Húsnæðismál

Mánudaginn 09. mars 1998, kl. 18:46:24 (4500)

1998-03-09 18:46:24# 122. lþ. 82.16 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv., SJS (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 122. lþ.

[18:46]

Steingrímur J. Sigfússon (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég vísa til þeirra umræðna sem urðu hér fyrr í dag um fundarhaldið og óska okkar í stjórnarandstöðunni um að sem allra fyrst yrði skotið á fundi forustumanna þingflokka og forseta til að reyna að ná einhverju samkomulagi um tilhögun fundarhaldsins og málsmeðferðina hér. Þá er ég að sjálfsögðu að vísa til bæði þess frv. sem er á dagskrá og eins frv. hæstv. fjmrh. og fjarveru hæstv. fjmrh. Því að vísu sást hæstv. forsrh. hér í mýflugumynd og tilkynnti að hann væri starfandi sem fjmrh. en það var greinilegt að hann þurfti að bera sig saman við félmrh. um hlutina áður en hann gat svarað hér að svo miklu leyti sem það voru svör. Allar aðstæður í þessu máli eru þannig, herra forseti, að það eru fullkomin rök fyrir því að knýja ekki áfram þessa umræðu af mikilli hörku. Ég tel reyndar að við höfum sýnt því umburðarlyndi að þessi umræða héldi áfram þrátt fyrir óskir okkar í dag um að þá yrði gert hlé á fundi, hafandi heyrt rök forseta sem þá sat á forsetastóli og óskir hans um að menn létu gott heita að umræðan héldi áfram enn um sinn, eins og það var þá orðað. Það ,,enn um sinn`` er orðið býsna langt, nú er klukkan að verða sjö. Ég held að það væri mjög hæfilegt í ljósi allra þessara kringumstæðna að gera nú hlé og hafa kvöldmatarhlé af venjulegri lengd, í eina og hálfa klukkustund, þannig að fundinum yrði í öllu falli ekki haldið áfram fyrr en kl. hálfníu, án þess að ég sé þó þar með að skrifa upp á það að hér verði kvöldfundur með óreglulegum hætti eða umfram það sem venja er, því um slíkt hefur ekki verið gert neitt samkomulag. Mér fyndist því hyggilegt af hæstv. forseta að halda a.m.k. ekki lengur áfram hér í ágreiningi með fundarhaldið og verða við sanngjörnum tilmælum okkar um að gera nú hlé á þessari umræðu.