Húsnæðismál

Mánudaginn 09. mars 1998, kl. 17:47:01 (4489)

1998-03-09 17:47:01# 122. lþ. 82.16 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv., félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 122. lþ.

[17:47]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. 5. þm. Vesturl. sérstaklega fyrir málefnalega ræðu og reyni að svara á örstuttum tíma sem ég hef spurningum sem hann beindi til mín.

Hv. þm. spurði hvernig staða þeirra væri sem væru á lágmarkslaunum. Ég vil biðja hv. þm. að fletta upp á bls. 86 í frv. Þá sér hann samanburð á greiðslum einstaklinga með 80 þús. kr. lágmarkstekjur sem er að vísu nokkru hærra en umsamin lágmarkslaun. Þarna sést á myndinni að þessi einstaklingur kæmi til með að standast greiðslumat ef hann væri ekki með einhverjar verulegar skuldir á bakinu. Hann mundi sem sagt hafa fyrstu 25 árin betra í nýju kerfi en í gamla kerfinu og talsvert betra framan af og um miðbik tímabilsins. En vel að merkja, hann þarf að geta lagt fram 500 þús. kr. í byrjun til húsakaupanna.

Um gjaldþrota einstaklinga, þá fer það væntanlega eftir gjaldþrotalögum og þetta breytir ekki gjaldþrotalögunum sem slíkum. Skuld við Húsnæðisstofnun fyrnist núna samkvæmt þeim reglum sem þar eru viðhafðar á fimm árum. Ekki er gert ráð fyrir neinni breytingu á því.

Það sama gildir um öryrkja og um fólkið á lágmarkslaununum. Byggingarsjóðirnir léðu fé til Byggingarsjóðs verkamanna, fjármögnuðu Byggingarsjóð verkamanna í fortíðinni. Nú eru þeir hættir því og það var vissulega rétt að gerðir voru samningar um áfanga í fortíðinni en það er bara liðin tíð.