Aðstaða landsmanna til að nýta sér ljósleiðarann

Miðvikudaginn 04. mars 1998, kl. 14:05:33 (4321)

1998-03-04 14:05:33# 122. lþ. 78.2 fundur 468. mál: #A aðstaða landsmanna til að nýta sér ljósleiðarann# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 122. lþ.

[14:05]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Ég vil í fyrsta lagi segja að það er mikill misskilningur að um gervifjárfestingu sé að ræða í ljósleiðaranum og mikill misskilningur ef hv. þm. heldur að Landssíminn geti komið sjónvarpsefni inn á öll heimili í landinu án kostnaðar. Auðvitað kostar það verulega fjármuni ef Landssíminn á að taka þá þjónustu að sér og það verður að sjálfsögðu óverjandi að ráðast í slíkt nema jafnframt verði gerðar ráðstafanir til að þjónustan um það sem farið er að kalla breiðvarp verði miklu fyllri og betri en nú er og nýjum rekstraraðilum gefist kostur á því að komast inn á þann fjarskiptamarkað.

Í þessu sambandi vil ég benda á að þegar við erum að ræða um sjónvarps- og hljóðvarpsflutning sem nær til 80 þúsund heimila á landinu er hægt að fá það fyrir 37 millj. kr. Landssíminn telur þessa gjaldskrá lága að teknu tilliti til bandbreiddar og þeirra gæða sem krafist er í flutningi eins og þessum.

Auðvitað er hægt að hugsa sér að opinber fyrirtæki eins og sjónvarpið og pósturinn taki að sér án endurgjalds að koma þjónustu út á land fyrir markaðsráðandi fyrirtæki. Mér finnst satt að segja ekki koma nægilega vel fram hjá þingmönnum að það er ástæða til að ætlast til þess að fyrirtæki eins og Stöð 2, sem hefur einokunaraðstöðu á markaðnum ásamt Ríkisútvarpinu, leggi meiri áherslu á það en hún hefur gert að koma sjónvarpsefninu til sem flestra íbúa landsins án þess að opinber kvöð þurfi að koma til í því sambandi á meðan við höfum ekki fleiri sjónvarpsrásir handa nýjum aðilum sem vilja vissulega koma inn á markaðinn. Við erum að tala um fákeppni og er ástæða til að ætlast til mikils af þeim sem njóta þess að vera í skjóli fákeppninnar.