Húsnæðismál

Mánudaginn 09. mars 1998, kl. 21:25:23 (4508)

1998-03-09 21:25:23# 122. lþ. 82.16 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv., GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 122. lþ.

[21:25]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um húsnæðismál sem er mjög umdeilt eins og breytingar á húsnæðiskerfinu eru ávallt, enda er það grundvallaratriði hvort þjóðfélagið býr þegnum sínum þá aðstöðu að geta eignast húsnæði yfir höfuðið með sómasamlegum hætti.

Húsnæðismál hafa líklega verið stærri mál í okkar þjóðfélagi en víðast hvar í nágrannalöndunum og ég held að þar komi mjög margt til. Í fyrsta lagi skal nefna óðaverðbólgu undanfarinna ára sem hefur ruglað fólk mjög í ríminu og skapað mikla óánægju og óréttlæti á milli kynslóða. Í öðru lagi má nefna að við búum í mjög köldu og dimmu landi yfir vetrarmánuðina og þess vegna leggur fólk kannski meira upp úr íbúðum sínum hér en það gerir víða í nágrannalöndunum, þ.e. örugg og góð heimili eru fólki mjög mikilvæg í okkar landi.

Enn önnur ástæða fyrir því að húsnæðismálin eru mjög mikilvæg hér er sú hversu húsaleigumarkaðurinn er vanþróaður. Það er því mjög nauðsynlegt fyrir flestar fjölskyldur að koma yfir sig þaki, jafnvel þó að þær væru til í að leiga ef aðstæður byðu upp á það eins og gerist víðast hvar í nágrannalöndunum.

Eins og þegar hefur komið fram er um stórpólitískt mál að ræða sem snýst kannski fyrst og síðast um það að loka á félagslega eignaríbúðakerfinu í núv. mynd. Það á að gera án þess að nokkuð annað komi sýnilega í staðinn. Félagsleg jöfnun við öflun eigin húsnæðis á að vera í formi sérstakra viðbótarlána og fjárhagsleg aðstoð við einstaklinga á að fara fram í gegnum vaxtabótakerfið, sem að vísu á að breyta. En hvað hefur reynst öruggt til þessa í sambandi við vaxtabætur? Ég held að fólk í landinu almennt vantreysti því að hægt sé að stóla á vaxtabæturnar eftir það sem á undan er gengið.

Vandi félagslega húsnæðiskerfisins hefur blasað við mjög lengi og ég tek undir það sem segir í tilkynningu frá ASÍ að sá vandi er í aðalatriðum þessi: Í fyrsta lagi fjárhagsstaða Byggingarsjóðs verkamanna og yfirvofandi greiðsluþrot hans. Þarna er um að ræða að ríkið þyrfti að greiða um 800--900 millj. kr. á ári inn í þetta kerfi en að undanförnu hafa um 275 millj. kr. farið inn í kerfið og segir sig sjálft að kerfið er í miklum ógöngum og reyndar mjög nauðsynlegt þar af leiðandi að taka á því.

Í öðru lagi vandi nokkurra sveitarfélaga vegna innleystra en óráðstafaðra félagslegra íbúða. Tölur um þetta atriði komu fram í ræðu hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur og ég ætla ekki tímans vegna að endurtaka þær hér.

Í þriðja lagi vandi þess fólks sem á í greiðsluerfiðleikum vegna félagslegra eignaríbúða. Það er vitað mál og margir kannast við þann vanda.

Í fjórða lagi er vandi þess fólks sem ekki kemst inn í félagslega húsnæðiskerfið vegna lágra tekna. Þessi atriði eru viðurkennd og á þeim þyrfti að taka, en það er að mínu mati ekki gert með trúverðugum og æskilegum hætti í þessu frv.

[21:30]

Markmið þessa frv. eru tilgreind í átta liðum á bls. 19--20 í greinargerðinni. Mig langar að vekja athygli á þeim. Sum þeirra eru mun ásættanlegri en önnur. Í fyrsta lagi er talað um að einfalda og samræma eigi meðferð og lánveitingar til húsnæðismála til lengri tíma litið. Þetta er í sjálfu sér ágætt markmið. Í öðru lagi er talað um að stofna sjálfstæðan sjóð, Íbúðalánasjóð, sem ætlast er til að verði fjárhagslega sjálfstæður til framtíðar og standi undir lánveitingum sínum og rekstri með eigin tekjum. Ég tel þetta í sjálfu sér gott markmið en um leið er verið að taka ákvörðun um að minna verði lagt til af almannafé til að styrkja þá sem höllum fæti standa og eiga erfitt með að koma sér upp eigin húsnæði. Það kemur kannski meira inn á þriðja markmiðið sem er að sameina Byggingarsjóð ríkisins og Byggingarsjóð verkamanna.

Markmiðin eru talin þarna í fjórða til áttunda lið og ég ætla ekki að eyða tímanum í að fara í þau öll. En af þessum markmiðum finnst mér langalvarlegast að nú eigi nánast að leggja niður félagslega íbúðakerfið án þess að ljóst sé hvað komi í staðinn. Mér finnst, herra forseti, í sjálfu sér í lagi að leggja Húsnæðisstofnun ríkisins niður ef hún væri óþörf en sá sjóður sem koma á í staðinn, Íbúðalánasjóður, á að vera sjálfbær og standa undir rekstri með eigin tekjum. Ég vil ítreka að þarna eru stöðvaðar, að einhverju leyti, greiðslur úr ríkissjóði. Það hlýtur að lenda á þeim sem höllustum fæti standa.

Í staðinn er vísað á vaxtabæturnar. Það kerfi tengist auðvitað skattkerfinu og ég vil meina að fólk hafi ástæðu til að efast um að sé nógu traust og varanlegt kerfi. Að sumu leyti virðist mér að reyna eigi svipaðar breytingar og gerðar hafa verið með Lánasjóð íslenskra námsmanna á undanförnum árum. Hér er reynt að gera kerfið sjálfbært sem auðvitað getur verið ágætt út af fyrir sig en um leið er verið að taka þá stórpólitísku ákvörðun að minna skuli stutt við láglaunafólk en hingað til hefur verið gert í tengslum við íbúðakaup.

Annað athyglisvert atriði sem talið hefur verið þessu frv. til tekna, og ég vil að sumu leyti taka undir, er að menn geti fengið viðbótarlán. Þeir sem hafa lágar tekjur eiga að geta fengið viðbótarlán í gegnum mat sveitarfélaganna til að kaupa almennar íbúðir úti í bæ, umfram það sem verið hefur. Þau lán eru ekki bundin við tilteknar félagslegar íbúðir í ákveðnum hverfum eða ákveðin hús. Ég tel að sú breyting væri til bóta ef hún væri sönn en því miður virðast sveitarfélögin geta skilyrt viðbótarlán við tilteknar íbúðir. Frelsið sem boðað er í þessu frv. er ekki frelsi í raun.

Ég ítreka þá skoðun mína að það sé til bóta að félagslegum íbúðum, hvort sem þær eru leiguíbúðir eða eignaríbúðir, sé dreift um hverfi viðkomandi sveitarfélaga. Það var í raun og veru með ólíkindum að við skyldum að mínu mati gera sömu mistök í því máli og ýmsar stórborgir erlendis hafa þurft að ganga í gegnum. Ég minnist þess t.d. að þegar ég var námsmaður í Bretlandi árið 1974 var mikil umræða um að óæskilegt væri að byggja félagslegt húsnæði í ákveðnum hverfum. Litlu síðar var t.d. eitt þekkt hverfi í Manchester, Hulme-hverfið, eiginlega aflagt. Seinna frétti ég að það hefði verið jafnað við jörðu. Á sama tíma vorum við að byggja upp álíka hverfi hér. Ég vil alls ekki segja að þetta séu sams konar hverfi en ég sá strax að þarna var varhugaverð stefna á ferðinni. Ég fagna því innilega að þarna eigi að koma til meiri dreifing á félagslegu húsnæði.

Með þessu er ég alls ekki að taka undir þá gagnrýni sem heyrst hefur í umræðunni um að þessi stefna hafi leitt til að svokölluð ,,gettó`` eða eitthvað slíkt mynduðust. Samt sem áður eru almenn og félagsleg prinsipp sem gera það að verkum að mér finnst æskilegra að dreifa íbúðarbyggð sem mest og ekki séu sköpuð hverfi sem talin séu síðri en önnur.

Virðulegi forseti. Mesta áhyggjuefnið í sambandi við þetta frv. er það hvernig tryggja á láglaunafjölskyldum húsnæði. Hvað verður um þær fjölskyldur sem að undanförnu hafa notið félagslega íbúðakerfisins, hvort sem þær eru 600 eða fleiri. Ég vitna þar í ræðu hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur sem talaði um 600 fjölskyldur hefðu fengið 100% lán og benti á að einungis 17% þeirra væru í vanskilum. Ég velti fyrir mér hvað verði um þetta fólk. Hvað verður um þá sem hingað til hafa notið fyrirgreiðslu í kerfinu? Lendir þetta fólk á götunni? Þetta fólk á samkvæmt þessu kerfi kost á viðbótarláni í gegnum mat sveitarfélaganna. Ég velti því fyrir mér hvernig það eigi að ráða við greiðslubyrðina. Þá er bent á vaxtabætur en eins og ég sagði áðan trúi ég passlega á að þær verði tryggðar nema á fjárlögum frá ári til árs. Þær eru hluti af skattkerfinu en ekki af því félagslega húsnæðiskerfi sem ég vildi gjarnan að við hefðum áfram.

Eins og ég sagði áðan væri kannski í lagi að breyta félagslega íbúðakerfinu ef fólk hefði raunverulegt val, t.d. um það að komast í leiguhúsnæði. Því miður virðast engar tryggingar vera fyrir því í frv. að leigumarkaðurinn eflist og verði boðlegur fyrir venjulegar fjölskyldur. Ég á þar við boðlegt verð. Það þyrfti að vera á færi láglaunafólks að greiða leigu og jafnframt þyrfti að vera hægt hægt að gera húsaleigusamninga til margra ára eins og nú er hægt innan félagslega leiguíbúðakerfisins að vissu marki. Víða erlendis tíðkast að leigja jafnvel til áratuga. Á árinu 1996 var í Reykjavík 379 umsókna biðlisti eftir leiguíbúðum, auk 422 umsókna um leiguíbúðir aldraðra. Þetta sýnir að mikið vantar til að eftirspurn verði fullnægt og mér sýnist að í þessu frv. sé ekkert sem tryggir að framboðið aukist.

Það hefur verið þörf á að taka á vanda ákveðinna sveitarfélaga vegna bygginga á félagslegum íbúðum. Þá á ég við sveitarfélög sem kannski hafa farið offari og notað byggingu félagslegra íbúða sem einhvers konar atvinnubótavinnu. Ég held að þannig sé ástatt með nokkur sveitarfélög en hér er gert ráð fyrir því að hin sveitarfélögin greiði fyrir þau mistök. Framlag sveitarfélaganna verður um 5% af hverju viðbótarláni og fer í varasjóð til að mæta útlánatöpum. Greiði sveitarfélögin ekki þessi 5% fá íbúar þess sveitarfélags engin félagsleg lán.

Virðulegi forseti. Húsnæðismálin eru stórmál í íslensku þjóðfélagi. Ég hef langmestar áhyggjur af öllum einstæðu mæðrunum og láglaunafjölskyldunum sem hér er vegið að án þess að tryggt sé hvað kemur í staðinn. Ég tel að húsbréfakerfið, þó þar séu háir vextir og kerfið sé ekki gallalaust, hafi verið til bóta umfram það sem áður þekktist. Núna stefnir enn einu sinni í óvissu. Það er ekkert skrýtið þó tekist sé á um frv. og væntanlega á það ekki mjög greiða leið í gegnum þingið.