Húsnæðismál

Mánudaginn 09. mars 1998, kl. 16:11:21 (4455)

1998-03-09 16:11:21# 122. lþ. 82.16 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 122. lþ.

[16:11]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Nei, þessi ræða upplýsti ekki mikið. Hún var frekar dæmalaus. Fyrst út af frv. sem ráðherrann minntist á að ég hefði flutt hingað inn. Það er rétt að ég bar hingað inn frv. fyrir jólin 1994. Það var einn mánuður fram undan, febrúarmánuður, í aðdraganda kosninga 1995 og ég hafði tekið við frv. frá nefnd sem hafði starfað í tvö ár. Ég vildi óska þess að það frv. sem ráðherrann var að mæla fyrir hér hefði sömu formerki og þá voru höfð með því frv. Þau voru nefnilega þessi: Takið við þessu frv. í félmn. og gerið þær breytingar sem þið treystið ykkur til vegna þess að í því eru svo miklar umbætur sem beðið hefur verið eftir, m.a. af landssambandi húsnæðisnefnda, að það verður að gera breytingar. En gerið það sem þið treystið ykkur til og komið ykkur saman um, m.a. varðandi fyrningarreglurnar. Ég tók það óbreytt þess vegna. Þá hefur það komist til skila.

Það er ekki allt alvont frá ríkisstjórn og ég minni á að við vorum hér að greiða atkvæði með fjórum stjórnarfrv. í upphafi þessa fundar, m.a. flóknu frv. um dómstóla. Þetta er því bara kjaftæði.

Af því að ráðherrann var ekki vel lesinn í stefnu Sjálfstfl. þá er hún hér á blaði, frá landsfundi 1996 og þar segir að Húsnæðisstofnun ríkisins verði lögð niður í núverandi mynd og Byggingarsjóður ríkisins og Byggingarsjóður verkamanna verði sameinaðir í eina sjálfstæða lánastofnun sem fjármagni íbúðalán og að hin nýja lánastofnun verði einkavædd fyrir aldamót. Virðulegi forseti. Það er frekar broslegt að ráðherrann skuli leggja áherslu á að Sjálfstfl. hafi fallist á tillögur Framsfl. í þessa veru.

Að lokum þetta, af því ráðherrann segir það fjarstæðu að ekki verði nóg af félagslegum íbúðum: Jú, það á að skoða málið fyrir árið 2000. Boðskapurinn núna er sem sagt tregða, það að loka fyrir fólk sem áður hefði komist inn í félagslega kerfið og svo á að skoða seinna með leiguíbúðir. Seinna, seinna, seinna.