Húsnæðismál

Mánudaginn 09. mars 1998, kl. 16:46:23 (4475)

1998-03-09 16:46:23# 122. lþ. 82.16 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv., SvG (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 122. lþ.

[16:46]

Svavar Gestsson (um fundarstjórn):

Herra forseti. Þetta var athyglisvert heiti á umsögnum fjmrn. sem kom fram hjá hæstv. forsrh., viðmiðunarumsögn, sem er nýyrði og vekur örugglega mikla kátínu og gleði í fjmrn. ef ég þekki þar rétt til. En ástæðan til þess að fjmrh. er kallaður fyrir er sú að frv. er lagt fram með fyrirvara fjmrh. eins og stendur á bls. 101. Þar er fskj. III, sem er sérstök yfirlýsing fjmrh. sjálfs um þetta frv. þannig að þetta er ekki eingöngu á forræði félmrh. eins og venjulega, heldur er hér um að ræða frv. sem er á forræði þeirra beggja. Hér stendur, með leyfi forseta:

,,Um leið og félagsleg fjárhagsaðstoð hins opinbera verður markvissari en áður er mikilvægt að tryggja að fyllsta samræmis verði gætt við allar ákvarðanir sem lúta að vaxtabótum og annarri húsnæðisaðstoð. Hlutaðeigandi ráðuneyti munu því verða að hafa náið samstarf um mögulegar breytingar á aðstoðinni í framtíðinni og fjármálaráðherra fullt samráð við félagsmálaráðherra um meðferð og ákvörðun vaxtabóta.``

Hér er með öðrum orðum lagt fram frv. á vegum félmrh. þar sem fjmrh. segir: Ég ræð líka. Og ég hygg að það sé algert einsdæmi að til viðbótar við viðmiðunarumsögnina, sem hæstv. forsrh. var að tala um áðan, fylgi sérstakur aukastimpill, aukapinkill frá fjmrh. í þessu efni. (Gripið fram í.) Þess vegna segi ég, herra forseti, að ég tel það algjörlega óhjákvæmilegt, af því félmrh. gerði ekki grein fyrir þessari bókun í framsöguræðu sinni í málinu, (Gripið fram í: Gerði það víst.) Ég tel það óhjákvæmilegt, herra forseti, að fjmrh. verði kallaður hér fyrir og kallaður heim. Ef ríkisstjórninni liggur svona mikið á að ljúka þessu máli, þá á bara að kalla ráðherrann heim. Hann hefur ekkert annað betra að gera ef ríkisstjórnin telur þetta forgangsmál en að fylgja því eftir. Ég skora því á hæstv. forsrh. að beita sér fyrir því að málið geti fengið eðlilega meðferð, með því að fjmrh. sé á staðnum og ræki skylduverk sín en sé ekki einhvers staðar annars staðar að sinna öðrum verkum sem skipta litlu máli miðað við þetta samkvæmt þeim áherslum sem ríkisstjórnin virðist leggja á það. Ég óska sem sagt eftir því, herra forseti, að þetta verði gert og ég segi í framhaldi af orðum hv. þm. Valgerðar Sverrisdóttur: Þetta er málefnaleg beiðni. Vegna umsagnar fjmrn. og fjmrh. er þetta málefnaleg beiðni. Við gerum þá kröfu að fjmrh. komi hingað, hann hefur ekkert annað betra að gera.