Húsnæðismál

Mánudaginn 09. mars 1998, kl. 16:32:01 (4467)

1998-03-09 16:32:01# 122. lþ. 82.16 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv., JóhS (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 122. lþ.

[16:32]

Jóhanna Sigurðardóttir (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég fer fram á það að hæstv. fjmrh. verði viðstaddur þessa umræðu og að umræðan haldi ekki áfram fyrr en hæstv. fjmrh. hefur komið í salinn. Hér hafa komið fram upplýsingar sem hafa veruleg áhrif á umræðuna og framhaldið. Við verðum að geta byggt á réttum upplýsingum.

Við höfum haldið því fram að með þessu frv. sé verið að úthýsa fjölda fólks sem hefur fengið félagslega aðstoð. Ráðherrann heldur því fram að byggja eigi miklu fleiri en 50 leiguíbúðir á næstu tveimur árum, en hæstv. fjmrh. segir í áliti sínu að samkvæmt bráðabirgðaákvæði VIII sé Íbúðalánasjóði heimilt að veita lán til leiguíbúða með niðurgreiddum vöxtum árið 1999--2000. Fjöldi og upphæð lána skal taka mið af framlagi ríkissjóðs í fjárlögum og áætluðum kostnaði vegna niðurgreiðslu vaxta. Miðað er við að veitt verði lán til allt að 50 leiguíbúða til 50 ára og síðan er vísað í VIII. kaflann, ekki bara innlausnaríbúðir eins og hæstv. ráðherra sagði, sem er kaflinn um lán til leiguíbúða en sá kafli kveður á um að Íbúðalánasjóður veiti sveitarfélögum, félögum og félagasamtökum lán til þess að byggja. En það á að veita í þetta 75 millj. kr. til 50 leiguíbúða næstu tvö árin eftir að þessi lög taka gildi.

Við höfum verið að fjalla um að stórum hópi sé úthýst sem ekki fær inni í leiguíbúðum sem kemur aftur og aftur eins og rauður þráður í gegnum þessar umræður. Við verðum auðvitað að fá að vita, herra forseti, áður en umræðan heldur áfram hvort byggja eigi 50 leiguíbúðir eða hvort byggja eigi 500 leiguíbúðir vegna þess að hæstv. ráðherra sagði að það væri fráleitt að halda því fram að einungis ætti að byggja 50 íbúðir á næstu tveimur árum.

Þess vegna óska ég eftir því, herra forseti, og spyr hvort hæstv. fjmrh. sé hér í húsinu.

(Forseti (RA): Forseti getur upplýst að hæstv. fjmrh. er ekki í húsinu enda mun hann hafa fjarvistarleyfi.)

Herra forseti. Fyrst svo er, þá sé ég ekki fram á annað en ég fari fram á það formlega og óski eftir því að þessari umræðu verði frestað til morguns þar til hæstv. fjmrh. getur verið viðstaddur umræðuna þannig að við vitum hvor fari með rétt mál, hæstv. félmrh. eða hæstv. fjmrh. Þetta er bara eitt stærsta innlegg í þá umræðu sem hér á að fara fram í dag, hvort byggja eigi 50 leiguíbúðir, 100, 200 eða 500. Því getur hæstv. fjmrh. væntanlega svarað. Hann segir allt annað í sínu áliti en félmrh. og ég óska eftir því fyrst hæstv. ráðherra fjármála getur ekki verið með okkur í dag, sem ég verð að virða, hann hefur sjálfsagt eðlilegt fjarvistarleyfi, ég skal ekki rengja það, en ég fer fram á það formlega, herra forseti, að þessari umræðu verði frestað til morguns.