sveitarstjórna yrði breytt í kjölfarið. Í millitíðinni kom dómsmrn. með frumvarpsdrög um kosningar til Alþingis, þ.e. breytingar á lögunum um kosningar til Alþingis, og hv. félmn. hefur tekið upp ákvæði þessara frumvarpsdraga í sveitarstjórnarlagafrumvarpið. Það er gott og blessað og ég er mjög sáttur við það en nefni þó svona í framhjáhlaupi að vera kann að ekki vinnist tími til að breyta lögunum um kosningar til Alþingis fyrir næstu alþingiskosningar --- þó ég sé ekki að spá því, er það fræðilegur möguleiki --- og þá verður ósamræmi í þessum tvennum kosningalögum.

Eins kann svo að verða ef breytt verður lögunum um kosningar til Alþingis fyrir næstu alþingiskosningar að þar verði meiri breytingar á en eru í þessu frv. um sveitarstjórnarkosningar þannig að það getur þurft að breyta aftur eða endurbæta þessa lagasetningu eftir að lög um kosningar til Alþingis hafa verið að fullu afgreidd héðan frá Alþingi. Hugsanlega er því hér verið að tjalda til einnar nætur eða fárra. En meginatriðið er að hægt verður að kjósa eftir þessum lögum í vor. Ég vænti þess að þau séu skýr og stuðli að greiðri og skýrri framkvæmd næstu sveitarstjórnarkosninga og að þeim sem annast eiga stjórn sveitarstjórnarkosninganna í vor takist að vinna eftir þessum nýju lögum.